23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (2007)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Flm. (Haraldur Guðmundsson):

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið.

Ég hlýddi á tölu hv. þm. Vestm. áðan, og mig undraði stórlega, að þessi hv. þm. skyldi tala á þann veg, sem hann gerði. Hann byrjaði með því að segja, að hann hefði mestu ólyst á því að segja mikið um þetta mál. O-jæja! Ég held, að bezt hefði verið fyrir hann að láta undan ólystinni og segja ekkert. Meginefnið í ræðu hans kom ekkert þessu frv. við. Hann margendurtók, að hér væri um það að ræða að slá því föstu, að hér væri aðeins um eina leið að ræða. En þetta er mesti misskilningur. Engum mun detta í hug, þó að þetta frv. verði samþ., að þá eigi alveg að hætta við saltfiskinn. Þetta hefir víst sprottið upp í hans eigin heila, og færi bezt á því, að það sæti þar.

Tveimur fyrirspurnum beindi hv. þm. til mín: Hvað væri meint með söluskrifstofu í frv. og hvar sú skrifstofa ætti að vera. Söluskrifstofan annast afgreiðslu sölureikninga, afreiknar hvern farm fyrir sig til sendanda. Hvar hún verður, skal ég ekkert um segja, því ræður sennilega framkvæmdastjórinn. En einhversstaðar verður hún að vera, eins og sjá má á 7. gr., en hvort heppilegra verður að hafa hana hér heima eða annarsstaðar, skal ég láta ósagt.

Ennfremur spurði hv. þm., hvort ég ætlaðist til, að þessi fiskur yrði seldur eftir nýjum reglum. Ég veit satt að segja ekki, hvað hann meinar með þessu. Ef hægt er að selja hann á einhvern annan hátt en tíðkast hefir, svo að betra verð fáist fyrir hann, þá er sjálfsagt að gera það, þótt upp þurfi að taka nýjar aðferðir og setja þar um nýjar reglur. Sé bót að því að breyta til, er alltaf sjálfsagt að gera það. Fiskurinn, sem togararnir hér flytja út, er oftast seldur á uppboði, síðan er hann aðgreindur og það bezta úr honum sett í kassa og sent til stærri borgaranna.

Ég hefi rætt um þetta við ýmsa menn. Þeir álita, að þó að í byrjuninni þurfi að selja kassafiskinn á uppboði, þá megi selja hann beint þegar fram í sækir. Þetta hafa þrautkunnir menn sagt mér. Ef hægt yrði að koma þessari reglu við, þá finnst mér sjálfsagt að taka hana upp.

Ég get ekki svarað hv. þm. á annan hátt. Ef ég hefi misskilið hann, þá kemur það væntanlega fram.

Hv. þm. fór mörgum orðum um þekkingarleysi og málæði okkar jafnaðarmanna. Þetta er ekkert óvenjulegt hjá hv. þm. og flokksbræðrum hans, sem jafnan eru uppblásnir af vindi ímyndaðrar þekkingar. Nenni ég ekki að elta ólar við slíkt rembingshjal og sleppi því að svara þeim kafla í ræðu hv. þm.

Þá sagði hv. þm., að sér fyndist það undarlegt, að ég segði í grg. við frv., að skipafélögin kvörtuðu um flutningsleysi, og samt ætlaðist ég til, að ríkisstjórnin færi að leigja skip til flutninga. Ég vænti þess, að við hv. þm. séum sammála um það, að þegar litið er um flutninga, sé hægra að fá skip leigð við ódýru verði. Nema þá að hv. þm. álíti, að skip séu ódýrust þegar mestur flutningur býðst.

Ég hefi talað við framkvæmdarstjóra Eimskipafélagsins. Hann sagðist ekki geta sagt neitt ákveðið um það, hvort Eimskip gæti tekið að sér að annast þessa flutninga, en ekki taldi hann það óhugsandi. Hann sagðist álíta, að t. d. Brúarfoss væri of stór til slíkra ferða, og er það óefað rétt, og áleit að hentugt myndi að leigja sérstök skip til flutninganna.

Þá flutti hv. þm. venjulegan kapítula um matgjafir ríkisstjórnarinnar til sósíalista. Af flestu finnur hann matarlykt, blessaður. Hann sér alstaðar matgjafir og bitlinga, hvað sem gera á. Þessar ofsjónir hans stafa af skiljanlegum ástæðum, þeim, að hann sjálfan langar í bita og minnist sælli daga. Eða ef til vill af því, að hann óttast að missa spón úr aski sínum, ef útvegsmönnum í Vestmannaeyjum er hjálpað til að koma sjálfir afla sínum nýjum á erlendan markað, í stað þess að selja honum hann.

Út af því, sem hv. þm. sagði, að við Alþýðuflokksmenn heimtuðum, að farin væri ein og aðeins ein leið í verkun og sölu á fiski, vil ég taka þetta fram: Þó að ríkissjóður tæki 4–6 skip, þá væri ekki nándar nærri fullnægt flutningsþörfum frá öllum stöðum á landinu. Hafi nú hv. þm. verið það ljóst, að kjördæmi hans þarf ekki minna en 2–3 skip, þá getur hann séð, að ekki er það of mikið þótt stjórnin tæki 6 skip eða fleiri. Það væri samt nóg svigrúm fyrir einstaklingsframtakið. Þó að þetta frv. verði samþ. verður engum bannað að kaupa fisk hér. Og engum dettur í hug, að saltfiskútflutningur hætti, þótt frv. verði samþ., en líkur eru einmitt til, að hann verði tryggari en nú er hann.

Hv. 2. þm. G.-K. talaði enn um útflutning á frosnum fiski. Ég til mjög hæpið að styrkja stórkostlega tilraunir, sem gerðar eru af einstaklingum eða einstökum félögum, án þess að almenningi sé nákvæmlega skýrt frá því, hvernig þessar tilraunir eru gerðar og gefast og allar upplýsingar látnar í té, svo að árangurinn, ef einhver er, verði til hagsbóta fyrir almenning, en eigi tekjugrein fyrir félagið eða manninn, sem styrksins naut.

Hv. þm. benti á sænska íshúsið hér í Rvík til þess að sanna, hversu varhugavert það væri að miða allt við einstakar leiðir eða einstakar aðferðir um sölu og verkun fiskjar. Ég verð að segja, að mér finnst, eins og öðrum, vera lítill rekstur hjá jafnstóru fyrirtæki og þetta er. En þessi orð hv. þm. árétta aðeins það, sem ég hefi sagt hér áður. Ég hefi haldið því fram, að það, sem okkur íslendingum riði mest á, væri einmitt það, að hafa sem fjölbreyttastan fisk og verkaðan á margvíslegan hátt, svo að þótt markaður bregðist á einum stað, sé ekki allt í voða, heldur megi senda fiskinn annað og fá þar fyrir hann sæmilegt verð.

Hv. þm. sagði, að allt ylti á reynslunni, og það er alveg rétt. Ef frv. verður samþ., fæst meiri reynsla í þessum efnum heldur en við höfum nú.

Hv. 2. þm. G.-K. þarf ég að svara nokkrum orðum út af því, sem hann sagði í gær um tilraun Kveldúlfs með útflutning á frosnum fiski. Hann sagði, að heill Íslands væri komin undir því, hvernig þessari tilraun reiddi af. (ÓTh: Ekki er það nú rétt). En ég tel, að meiri trygging væri í því fyrir almenning, að hið opinbera gerði tilraunina, en ekki gróðafélag eins og Kveldúlfur.

Hv. þm. sagði, að það skipti að sínu áliti engu máli, hvort það væri hið opinbera eða einstaklingar, sem kæmu þessu í framkvæmd, ef fiskurinn væri aðeins seldur. Þetta skiptir að mínu áliti ákaflega miklu máli. Ég minntist á það í fyrstu ræðu minni, að útgerðarmönnum smábáta væri ómögulegt að koma fiski sínum á markaðinn í Þýzkalandi eða Englandi. Hið opinbera á skv. þessu frv. að hjálpa þessum mönnum. (MG: Hvar stendur þetta?). Það stendur í grg. (MG: Grg. verður ekki að lögum). Það er búið að segja það í grg. og frumvarpinu.

Út af því, sem hv. 2. þm. G.-K. sagði um togarastöðvunina, skal ég vera fáorður. En eftirtektarvert er, að hann sagði margoft í ræðu sinni, að þessi fáu daga stöðvun gerði lítið til, og reyndi yfirleitt að gera sem minnst úr stöðvuninni, sem virtist nú smáræði í hans augum.

En hérna um árið, 1928, þegar deilan stóð milli útgerðarmanna og háseta, þá kvað við annan tón hjá hv. þm. Þá býsnaðist hann mjög yfir þessari löngu stöðvun og hinu gífurlega þjóðartapi, er af henni leiddi. Togararnir fóru þó þá á veiðar um mánaðamótin febr. og marz, þ. e. a. s. 3 vikum fyrr en nú. (ÓTh: En þá stöðvuðust þeir upp úr áramótunum en nú hættu þeir í febr.). Ekki er þetta rétt hjá hv. þm. Mörg skipin hafa legið síðan í janúar, þrátt fyrir ágætt ísfiskverð. Og ég verð að segja það, að mér finnst það ákaflega undarlegt, að Kveldúlfstogurunum skyldi vera lagt við garð eftir síðustu för þeirra, jafnvel og þeir seldu þá, í stað þess að halda áfram veiðum og kaupa í sig til viðbótar bátafisk. Annars kemur togarastöðvunin ekki þessu frv. við beinlínis, en ég drep á þetta af því hv. þm. dró það inn í umr. (ÓTh: Það var hv. þm. Ísaf., sem byrjaði á þessu).

Að lokum sagði hv. þm., að það væri þrautaráð okkar jafnaðarmanna að hrópa á það opinbera að gera þetta og hitt. Hvað á að gera, þegar „stórlaxarnir framtakssömu“ leggja hendur í skaut eftir að þeir hafa komið öllu í öngþveiti með ráðsmennsku sinni og gefast upp? — Þá verður það opinbera oftast að taka við. Á þjóðinni allri lenda skakkaföllin af mistökum gróðamannanna. Annars hygg ég, að frv. þetta geti trautt bakað ríkissjóði mikil útgjöld. Um það erum við víst sammála. (ÓTh: Um það erum við ekki sammála). Eins og sjá má á frv., er gert ráð fyrir, að lögin verði endurskoðuð á næsta ári, og fyrir þann tíma býst ég ekki við, að miklu verði búið að verja til íshúsabygginga. En ég tel þetta svo merkilegt mál, að ekki sé í það horfandi, þótt einhverju fé þurfi að verja í þessu skyni.