21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í C-deild Alþingistíðinda. (1997)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jón Ólafsson:

Ég vil ekki, að það sé tekið svo, að ég sé á móti málinu, þó að ég geri nokkrar aths. við það. Það er annað að flytja svona mál fyrir þingið, að svo lítt athuguðu máli, eða hitt, að setja það í framkvæmd, svo að gagni megi koma. Ég er að sjálfsögðu á móti því að flana að því ráði, að ríkissjóður taki það að sér á þessu stigi málsins, þar sem það er alveg á byrjunarstigi og er alveg óathugað frá ýmsum hliðum, sem hljóta að snerta það svo mjög að ef það rekur af réttri braut, þá er það mikið skaðræði. Þarf ekki annað en að minna á það hjal hér í deildinni, að draga úr framleiðslunni. Þegar fiskigöngur koma að landinu, t. d. í febrúar og marz, þá verður þessi fiskur, sem við söltum, alveg verðlaus á ísfiskmarkaðinum, svo að ekki getur borgað sig að selja hann þangað; það geta náttúrlega komið fyrir einstaka túrar, en yfirleitt getur það ekki borgað sig. Þennan fisk er því útilokað að selja, einmitt þegar mest veiðist af honum við Ísland. Þeir hafa annan fisk en við, ekki þennan stóra, sem við höfum til söltunar, heldur ýsu og flatfisk, sem er mjög verðmikill. Þegar við lítum á það, sem við höfum helzt, kolann, sem alltaf er mikið til af hér við land, og ýsu og annan slíkan fisk, þá komum við að því, að þingið hefir bannað að veiða þennan fisk með því eina veiðarfæri, sem dugir á kola, bannað það mestan hluta ársins, svo að landsmenn geta ekki látið hann í skip, sem flytja ísfisk á markaðinn. Hér er því málið komið í öngþveiti, þegar okkur er bannað að hirða þennan fisk og setja hann á markað. Hv. flm. talaði um það, að þrefalt verð fengist fyrir fiskinn í Englandi, móts við það, sem við fáum. Þetta er alveg rétt, en þó að kostnaður sé mikill á okkar fiski heima, verður það þó svo vissa tíma ársins, t. d. í marz og apríl, að sá kostnaður er miklu minni en á enskum fiski, sem farið er með til Englands. En þó mundi það aldrei geta komið til mála, að það borgaði sig að sigla togurum sínum til Englands um þetta leyti.

Hv. 2. þm. Rang. talaði um það, að við ættum allt undir Spáni, Portúgal og Ítalíu og að ekki hefði verið gert nógu mikið að markaðsleitum. Maður er orðinn svo vanur að heyra þetta frá ýmsum mönnum, sem lítið hafa um þetta hugsað. Það hefir verið mikið að því gert, t. d. í Suður-Ameríku og víðar. Ég held, að það sé flestum kunnugt, að þar er talsvert notaður saltfiskur. En enn þá hefir ekki fengizt markaður, sem gæti losað okkur við að skipta við Spán, Portúgal og Ítalíu; jafnvel þó sendir hafi verið menn út til að rannsaka þetta, þá hefir það ekki tekizt. Vitanlega væri gott að fá markað sem víðast, og alltaf fjölgar þeim stöðum, sem kaupa af okkur fiskinn, og þá ekki sízt þau ár, sem of mikið er fyrir í þessum þremur löndum.

Svo ég snúi mér að því, hvað ríkissjóður eigi að gera í þessu efni, þá álít ég, að ríkissjóður ætti, þegar reynsla er fengin, og það sýnir sig, að þörf er á slíku, að ljá því lið. Ég er því algerlega á móti því, að þingið styðji þetta, áður en reynsla er fengin og nokkuð er byrjað á að fást við það, og á meðan við höfum ekki rannsakað, hvaða fisk við höfum á hverjum tíma árs til að senda. En ef það sýnir sig, að þessi tilraun gangi nokkurn veginn, en þó ekki svo, að nægja þyki, þá tel ég rétt og sanngjarnt, að ríkissjóður styrki þennan væntanlega félagsskap, sem um það yrði stofnaður, að einhverju leyti.

Ég hefi ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta; ég veit og skil, að þetta frv. er fram komið af góðum tilgangi, og má vera, að þessi hugmynd, sem ekki er ný, eigi eftir að verða landsmönnum til góðs, en eins og ég hefi tekið fram, held ég, að þetta þurfi frekari athugunar við á ýmsum sviðum, áður en ríkissjóður leggur fé í það.