13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 846 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

117. mál, útsvör

Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil benda á, að það, sem sérstaklega vakti fyrir mönnum, þegar breytt var um álagning útsvara, var það, að menn væru ekki eltir með skatt fyrir hvað litlar framkvæmdir, sem þeir hefðu annarsstaðar, og í öðru lagi, að kunnugleiki heimasveitarmanna væri mestur til þess að ákveða útsvörin. Hitt vita allir, að þetta hefir verið misnotað herfilega.

Við höfum nýlega heyrt dóm, sem fallinn er í útsvarsmáli. Málavextir voru þeir, að maður átti eign, sem var metin á 40 þús. kr.; hann leigir hana fyrir 10 þús. kr., endurbætur voru miklar, 5000– 6000 á ári. Ennfremur fylgdu eigninni bryggjuafnot. Hreppurinn lagði 5 þús. kr. útsvar á manninn, en hann hafði ekki haft meiri nettótekjur en 3700 kr.

Það er óeðlilegt, að lagður sé skattur á menn fyrir að flytja peninga inn í annað hérað til þess að koma þar einhverju í framkvæmd. Annan skilning höfum við Ísfirðingar á þessu heldur en Reykvíkingar. Við yrðum fegnir því, ef menn úr Reykjavík vildu leggja fram peninga til þess að byggja hús á Ísafirði. Það er langt frá því, að okkur dytti í hug að leggja á þá útsvar þar, heldur mundum við bakka þeim fyrir og telja það bænum til hagsbóta. En þetta getur orðið hreint eignarnám, ef leyft verður. Það getur oft staðið svo á, að maður, sem t. d. í Rvík á 25 þús. kr. húseign, sem hann hefir 3 þús. kr. tekjur af, skuldi eins mikið og húseignin er virði. Og þó að einhver afgangur yrði, væri óeðlilegt að taka þennan eina gjaldstofn, sem heimasveitin hefir, þannig að hún yrði án útsvars.

Ég vænti þess, að hv. d. muni ekki ganga inn á þessa skoðun og samþ. frv., því að það er ekki til hagsbóta nema allra stærstu kaupstöðunum, en til ógagns fyrir sveitir og kauptún.