21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í C-deild Alþingistíðinda. (1995)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Ólafur Thors:

Ég er sammála hv. flm. um það, að nauðsyn sé á að vinda bráðan bug að því, að breyta um meðferð og verkun fiskjar, aðalframleiðsluvörunnar, og gladdi það mig, að hv. flm. hefir kynnt sér rök þau, er flutt hafa verið fram fyrir þessari þjóðarnauðsyn.

Ég stend eigi upp til að deila við hann um þessa nauðsyn, en hitt er annað mál, að það getur orkað tvímælis, hvort þær till., sem hann ber fram um úrlausn þessa máls, eru á réttum grundvelli byggðar.

Ég geri ráð fyrir, að það, sem mest hefir valdið ágreiningi milli mín og hv. flm., sé það, að við lítum sitt hvorum augum á afskipti ríkisins af þessu máli. Mér finnst ekki rétt að láta ríkið skipta sér af þessu, nema knýjandi nauðsyn sé á. Nú hefir þessi hv. flm. tekið fram, að einstaklingsframtakið hafi hafizt mjög svo myndarlega handa á þessu sviði á síðustu árum. Hann gat þess réttilega, að strandferðaskipið Esja hafi farið eina ferð til útlanda og togararnir margar ferðir með nýjan fisk, og gera enn, frá Vestmannaeyjum, en í Englandi og Þýzkalandi er verðið lágt um þetta leyti árs á nýjum fiski.

Ég segi því, að eins og málið liggur fyrir nú, finnst mér einkennilegt að láta ríkið hefjast handa um fjárframlög. Ég get ekki lagt til, að ríkið hlutist til um þetta fyrr en það sést, hvernig einstaklingunum tekst að leysa úr þessu verkefni.

Það skiptir ekki aðalmáli að fara að leiðrétta þann misskilning, er kom fram í ræðu hv. flm., er hann segir, að gerður hafi verið leikur að því að stöðva framleiðsluna. Hv. flm. hefir sjálfur játað í grg. frv., hversu komið er um verðlag á fiski og söluhorfur, og veit því vel, að stöðvunin var óumflýjanleg neyðarráðstöfun.

En hitt er auðsætt, að varanleg bót í þessum efnum fæst ekki fyrr en búið er að brúa fjarlægðina milli okkar og þeirra mörgu milljóna af neytendum, sem fúsir eru að kaupa fisk okkar nýjan, ef hægt er að koma honum óskemmdum til þeirra.

Að þessu er nú unnið. Ég veit, að einstakt félag hefir lagt í kostnað 1/2 millj. kr. til að ryðja frosnum fiski braut í öðrum löndum, aðallega í Miðjarðarhafslöndunum. Úrslitin um það, hvernig þetta tekst, eru ekki ennþá fengin. Það hefir gengið þunglega. Er enginn vafi á því, að heill sjávarútvegsins íslenzka veltur meira á því, að þessar tilraunir takist, heldur en að okkur takist að koma frá okkur ísvörðum fiski eins og hv. flm. ætlast til, þótt einnig það sé gott. Gæfa Íslands veltur meira á hraðfrysta fiskinum heldur en þessum kælda fiski, að okkur takist að koma honum óskemmdum á markaðinn og þannig finna leið til að komast í samband við milljónir manna, sem eru vanir að borða dýran fisk og mundu taka fegins hendi við þessari framleiðslu okkar og kaupa hana með verði, sem við Íslendingar mættum vera vel ánægðir með.

Ég vildi segja það, að ágreiningurinn milli mín og hv. flm. verður ekki út af því, að okkur greini á um nauðsynina á að breyta meðferð á framleiðsluvörunum, heldur hverja leiðina á að fara í þeim efnum. Hv. flm. vill leggja það á ríkissjóð, en ég vil, að einstaklingsframtakið glími við það, að sínu leyti eins og einstaklingurinn hefir fengizt við að ryðja frosnum fiski braut.

Það er svo til ætlazt, að ríkissjóður taki ábyrgðina á byggingarkostnaði væntanlegra frystihúsa. Þetta er áreiðanlega mikil áhætta, ef eitthvað ber út af, t. d. gæti komið fyrir, að kælihúsin yrðu ekki notuð, af því að hraðfrystiaðferðin reyndist betri en kæliaðferðin.