13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 910 í C-deild Alþingistíðinda. (2030)

129. mál, slysatryggingalög

Jóhann Jósefsson:

Ég skil það á orðum hv. frsm., að frá hans sjónarmiði er þessi ályktun n. ekki verjandi. Ég sé heldur ekki, hvernig það er hægt. Ef þörf er fyrir þessar tryggingar yfirleitt, sem ég fyrir mitt leyti játa að sé, þá ætti sú þörf að vera jafnmikil við smíði húsa hvar sem er. Það væri fróðlegt að heyra rökfærsluna frá þeim, sem að þessu standa, fyrir því, að þeir gera á þessu sviði upp á milli sveita og kaupstaða. Ef nokkur frambærileg ástæða væri fyrir þessu, þá ætti hún að vera sú, að minni slysahætta væri við byggingar í sveitum en við sjó. En ég fæ ekki séð, að svo muni vera.