21.03.1931
Neðri deild: 30. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í C-deild Alþingistíðinda. (2000)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jón Auðunn Jónsson:

Það er víst, að öllum kemur saman um, að eitthvað þurfi að gera til þess að létta á saltfiskmarkaðinum. Þar er aðallega um tvær leiðir að velja, að selja fiskinn ísaðan til Englands, eða koma upp hraðfrystihúsum og flytja hann þannig verkaðan.

Um fyrri aðferðina er því miður svo, að við höfum tiltölulega lítið af fiski, sem von er um að geta selt með viðunanlegu verði í Englandi eða Þýzkalandi. Það er einkum ýsa og flatfiskur, sem selst við sæmilegu verði. Það hefir sýnt sig, að útflutningur á ísuðum þorski er enginn gróðavegur enn sem komið er. Við Ísfirðingar höfum keypt þorsk í togarana okkar, þegar veður hafa verið vond og afli þeirra lítill, og nálega undantekningarlaust höfum við fengið minna fyrir að flytja hann þannig út ísaðan heldur en að salta hann. Það er mest nauðsyn fyrir okkur að koma flatfiskinum út, því að hann er ávallt í beztir verði. En því miður veiðist lítið af honum, um 10 þús. kit síðastl. ár, og nokkru meira árinu áður, enda hafa vegna landslaga verið hömlur á kolaveiði. Að sumu leyti er varhugavert að létta af þeim hömlum til muna, meðan Danir og Færeyingar hafa jafnrétti við okkur til þessa veiðiskapar. Sérstaklega eru Danir alvanir þessari veiðiaðferð, og ef við rýmkuðum veiðitímann, má búast við, að aðsókn þeirra hingað margfaldaðist, því að það, sem hingað til hefir hindrað, að fleiri Danir stunduðu þennan veiðiskap hér, er það, að sá tími er svo stuttur, sem veiðin er leyfð.

Tilraunir, sem gerðar hafa verið með útflutning á ísuðum þorski, hafa oftast tekizt illa og gefið tap. Ég hefi þrisvar sinnum keypt fisk fyrir útlendinga, og aðeins í eitt skipti varð af því ágóði, 65 sterlingspund. Sama er að segja um tilraun, sem Kristján Torfason á Flateyri hefir gert. Nú hafa ýmsir lagt drög til þess að koma á fót félagsskap til þess að senda út ísaðan fisk. En meðan þetta er á byrjunarstigi, er varhugavert fyrir ríkissjóð að takast á hendur miklar framkvæmdir.

Menn verða að gera sér grein fyrir því, að því meir sem flutt er út, því minni er kostnaðurinn að tiltölu. Annars er það villandi að bera saman fiskverð í Englandi og hér, meðal annars vegna þess, að Englendingar veiða að nokkru leyti aðrar og dýrari tegundir fiskjar en við, og auk þess er þess að gæta, að þegar fiskurinn er kominn á markað í Englandi, þá er flutningskostnaðurinn, sölukostnaður o. fl. orðinn allt að helmingi útsöluverðsins.

Ég gæti fremur fellt mig við till. hv. 1. þm. S.-M. um það, að ríkið taki á sig eitthvað af þeim töpum, sem kunna að verða af þessum tilraunum, en láti að öðru leyti afskiptalausar framkvæmdir einstaklinga í þessum efnum. Ég hefi þá trú, að einstaklingsframtakið sé þess megnugt að ryðja nýjar brautir hvað afurðasöluna snertir, enda munu þegar hafnar tilraunir í þá átt. Fiskiframleiðendur hafa þegar skilið þörfina á bættum fiskmarkaði, enda munu þeir á hverjum tíma finna það bezt, hvar skórinn kreppir í þeim efnum. Ef hinsvegar væri tekið upp það fyrirkomulag, sem frv. fjallar um, þá myndi það geta haft gífurlegan kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, og auk þess er það mjög tvísýnt, hvort það bæri nokkurn verulegan árangur. Það yrði ákaflega þunglamalegt og dýrt fyrirkomulag, að fara að leigja mörg og dýr skip og gera þau út frá Austurlandi, Vestmannaeyjum og Vesturlandi, en stjórna þeim frá útgerðarskifstofu ríkisins hér í Reykjavík.

Í frv. er talað um að setja á stofn söluskrifstofu. Mér er ekki fyllilega ljóst, hvað átt er við með þessu ákvæði. Væntanlega er þó ekki átt við að stofna söluskrifstofu úti í Englandi; það getum við ekki, því að við höfum ekki heimild til að setja í okkar lög ákvæði um, að eitthvað skuli gert í öðru landi. Það er hinsvegar nokkurn veginn víst, að fisksalan til Englands yrði eftir sem áður að ganga í gegnum hendur fiskheildsala þar í landi.

Enda þótt ég sé í öllum aðalatriðum ósamþykkur þessu frv., þá mun ég þó ekki greiða atkvæði gegn því, að það fari til n., og þá væntanlega hv. fjhn., og vil ég mælast til, að hún taki þessar bendingar til athugunar.