17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í C-deild Alþingistíðinda. (2060)

145. mál, einkasala á síld

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Það er misskilningur hjá hv. þm. Ísaf., ef hann vill þýða orð mín á þann hátt, að ég hafi lesið út úr till. þeirri, sem samþ. var á fundi útgerðarmanna og sjómanna á Ísafirði, að þeir vildu leggja Síldareinkasöluna niður. Kvað hann engar raddir um slíkt hafa komið fram á fundinum, og má vel vera, að það sé rétt.

Það, sem ég vil benda á í sambandi við þessa till., er það, að sjómenn þar vestra eru farnir að hugsa um þann möguleika, að útgerðarmenn hætti að einhverju leyti að gera út. Ef hv. þm. vill nú leita í heilabúi sínu eftir þeim hugsunarhætti, sem hann og flokksbræður hans vilja sérstaklega tileinka útgerðarmönnum, þá finnur hann vafalaust þá skoðun, að þeir hugsi fyrst og fremst um sinn eiginn hag. Færi svo, að bátaeigendurnir á Ísafirði fengjust ekki til að gera út, væri það eflaust af þeirri ástæðu, að þeir sjá tap fyrir dyrum, ef þeir halda útgerðinni áfram. Að togararnir eru enn bundnir við hafnargarðinn, eins og hv. þm. orðaði það, stafar vitanlega ekki af öðru en því, að eigendur þeirra álíta ekki nema tap að byrja útgerð þeirra strax.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ef skipaeigendur vildu ekki gera út á síldveiðar, yrði Alþ. að grípa til sérstakra úrræða. Og mér fannst hilla undir það hjá honum, hver þau sérstöku úrræði væru: Að ríkið ætti tafarlaust að taka framleiðslutækin í sínar hendur. En ég vil nú spyrja hv. þm.: Hvar ætti ríkið að taka fé til þess að greiða árlegt tap á síldarútgerð ? Eða álítur hann, að ríkissjóður hafi svo mikið betri aðstöðu en einstakir atvinnurekendur, að það gæti látið bera sig atvinnuveg, sem aðrir geta ekki rekið nema með tapi. Ég held, að þegar búið er að koma einhverri grein sjávarútvegsins í svo mikil vandræði og öngþveiti, að ekki borgar sig fyrir skipaeigendurna að gera út, þá sé tæplega gróðavon fyrir ríkið að taka upp þann atvinnurekstur. Og ég veit, að jafnskýr maður og hv. þm. Ísaf. hlýtur að sjá, að óhugsandi er fyrir ríkið fremur en aðra að reka til langframa atvinnuveg, sem árlegt tap er á.

Hv. þm. sagði, að vestra væri Einkasölunni helzt fundið það til foráttu, hvað peningarnir fyrir síldina koma seint. Það er ekkert undarlegt, þó menn finni til þess. En eins og síldarsölunni er nú háttað, virðist tæplega hægt að komast hjá því, að menn verði að bíða eftir andvirði síldarinnar. Þetta er að vísu bagalegt, en það er böl, sem þessu skipulagi fylgir. En það er svo margt annað í sambandi við Síldareinkasöluna, sem ekki er síður bagalegt, og sem fremur er hægt að umflýja. Ég hefi áður minnzt á nokkra af eyðslupóstunum og ýmiskonar misrétti, sem sjómenn hafa verið beittir af Einkasölunni. Forstjóri hennar segir sjálfur, að sumum af sjómönnum hafi í sumar verið greiddar 9 krónur fyrir tunnuna af síld, en yfirleitt hafa menn ekki enn fengið nema 7 krónur fyrir tunnu. Jafnframt segir hann, að þetta ætli hann ekki að reyna að verja.

Það er dálítið einkennilegt og óvenjulegt orðalag hjá manni, sem er að gefa skýrslu um stofnun, sem hann hefir verið settur til að stjórna, þegar hann strax segist ekki einu sinni ætla að reyna að verja þessar og þessar aðgerðir. En þetta sama orðalag notar forstjóri Einkasölunnar, þegar hann minnist á kauphækkun verkakvenna á Siglufirði, sem gerð var þvert ofan í samþykktan taxta.

Ég ætla að minnast á eitt dæmi enn um ráðsmennsku Síldareinkasölunnar. Einn af forstjórum hennar dvelur í Kaupmannahöfn og þar hefir hún frá byrjun haft skrifstofu. Þar eru hafðir þrír fílefldir karlmenn, og kunnugir fullyrða, að laun þeirra og annar kostnaður við þetta skrifstofuhald geti ekki numið minna en 40 þús. kr. En afrek þessarar stofnunar í þágu Síldareinkasölunnar virðast harla lítil. Það hefir verið upplýst af einum úr útflutningsnefndinni, að öll sú síld, sem seld var á síðasta ári gegnum skrifstofuna í Höfn, var ekki nema um 200 tunnur. Það mun hafa atvikazt svo — um það er mér kunnugt —, að hæstv. dómsmrh. fékk tækifæri til þess í siglingu sinni í haust að sjá vinnubrögð þessarar 40 þús. kr. stofnunar. Og eftir því, sem mér hefir heyrzt á honum, mun hann ekki hafa orðið beint hrifinn af ráðlagi Einkasölunnar hvað skrifstofuhaldið í Kaupmannahöfn snertir.

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ætlunin með þessu frv. væri sú, að taka öll yfirráð yfir Síldareinkasölunni af sjómönnum og fá þau í hendur útgerðarmönnum. Þetta er ekki rétt. Þó frv. ætli útgerðarmönnum að hafa örlítinn meiri hl. í fulltrúaráðinu, er ekki hægt að segja, að öll völdin séu lögð í hendur þeirra. Eða vill hv. þm. halda fram, að stj. Einkasölunnar sé nú öll í höndum Alþ.? Þá væri það alveg þýðingarlaust ákvæði, að sjómenn mega nú kjósa einn mann í útflutningsnefndina og útgerðarmenn annan. Tilgangur frv. er að fá þessum aðilum stj. Einkasölunnar í hendur eftir sama hlutfalli og þeir eiga síldina, þegar hún kemur á land, eftir venjulegum ráðningarskilmálum. Það er hin réttlátasta leið í þessu máli sem hægt er að finna. En eigendur síldarinnar tel ég þá, sem eiga og reka skipin og gera þau út, og þá sjómenn, sem vinna upp á hlut. Það eru hinir réttu aðilar til að stjórna síldarsölunni, því á þeim lenda afleiðingarnar af því, hvernig hún gengur. Annars er ekki svo sem sjómenn hafi nein yfirráð yfir Einkasölunni eins og nú er, og er þess vegna ekki hægt að tala um, að af þeim sé tekið það, er þeir aldrei hafa haft. Verkafólkið í landi hefir hér aftur aðra afstöðu. Það er ráðið upp á ákveðið kaup og hefir því ekkert frekar rétt til að taka þátt í stjórn síldarmálanna heldur en annað verkafólk í stjórn atvinnurekstrar yfirleitt. Eigi að fara inn á þá braut, er það ný stefna, sem getur alveg jafnt átt við aðra atvinnuvegi eins og síldarútveginn, en ennþá er yfirleitt ekki um slíkt að ræða.

Eftir venjulegum ráðningarkjörum fá útgerðarmenn 56% af aflanum, yfirmenn skipanna 9% og hásetar 35%. Eftir þessu hlutfalli höfum við flm. frv. hugsað okkur, að fulltrúaráðið verði kosið. Ég sé ekki, hvernig ætti að vera hægt að finna sanngjarnara hlutfall, ef viðurkenndur er á annað borð eignarréttur nokkurs manns á síldinni, þegar hún kemur á land. Það er því ómögulegt að bera oss flm. það á brýn, að hér sé verið að seilast eftir meira valdi handa útgerðarmönnum en þeir hafa heimtingu á. Það er verið að krefjast yfirráða á síldarsölunni fyrir hönd þeirra þriggja aðila, sem síldina eiga, og sú krafa er réttmæt.

Um ástandið í þessum efnum áður en Einkasalan var sett á stofn sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða nú, þar sem ekki liggur fyrir nein till. um að afnema hana. Þó mætti geta þess, að hagur sumra þeirra, sem starfa að síldveiðum, er ekki betri nú en var fyrir 1928, t. d. sjómannanna. Hinsvegar getur verið, að hagur síldarsöltunarstúlknanna á Siglufirði hafi batnað, því að við þær hefir verið hækkað, svo að þær fengu 4 kr. á tunnuna við vissar söltunaraðferðir síðastl. sumar. Ennfremur getur verið, að hagur ýmissa sendimanna og bitlingamanna hafi batnað, en svo mikið er víst, að hagur útgerðarmanna og sjómanna hefir versnað. Kunnugur maður síldarútveginum fyrir norðan hefir sagt mér, að ef gengið væri út frá því, að sjómenn hefðu haft 1000 kr. árlega í tekjur, áður en Einkasalan var sett á stofn, hefði hagur þeirra versnað það við Einkasöluna, að þeir fengju ekki nema helming þeirrar upphæðar nú. Hafi þeir með öðrum orðum tapað 50% við Einkasöluna. Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það. Það er eins og hver önnur fullyrðing. En þessi maður er svo gætinn og svo gagnkunnugur þessum málum, að ég hefi fulla ástæðu til að ætla, að nokkur rök séu fyrir þessu.

Þrátt fyrir það, þó að Einkasalan hafi reynzt svo illa og sýnt hefir verið fram á, höfum við flm. þessa frv. ekki farið fram á, að hún yrði lögð niður, heldur gerum við till., sem mættu vera til umbóta á henni. Það gladdi mig því, að hv. þm. Ísaf. er fús til að leggja öllum umbótatill. lið, og ég vænti þess, að allir hv. þdm. séu sama sinnis og verði fúsir til að lagfæra þá ágalla, sem nú eru á fyrirkomulagi Einkasölunnar. Ég verð enn að undirstrika það, að það er ábyrgðarhluti fyrir þingið að viðhalda því ástandi, sem nú er hvað yfirstjórn Einkasölunnar snertir. Einn af forstjórum Einkasölunnar, Pétur Ólafsson, segir svo í skýrslu, sem hann hefir gefið um Einkasöluna, að „pólitísk íhlutun hafi seilzt of langt með hrammina inn á verksvið Síldareinkasölunnar“. Þetta tel ég rétt mælt um afskipti þingsins af þessum málum, enda fæ ég ekki séð, að það megi dragast lengur, að yfirstjórn Einkasölunnar verði tekin úr höndum þeirra, sem nú hafa hana, og falin þeim mönnum, sem með réttu eiga að hafa þar öll ráð.