23.03.1931
Neðri deild: 31. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 908 í C-deild Alþingistíðinda. (2012)

122. mál, útflutningur á nýjum fiski

Ólafur Thors:

Það hefir verið beint til mín ýmsu við umr. hér í dag, en ég get ekki farið að leggja það á mig eða hv. þdm. að fara að ýfa upp nýjar deilur með því að svara því ítarlega.

Hv. 4. þm. Reykv. kom með fyrirspurn til mín í sambandi við sænska frystihúsið. Ég skal svara því, að ég hefi reynt að hafa það gott af íshúsinu, sem hægt hefir verið, reynt að nota það í þágu íslenzkra manna og í sambandi við það gert tilraunir um útflutning á frosnum fiski. Ennþá er ekki hægt að sjá, hvern árangur þetta muni bera.

Hv. þm. Ísaf. taldi illa farið, að þær tilraunir, sem „Kveldúlfur“ hefir gert í sambandi við sölu á nýjum fiski, væru leynilegar, en almenningur fengi ekkert um þær að vita. Félagið er nú ekki ennþá öfundsvert af þeim árangri. Ég hefði ekki viljað, að sá kostnaður, sem hefir orðið af þessum tilraunum, hefði lent á ríkissjóði, en hinsvegar vil ég segja það, að ég treysti þeim, sem þar hafa verið að verki, eins vel og þeim, sem til þess kynnu að verða valdir af ríkisvaldinu.

Ef þessar tilraunir bera þann árangur, að fært þyki að halda áfram á þeirri braut, sem þar er lagt út á, þá mun það áreiðanlega verða hverjum manni auðvelt að kynnast því, sem þar hefir fram farið. Það er ómögulegt að haga slíkri starfsemi þannig, að ekki sé sæmilegur aðgangur fyrir hvern mann að kynnast þáttum þeirra mála.