17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 925 í C-deild Alþingistíðinda. (2058)

145. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson) [frh]:

Þegar fundi var slitið síðast, þá var ég kominn að því, að taka fáein dæmi um kostnað á rekstri einkasölunnar, dæmi, sem maður rekur sig á við fljótan yfirlestur skýrslu forstjórans, og reikninga, sem nú er búið að gefa út, en það eru aðeins reikningar fyrir 1928 og 1929. Samkv. skýrslu forstjóra Einkasölunnar hefir matskostnaður hækkað frá því, sem hann reyndist að vera 1928. Þá var hann 21 eyrir á tunnu, en síðasta ár var hann 33 aurar. En þrátt fyrir það, að matskostnaðurinn hefir hækkað svona gífurlega, þá eru flestir — ef ekki allir — á því máli, að matinu hafi engan veginn farið fram á þessum tíma, enda hefir verið bent á, að til þessa starfs hafi einatt verið teknir menn, sem hafi svo að segja jafnvel aldrei séð síld áður.

Því til sönnunar, hve víða óánægjan hefir náð fótfestu, vil ég leyfa mér að benda á ummæli í blaði, sem formaður útflutningsnefndar Síldareinkasölunnar gefur sjálfur út. Þetta blað er „Alþýðumaðurinn“ á Akureyri. Tilefnið til þessara ummæla er það, að á síðasta ári tók Einkasalan sig til og sendi til Bandaríkjanna, eftir því sem skýrslan segir, eitthvað um 5 þús. tunnur af síld sem sýnishorn af íslenzkri síldarframleiðslu og til þess að reyna að útvega þar markað fyrir íslenzka síld. En eftir því, sem skýrt hefir verið frá af öðrum en forstjóra Einkasölunnar, þá hefir verið farið þannig að því við sendingu þessa sýnishorns, að tekin var gild, sem reynzt hafði óhæf til sölu innanlands, upp úr saltsíldartunnum og komið einhverju kryddnafni á hana. Yfirmatsmennirnir fyrir norðan fengust hvorugur til að gefa vottorð um, að þetta væri frambærileg kryddsíld, en þá var fenginn einhver af undirmönnunum, sem ég get að vísu nafngreint, en hirði ekki um. Hann var látinn gefa vottorðið, sem yfirmatsmennirnir höfðu neitað að gefa. Síðan var síldin send til Ameríku.

Í skýrslu Péturs Ólafssonar er ekki skýrt frá því, hvernig þetta hafi farið, en vitanlegt er, að þetta sýnishorn fékk hina verstu dóma fyrir vestan haf. Hvað segja nú hv. þm. um þessa frammistöðu?

Í þessu blaði, sem ég minntist áðan á, er komið inn á þetta atriði. Það er gott sýnishorn af samvinnunni milli forstjóra Einkasölunnar og formanns útflutningsnefndar, hvernig þetta blað, blað Erlings Friðjónssonar, segir frá þessum ráðstöfunum út af fyrir sig. Í blaðinu segir svo, með leyfi hæstv. forseta. — Það er verið að skýra frá fundi, sem haldinn var um einkasöluna:

„Aftur á móti deildi Jón Sigurðsson matsmaður mjög harðlega á þann framkvæmdarstjóra Einkasölunnar, sem situr hér á Akureyri, fyrir að hafa sent til Ameríku, á nýjan markað, kryddsíld, sem hafði reynzt óhæf til sölu innanlands og sem yfirsíldarmatsmaðurinn hér neitaði að gefa vottorð.

Sagðist Jóni svo frá, að þessi síld hefði verið söltuð sem venjuleg saltsíld 36 klukkutíma gömul og legið í salti í tvo sólarhringa, en að því loknu hafði kryddi verið hrært saman við síldina. Sýndi hann réttilega fram á það, að saltsíld tekur ekki kryddi, og þessi síld, sem seld er á nýjan markað í Ameríku, myndi spilla svo stórkostlega aðstöðu okkar Íslendinga til markaðs þar, að stórtjón hlyti af að stafa. Formaður útflutningsnefndar tók í sama streng og Jón og vítti harðlega þetta háttalag framkvæmdarstjórans og benti á, að óhjákvæmilega yrði að breyta afstöðu yfirsíldarmatsmanna til Einkasölunnar, þannig, að þeir yrðu framvegis skipaðir af því opinbera með fullu valdi til að banna útflutning á þeirri síld, sem að þeirra áliti væri ekki útflutningshæf“.

Svo mörg eru þau orð. En það er gleðilegt að sjá, að formaður útflutningsnefndar hefir í þessu atriði snúið frá villu síns vegar og þarna einmitt tekið að sér þann málstað, sem haldið hefir verið fram af flm. þessa frv., sem hér er nú, að yfirsíldarmatsmenn ættu að vera eins óháðir starfsmenn við Síldareinkasöluna eins og fiskimatsmenn eru gagnvart fiskieigendum annarsstaðar á landinu.

Þetta dæmi er lærdómsríkt um það ástand, sem er í Einkasölunni, þegar svona lagað kemur fyrir, þegar verið er að senda vöru á markað heillar heimsálfu, vöru, sem á að ryðja íslenzkum vörum þar braut. (SE: Er hægt að sanna þetta?). Ég get bent hv. þm. Dal. á þau gögn, sem hér liggja fyrir, fyrst og fremst skýrslu frá forstjóranum, að þessi sending hafi átt sér stað, og sömuleiðis fyrsta tölublað af „Alþýðumanninum“, sem gefið er út á Akureyri og formaður útflutningsnefndar er ritstjóri að. Ef hv. þm. Dal. þykir þessi sönnun ekki næg, þá hygg ég, að hægt sé að fá skýrslu um þetta frá matsmönnum þeim, sem neituðu að gefa vottorð um síldina, og í raun og veru er skylt að taka svona mál til rannsóknar. En þrátt fyrir þetta ólag á matinu, þá hefir matskostnaður aukizt, sbr. skýrslu forstjórans.

Þá er ferðakostnaðarhlið Einkasölunnar. Þar byggi ég á skýrslu forstjóra Einkasölunnar og tveimur reikningum, sem mér hefir tekizt að ná í. Ferðakostnaður Einkasölunnar, sem skuldast beinlínis á reikning hennar, er samkv. reikningnum 15399.68 árið 1928, og 1929 er sami kostnaður, sem skuldast á reikning Einkasölunnar, kr. 25810.22. Þetta gildir fyrir þessi tvö ár.

Þá er þess að geta, að í skýrslu forstjórans, Péturs Ólafssonar, fyrir árið 1930 er sagt, að fyrir þessi 3 ár sé búið að verja til ferðalaga úr markaðsleitarsjóði kr. 28520.00 og þar fyrir utan kr. 5800.00 til sendiferða matsmanna. En til þess að sjá, hvað ferðalög öll hafa kostað, bæði þau, sem markaðsleitarsjóður hefir kostað og hin, sem Einkasalan sjálf hefir borgað, vantar mig upplýsingar um þau ferðalög, sem skuldast hjá Einkasölunni fyrir 1930.

Þetta, sem hér hefir verið talið, ferðakostnaður úr markaðsleitarsjóði í 3 ár og ferðalög, sem skuldast sjálfri Einkasölunni í 2 ár, það verður til samans kr. 75529.90. Við það bætist ferðakostnaður tveggja sendla frá Einkasölunni, og mun ekki of í lagt, að sá kostnaður sé 5 þús. kr., en eins og ég gat um, þá er ekki kominn reikningur yfir þessi gjöld árið 1930, svo að maður sér ekki, hve mikill þessi kostnaður er hjá sjálfri Einkasölunni það ár, heldur aðeins markaðsleitarsjóðskostnaður. En ef samskonar kostnaður frá árunum 1928 og 1929 er lagður þar til grundvallar og gert ráð fyrir, að hann sé svipaður 1930, sem sé meðaltal af þeirri upphæð, þá er næsta líklegt eftir þessum gögnum, að kostnaðurinn sé alls um eða yfir 100 þús. kr., sem orðið hefir vegna ferðalaga fyrir Einkasöluna í þessi 3 ár. Sýnist það vera nokkuð þrifleg upphæð, sem hér er varið eingöngu í ferðakostnað.

Þá vil ég benda á, að kostnaður við símskeyti og annar símskeytakostnaður hefir verið 2 fyrstu starfsár Einkasölunnar, 1928 og 1929, kr. 29537.58, og má sama segja um þann útgjaldalið. Ég veit ekki, hvort endurskoðendurnir hafa fundið ástæðu til að gera aths. við hann, en mér og fleirum, sem hafa litið á þessa útgjaldaliði, virðist þetta gífurlegur tilkostnaður hvort í sínu lagi.

Ég gat þess áður, að einu sinni hefði verið varið 5800 kr. til að kosta 3 menn til að læra að fara með síld. Ég vil bæta því við nú, til þess að sýna fram á, hve mikið gagn Síldareinkasalan hefir af sumum þessum sendiferðum, að enginn þessara þriggja manna er nú við starf hjá Einkasölunni. Þeim peningum virðist því ekki sérlega vel varið, sem kastað er til manna til svokallaðrar kynningar á einhverju. Svo tryggir Einkasalan sér ekki betur not af þessum mönnum en svo, að þeir eru horfnir úr þjónustu hennar áður en varir.

Ég gat þess áður, að markaðsleitarsjóður hefði kostað nokkuð af ferðalögum einkasölunnar. Honum hefir einnig verið varið til ýmissa prufusendinga og til að kosta ýmsar ritgerðir, svo sem síldarsögu Íslands. Hver sem árangurinn hefir orðið af því, hvernig fé markaðsleitarsjóðsins hefir verið varið, þá er sýnilegt, að það, sem í hann hefir runnið 2 fyrstu árin, er eytt og uppétið. Samkv. skýrslu forstjórans voru það kr. 41134.29, sem í hann fóru 1928, og 1929 fóru í hann kr. 31410.00, — m. ö. o. rúmlega 72 þús. kr. En í reikningi Einkasölunnar fyrir 1929 er markaðsleitarsjóðurinn talinn í skuld við stofnunina, svo að allir hans peningar eru eftir því uppeyddir á þessu tímabili, og þó nokkru betur.

Ég sé ekki ástæðu til að svo komnu máli að benda á fleiri atriði í þessu efni til að sýna fram á, hver nauðsyn er á, að rekstri og fyrirkomulagi Einkasölunnar sé gaumur gefinn. Áður en ég sezt vil ég enn benda hv. þdm. á þær margvíslegu kröfur, sem fram hafa komið frá félögum og einstökum mönnum, sem síldarútveginn stunda, að þær eru þess verðar, að þeim sé gaumur gefinn. Þingið verður nú að gera þá breytingu á stjórn Síldareinkasölunnar, að hún verði minna háð hinu pólitíska valdi; að þeir, sem afla vörunnar og eiga alla sína afkomu undir sölu hennar, fái þar meiru að ráða.

Ég hefi áður talað um, að bezt mundi að vísa þessu máli til hv. sjútvn. um leið og það fer til 2. umr., og vona ég, að hv. d. fallist á það.