13.03.1931
Neðri deild: 23. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

117. mál, útsvör

Jón Auðunn Jónsson:

Ég get ekki betur séð en að röksemdir hv. 2. þm. Eyf. styðji mál okkar, sem erum á móti frv. Hann var að tala um flutning manna úr útkjálkahéruðum til kaupstaðanna með peninga sína. Fyrir þann flutning verður ekki í veg komið með þessu frv., en ef það verður að lögum, verður afleiðingin sú, að útkjálkasveitirnar fá ekki neitt frá þeim, sem flytja peninga sína til kaupstaðanna. Hvað því viðvíkur, að sveitarfélög kaupi jarðeignir í öðrum hreppum og haldi þar uppi fátæklingum til að sveitfesta þá þar, er það að segja, að gegn þessu felst ekki hin minnsta vörn í þessu frv. Vörnin gegn þessu felst í lögunum um forkaupsrétt sveitarfélaga á innanhreppsjörðum. Auk þess er sá möguleiki, að leggja svo hátt útsvar á þá menn, sem sveitarfélög halda uppi til að sveitfesta þá í öðrum hreppi, að það verði ekki gróði fyrir það sveitarfélag, sem ætlar að koma fátæklingum sínum af sér á þennan hátt.