23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 884 í C-deild Alþingistíðinda. (2004)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi satt að segja mestu ólyst á því að segja nokkurn skapaðan hlut um þetta mál, eftir allt það fimbulfamb og glamuryrði, sem hv. 4. þm. Reykv. hefir borið fram fyrir þessa hv. deild. Mér finnst að við, sem sæti eigum í sjútvn., hefðum getað látið okkur nægja það, sem hv. form. n. tók fram um það, hvernig hann liti á hin ýmsu tilmæli, er komið hafa fram um það, að ríkið styddi útflutning á nýjum fiski. Hann talaði að vísu um það frá sínu sjónarmiði, en lagði svo breiðan grundvöll til úrlausnar, að hinir nefndarmennirnir hefðu ekki þurft að fara að tala um stefnumál og þessháttar í þessu sambandi. Og mikið af þeim fróðleik sem hv. 4. þm. Reykv. taldi sig koma með, hefði mátt geymast þangað til á fundum í n. Ég get ekki séð, að þessar staðhæfingar hv. þm. hafi nokkra minnstu þýðingu fyrir úrslit þessa máls.

En það, sem kom mér til að standa upp, var það, að ég vildi spyrja hv. flm. frv. að því, hvar hann hefði hugsað sér, að sett yrði upp sú söluskrifstofa, sem um getur í 3. gr. frv., og hvert hlutverk henni er ætlað.

Þegar þess er gætt, að hér er eingöngu um það að ræða að flytja út nýjan fisk, og þá einkum til Englands, þá hélt ég satt að segja, að tryggilegast væri að fara hinar troðnu götur, sem farnar hafa verið hingað til, heldur en að fara að setja upp söluskrifstofu. Ég vil a. m. k. spyrja: Hvar hefir hv. flm. hugsað sér að setja upp þessa skrifstofu?

Það var auðheyrt á ræðum hv. flm. og hv. 4. þm. Reykv., að þeim var báðum mikið áhugamál að gera þetta að stefnumáli. Ég hélt, að það væri ekki rétt, hvorki fyrir einn eða annan, sem heilt vill leggja til máls sem þessa, að fara að hamra á því, að úrlausn þess verði eingöngu að gerast eftir hans eigin höfði og í samræmi við hans stjórnmálastefnu. Úrlausn þess sé skipulagður ríkisrekstur. Allt annað sé skakkt. Og þetta er borið fram, áður en tilraunir, sem verið er að gera í þessu efni, hafa sýnt sig og áður en sýnt er, að þær tilraunir hafi misfellur í för með sér. Og þetta er borið fram af mönnum, sem þrátt fyrir það, þó þeir kunni að hafa vit á einhverju öðru, hafa ekkert vit á þessu. En þeim er bara um að gera að viðhafa sem stærst orð og vaða elginn sem mest. Og það er hart, að þeir menn, sem ekkert hafa til brunns að bera nema blábert þekkingarleysið, skuli vilja bægja þeim einstaklingum, er við tilraunir fást, frá því að njóta sín. Að gera þetta að stefnumáli er næsta óviturlegt. Hér er um praktískt atriði að ræða, alveg óviðkomandi pólitík. Allir ættu að vera samhuga um að rannsaka það, hvernig heppilegast er, að ríkið láti stuðning sinn í té. Hv. flm. segir í grg. frv., og það var einnig undirrót ræðu hans í fyrradag, að það hefði verið auðvelt fyrir togaraútgerðina að bæta afla sinn í vetur með því að kaupa fisk af smábátunum og sigla svo með hann nýjan til Englands. Með því móti hefðu togararnir getað haldið áfram, þar til þeir fóru á saltfiskveiðar.

Það er nú rétt, að fáeinir togarar hafa gert þetta. En þar sem það mun hafa verið að mestu fyrir mitt tilstilli, að byrjað var á þessu, og mér er vel kunnugt um þetta, þá vil ég upplýsa þetta nokkuð nánar. Þessi kaup hafa nú mest farið fram við Vestmannaeyjar. Hafa mest þrjú skip verið þar að kaupum í einu. Nú hafa þau ekki viljað kaupa þorsk. En þótt 80–90 fiskibátar séu í Vestmannaeyjum, þá hefir milli þessara þriggja togara verið hreinasta togstreita um ýsuna, því um annan fisk en ýsu og þorsk er þar ekki að ræða sem stendur sem nokkru munar. Ég veit nú ekki, hvar allur togaraflotinn hefði átt að bæta aflabrögð sin á þennan hátt. Þótt hver verstöð hefði verið sópuð suður með sjó og um Vestfirði til Ísafjarðar, þá hefðu flestir ekki fengið vitund. Og hætt er við, að farið hefði verið að slá í þann afla, er togararnir hefðu fengið á miðunum, þegar allir hefðu verið orðnir fullir af smábátafiskinum, sem flm. vill láta þá „komplettera“ með. Þessari staðhæfingu í grg. og ræðu hv. flm. er því slegið fram af algerðu þekkingarleysi, sem á sér enga afsökun, því fullorðnum mönnum ætti að vera auðvelt að afla sér þekkingar á þessu. — Ég get vel bent óhlutdrægt á þetta, því ég stend sjálfur utan við togarana. Þessi aðferð gat vel heppnast einu og einu skipi. En hefði allur fjöldinn farið að stunda þetta, þá kom það að engu haldi.

Þá er talað um það í grg. frv., að skipafélög kvarti nú mjög undan flutningaleysi. Þó er ætlazt til þess í frv., að ríkið leggi í þann kostnað að bæta við skipum til þessara flutninga. Ég held nú, að réttara hefði verið að leggja til að leita samninga við Eimskipafél. Íslands um að taka að sér þessa flutninga, meðan þeir væru á byrjunarstigi. Ég veit, að fiskur hefir verið sendur með Eimskipafél.skipum og öðrum flutningaskipum og heppnast mæta vel. Hv. þm., sem fyrir þessu máli hafa talað, þurfa ekki að gera sig svo barnalega að halda það, að hægt sé að senda alla framleiðsluna á fersksfiskmarkað, þótt hægt sé að senda ýsu og aðrar fisktegundir á vissum tímum árs. En það var helzt að heyra, að það væri skoðun síðasta ræðumanns, að máske væri hægt að flytja þannig út allan aflann, þorskinn líka. Það er nú leiðinlegt að þurfa að standa upp við 1. umr. til að kveða niður svona vitleysur. En slíkum gapaskap er tæplega hægt að láta ómótmælt, enda þótt svona vitleysur hafi lítið að segja. Þær eru of augljósar til þess. Allir ættu að vita það, að þegar kemur fram í marz, eða framundir páska, selst þorskurinn á nýjum markaði ekki fyrir verð, sem sé neitt samsvarandi saltfiskverðinu, og fer meira að segja stundum niður í sama sem ekki neitt. Það er ekki annað en að slá ryki í augu manna að halda því fram, að ef tilraun þessi væri gerð, þá mætti blása burt gömlum og góðum markaðssamböndum. Hér er að vísu merkilegt mál, en þó eru takmörk fyrir öllu. Og það er ekki nema viss tími ársins, sem hægt er með þessu að létta af saltfiskmarkaðinum. Og það er óþarfi með þessu að nota það sem tækifæri til að sparka í gamla viðskiptamenn og þá, sem halda við þeim markaði, sem drýgstur hefir orðið okkur til þessa.

Hv. þm. talaði að vísu um þetta frá sínum bæjardyrum, en það er vitanlegt, að bæjardyr hans og annara jafnaðarmanna hér á Alþingi blasa beinast við matargufunni úr kjötpottum stjórnarinnar. Í þeim bæjardyrum spóka þeir sig karlarnir og þykir gott um að lítast. Ef hv. þm. jafnaðarmanna vilja gera eitthvað, þá hrópa þeir alltaf: „ríkið, ríkið“. — Þeir vilja hefta allt einstaklingsframtak, en demba öllu á ríkið. Það er eins og þjóðskáldið Matth. Jochumsson segir í „Nýársósk Fjallkonunnar“: „Þið látist ei tíðum sjá lifandi ráð, nema lifa og deyja upp á konungsins náð“.

Þessir hv. þm. sósíalista, sem talað hafa, vilja loka öllum möguleikum öðrum en þeim, að hér sé hafinn ríkisrekstur einn í viðbót.

Í þessu sambandi er gott að minna á síldareinkasöluna. Hún er nú vist rekin á eins fullkominn hátt, eftir höfði hv. 4. þm. Reykv., eins og unnt er. Það er ekki hægt að binda öllu betur hendur og fætur einstaklingsins en gert er þar. En það þarf sérstaka óskammfeilni og samvizkuleysi, eða þá furðulegt þekkingarleysi og blindni, til að halda því fram, að sú starfsemi hafi orðið til þrifa fyrir útveginn. Ef því á að taka síldareinkasöluna sem fordæmi, þá er það hræðilegt fordæmi, sem varar við öllum framkvæmdum í líka átt.

Eins og hv. þm. hreyfði við, þá hafa útlendingar keypt nokkuð af fiski til útflutnings í ís hér við land í vetur. Hv. þm. stóð á öndinni yfir því, að arðurinn af þeirri verzlun muni lenda hjá útlendingum. Ég verð að segja það, fyrst hv. þm. knýr það fram, að þeir sem gátu selt Þjóðverjum og öðrum fisk í vetur, þóttust hafa gert mjög góða verzlun, að geta selt þann fisk fyrir sæmilegt verð og fyrir greiðslu út í hönd, sem annars er ekki seljanlegur nema fyrir lágt verð. Og svo hefir það verið enn til þessa dags, að menn hafa með ánægju látið af hendi afla sinn, sem bæði innlendir og útlendir menn hafa keypt, og hafa ekki séð eftir því, þótt viðkomandi menn hafi í sumum tilfellum grætt. Það hefir líka komið fyrir, að togararnir, sem að kaupunum hafa staðið, hafa tapað. Svo að hv. 4. þm. Reykv. er enn á því frumstigi að halda, að nokkur viðskipti geti gengið eða haldizt við til lengdar, án þess að um gagnkvæma ágóðavon beggja, kaupanda og seljenda, sé að ræða. Þótt hv. þm. sé ekki betur upplýstur en þetta, þá er það sök sér; en að bera þetta fram fyrir hv. deild, það tekur út yfir. Hvað viðvíkur afskiptum útlendinga af saltfiskverzluninni og í sambandi við þetta, sé ég ekki ástæðu til þess að tala um mikinn arð útlendinga af fiskkaupum hér á landi. Það hefir oltið á ýmsu um hagnað þeirra af verzluninni. A. m. k. er sennilegt, að hinir mörgu menn, sem orðið hafa gjaldþrota af verzluninni, hafi ekki alltaf verið að græða.

Ég verð að segja það, að ég er samdóma form. sjútvn., sem talaði snemma í þessu máli, um það, að ekki sé nema sjálfsagt og sanngjarnt, að ríkið leggi til stuðning að einhverju leyti við þessar tilraunir, bæði einstökum mönnum og félögum, þ. e. a. s. innlendum, til þess að að ryðja veginn í þessu efni. Ég stend það að baki hv. 4. þm. Reykv. og hv. flm., að ég vil ekki á þessu stigi slá neinu föstu eða jafnvel óskeikulu, eins og hv. þm. lét í veðri vaka, að um aðra leið væri ekki að ræða; aðeins þessi eina leið væri fær. Mér virðist, að margskonar stuðningur geti komið til greina. En það er gersamlega gagnslaust að vera að hamra á því, að það sé þessi eina leið og engin önnur, sem megi og eigi að fara.

Í þessu sambandi, um fiskkaupin, sem ég minntist á áðan, skal ég geta þess, að það, sem sérstaklega hefir ýtt undir menn nú, hve fúsir þeir eru að selja fiskinn, er það, hvað saltfiskurinn hefir verið og er í lágu verði, t. d. það verð, sem þorskur hefir selzt fyrir. Í Vestmannaeyjum er verðið á þessum nýja fiski svo lágt, að einungis á þeim verðlagsgrundvelli, sem nú er hvað snertir saltfisk, þá er það einungis með tilliti til hans, að slík sala getur komið til mála á nýja fiskinum. Undir eins og fiskurinn kemst í nokkuð hærra verð en nú, sem er um 70 kr. skpd., að ég ekki tali um ef hann kemst í nokkurnveginn sæmilegt verð, t. d. 100–120 kr. skpd., það er ekki of mikið verð á fullverkuðum fiski. Þegar svo er komið, munu menn ekki sjá sér hag í því að selja þorsk með því verði, sem hann hefir verið seldur í togarana nú undanfarið. Það er þess vegna alltaf undir kringumstæðum komið, hvort borgar sig betur að salta þorskinn eða selja hann nýjan. En ég lít svo á, að öðru máli sé að gegna um t. d. ýsu og flatfisk. En einmitt sá fiskur, ýsa og flatfiskur, veiðist lítið einmitt á þeim tíma, sem virðizt vera aðaluppskerutími skipanna hér sunnanlands; þá er aðeins um þorskveiðar að ræða. Hv. þm. minntist á sænska frystihúsið. Ég skal ekki véfengja það, sem hann sagði um það. En ég vil benda á, að sænska frystihúsið er eitt dæmi um, hve varhugavert er að leggja of mikla áherzlu á eina leið hvað verkun og meðferð vörunnar snertir. Mér hefir skilizt, og hv. þm. virtist eitthvað ráma í það, að búizt hefði verið við miklu meiri starfsemi af þessari stofnun en raun hefir á orðið. Hver er ástæðan? Ég geri ráð fyrir, að þeir, sem húsið byggðu, hafi ætlað að reka þar atvinnu, en séð fram á, að það borgaði sig ekki eða illa. Þegar mönnum, sem hafa haft afskipti af fiskverzlun og eru búnir að fá reynslu í öðrum löndum, hvernig það gengur þar, þegar þeim skjátlast, fagmönnunum, sem hafa þekkingu og reynslu, hve barnalegt er það af okkur, sem ekki erum fagmenn og höfum enga reynslu, að standa upp og segja, að við einir höfum lyklana að því, hvernig eigi að gera þetta. Það er þessi afstaða, sem hv. þm. tekur og segir, að svona eigi þetta að vera og ekki öðruvísi. Það mun fara svo í þessu máli, sem öðrum, að það er af reynslunni, sem menn verða að læra, hvernig bezt er að koma fiskinum á markaðinn, þeim fiski, sem ekki telst heppilegt að verka til söltunar. Verður sú reynsla bæði margþættust og bezt með því, að fleiri en einn máti sé viðhafður og menn geti í friði gert tilraunir sínar, eins og þeir hafa byrjað á, en ekki allt í einu horfið að því að skipuleggja, sem kallað er, og leggja allt í þær viðjar, að engin frumleg hugsun komist þar að. Á meðan ekki lengra er komið í þessu efni, virðist mér ekki rétt að leggja söluna í svo fast kerfi sem hv. þm. hélt fram og láta ríkið strax skipuleggja útflutningsverzlunina, eða m. ö. o. einoka hana. Ég verð að segja það, að þessar tillögur úr ýmsum áttum, sem hafa borizt sjútvn., og erindi um þetta mál og áhugi manna víðsvegar um land verðskuldi allt annað en að við, sem erum í sjútvn., séum að gera leik að því að gera málið að deilumáli í upphafi, áður en það er komið til nefndar. (SÁÓ: Hver byrjaði að deila?). Þeir, sem til deilunnar stofnuðu, voru menn eins og hv. 4. þm. Reykv. Ég þykist vita, að þinginu muni vera ljúft að ljá stuðning í einhverri mynd þeim mönnum, sem ryðja veginn í þessu efni. Formaður sjútvn. hefir víst ekki talað fyrir munn hv. 4. þm. Reykv.; ég hafði heldur ekki falið honum neitt, en ég er honum í aðalatriðum samþykkur. Hv. form. sjútvn. tók fram nokkuð, sem ég vildi hafa sagt, a. m. k. það að vera meðmæltur, að fyrirtæki af þessu tægi séu studd án tillits til stefna eða stjórnmálaskoðana, og án tillits til hvar á landinu þau eru. En mér virðist eftir frv. og ræðu hv. 4. þm. Reykv., að það verði nokkuð rígbundinn stuðningur, sem veita eigi.

Það mætti miklu meira um þetta mál segja, en ég ætla ekki að fara út í einstök atriði, til þess að ofþreyta ekki menn með ítarlegri lýsingu á sjávarútveginum, en eftirlæt hv. 4. þm. Reykv. að fræða deildina í þessu. En við munum hafa tækifæri til, þegar málið kemur fyrir n. að bera fram af nægtabrunni þekkingar okkar það, sem n. þykir rétt.

Ég vildi endurtaka þessar spurningar til hv. flm.: Hvar hugsar hv. þm. sér söluskrifstofubáknið, sem talað er um í 3. gr.? Og í öðru lagi: Ætlast hv. þm. til, að fiskurinn sé seldur eftir nýrri reglu í útlöndum og annari en verið hefir áður?

Að öðru leyti kannast hv. þm. við, að hér sé um frumsmíði að ræða. Og einmitt sú staðhæfing gefur í skyn, að hann sé fús til samkomulags. En mér fannst flokksbróðir hans slá svo fast á sósíalistabumbuna, að hann muni ekki fylgja öðru en því, sem hér (í frv.) stendur skrifað.