17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í C-deild Alþingistíðinda. (2062)

145. mál, einkasala á síld

Haraldur Guðmundsson:

Ég hefi litið yfir þær till., sem samþ. voru á Ísafirði í sambandi við Síldareinkasöluna og hér hefir verið rætt nokkuð um, en ég hefi ekki rekið mig á það, að nokkur till. hafi verið borin þar upp eða samþ., sem gengi í þá átt að afnema Síldareinkasöluna, eins og hv. þm. N.-Ísf. vildi halda fram. Það er því skáldskapur einn hjá honum að slík till. hafi sést þar, hvað þá verið samþ. Með leyfi hæstv. forseta vil ég leyfa mér að lesa hér upp nokkrar af þessum till., og mun ég velja þær til, sem þeir menn, er fund þennan sóttu, lögðu mest upp úr.

1) Fundurinn skorar á Alþingi að tryggja Síldareinkasölunni svo mikið rekstrarfé, að hún geti, að enduðum síldartíma, greitt útgerðarmönnum og sjómönnum áætlunarverð aflans.

2) Fundurinn skorar fastlega á Alþingi að ábyrgjast greiðslu á Rússavíxlum Síldareinkasölunnar fyrir síld þá, er var seld þeim á síðastl. sumri, svo að hásetar og útgerðarmenn þurfi eigi að biða lengur eftir greiðslu.

3) Fundurinn skorar á Alþingi að veita ábyrgð fyrir minnst 80% af andvirði þeirrar síldar, er seld kann að verða til Rússlands eða annara ríkja.

4) Fundurinn skorar á Síldareinkasöluna að leggja áherzlu á að selja Rússum 200 til 300 þús. tn. af síld, fáist svipað verð og síðastl. sumar, enda taki Alþingi ábyrgð á 80% andvirðisins.

5) Fundurinn skorar á Alþingi að gera ráðstafanir til þess að fá kæliskip, eitt eða fleiri, til hraðferða til útlanda með kælda síld í sumar, og verði skipið síðan notað til ísfiskútflutnings að haustinu og vetrinum.

Ég hygg, að það sé ekki ofmælt hjá mér, að þessar till. voru mest ræddar á umræddum fundi, auk þess sem mikið var rætt um það, verð á tunnum og fleiru, sem til síldarútgerðar þarf. Ennfremur var á fundinum talað um síldarmatið, eins og hv. þm. N.-Ísf. réttilega tók fram, og um skattinn til Flugmálasjóðs. Loks var allmikið rætt um þá till., sem hv. 1. flm. þessa frv. gat um í frumræðu sinni og svo hljóðar:

„Ef útgerðarmenn gera ekki út á síld, skorar fundurinn á Alþingi að heimila Einkasölunni að gera út skip þeirra“.

Það skiptir ef til vill ekki miklu máli fyrir þessa hv. deild, hvað samþ. er á Ísafirði, en þekkingin á því, hverja raun Síldareinkasalan hefir gefið, er sízt minni þar en annarsstaðar á landinu, því að Ísfirðingar eiga mikið undir síldarútveginum um afkomu sína. Ég veit ekki almennilega, saman við hvað hv. flm. vill bera Einkasöluna og árangurinn af henni. Að taka Einkasöluna út úr og dæma hana fyrir verk sin er ekki rétt. Það verður að bera hana saman við önnur skild fyrirtæki í landinu, ef ekki á að miða við ástandið í þessum efnum fyrir daga Einkasölunnar, sem hv. flm. telur ekki rétt að gera. Það væri t. d. ekki úr vegi að bera saman saltsíldarverzlunina annarsvegar og saltfiskverzlunina hinsvegar. Þó að mikið hafi verið rætt um mistök Síldareinkasölunnar og þar margt með réttu áfellzt, hefir síldarverzlunin samt verið hagkvæmari en saltfiskverzlunin. Annars er það sérstaklega eftirtektarvert, að allur þorri manna í landinu finnur sér skylt og skoðar sjálfsagðan rétt sinn að ræða um öll atriði síldarverzlunarinnar og finna að mistökum Síldareinkasölunnar. Ástæðan er auðvitað sú, að hér er um opinberan rekstur að ræða, sem lýtur yfirráðum almennings og að stj. Einkasölunnar er skyldug til að leggja fram fyrir alþjóð skýrslu og reikninga yfir hag hennar og rekstur. Aftur á móti eru reikningar togaraútgerðarinnar og fiskverzlunarinnar öllum almenningi lokuð bók, og er þó enn meira í húfu fyrir okkur þar sem hún er en þar sem síldarútgerðin er, og hefir hún þó mikið að segja. Um togaraútgerðina og fiskverzlunina fá sjómenn og verkamenn ekkert að vita og hafa engan rétt til að segja neitt, heldur verða að taka hverju verðfalli, sem að höndum ber, eins og um einhver óviðráðanleg náttúrufyrirbrigði væri að ræða. Hjá Samvinnufélagi Ísfirðinga hefir síldveiðin gefið beztan arð síðustu 2 árin, og séu bornar saman verðsveiflur á síld og þorski, verður samanburðurinn ekki óhagstæður fyrir síldarverzlunina heldur þvert á móti. Þó verður að gæta þess, að þegar talað er um síld og síldarverzlun, er rangt að tala eingöngu um saltsíldarverzlun, því að bræðslusíldin skiptir hér miklu máli jafnvel ennþá meiru máli, þar sem bræðslusíldarmagnið er orðið 5–6 sinnum meira en saltsíldarmagnið. Verðið á bræðslusíldinni hlýtur því að ráða mestu um það, hvort hægt er að gera almennt út á síld eða ekki, nema unnt sé að auka söltunarleyfi stórkostlega frá því sem nú er. Nú hefir bræðslusíldin fallið meira í verði en saltsíldin. Mun láta nærri, að lýsið hafi fallið um helming frá því, sem var í fyrra. Flestir stærri vélbátar geta alls ekki gert eingöngu út á saltsíldarveiðar. Það er ekki hægt að gera út 40 –50 smálesta bát til þess eins að fá að salta einar 1200–1500 tn., og því hafa vélbátarnir, sem hafa gengið á síld, hingað til selt langmest af afla sínum í bræðslu, jafnvel allt að 5/6 hlutum. Með því verði, sem litur út fyrir að verði á bræðslusíld í sumar er það mjög vafasamt, hvort hægt er yfirleitt að gera út á síld nema með mjög auknum söltunarleyfum, og í þá átt ganga kröfur fundarins á Ísafirði. Ef ekki verður saltað nema 200 þús. tn. — hvernig á þá að fara að? Hafa það eins og í fyrra: að veita mörgum skipum söltunarleyfi, og sáralítið hverju? Slíkt getur tæplega gengið. Þá verður án efa happasælla að veita færri skipum söltunarleyfi, og þá meira hverju en sleppa öðrum. Þetta mundi auðvitað skapa óánægju meðal útgerðarmanna, sem engin söltunarleyfi fá, því er það, að till., sem hv. þm. Vestm. varð svo tíðrætt um, kom fram á fundinum á Ísafirði um það, að Alþingi heimilaði Einkasölunni að gera út skip útgerðarmanna, ef þeir gerðu ekki út sjálfir. Ég vil annars taka það fram í þessu sambandi, að ég á hér eingöngu við vélbáta, því að ég býst við, að togarar t. d. geti veitt í bræðslu með minna kostnaði á hvert mál en vélbátar og því þolað betur þetta lága verð.

Hv. flm. fullyrti, að hlutur sjómanna hefði versnað með Einkasölunni. Hafði hann það eftir einhverjum manni, kunnugum þessum efnum, að tekjur sjómanna mundu hafa rýrnað um 50% frá því, sem þær voru áður en Einkasalan var stofnuð. Þó vildi hv. flm. ekki ábyrgjast neitt um þetta, heldur taldi hann það eins og hverja aðra fullyrðingu, en sennilega þó. Ég held, að þetta sé vitleysa tóm. Að vísu er erfitt að gera þennan samanburð á hverjum tíma, en mér er nær að halda, að ekki hefði verið farið svo dult með þetta, ef það væri nálægt sanni. Gæti ég trúað, að hlutur sjómannanna sé svipaður og hann var fyrir daga Einkasölunnar, þegar salan lánaðist sæmilega, en miklu betri en hann oftast var.

Hv. flm. játaði það, að eftir frv. væri stj. Einkasölunnar algerlega í höndum útgerðarmanna, enda var ekki um annað fyrir hann að gera en að játa því, þar sem útgerðarmenn kjósa 13 fulltrúa af 24, og ráða sennilega fleirum, því að skipstjórarnir munu oft fylgja þeim að málum. En hv. flm. vildi réttlæta þetta með því, að þeir einir ættu að ráða um stj. Einkasölunnar, sem ættu hluti í vörzlum hennar. Sjómennirnir eiga líka flestir aflahlut sinn í hennar vörzlu. En verkafólkið í landi á litlu eða engu minna undir stjórn Einkasölunnar, þ. e. sumaratvinnu sína. Þess vegna er það eðlilegast að verkalýðsfélögin um land allt, félög sjómanna og verkamanna, kjósi fulltrúana, enda þótt meiri hl. félagsmanna stundi síldveiðar aðeins að litlu leyti. Annars er fjarri því, að ég hafi á móti því, að sjómannafélögin kjósi sérstaka fulltrúa, en rétt annars verkafólks má á engan hátt skerða, síst þegar sjómönnum alltaf er tryggður hárviss minni hluti í stj. Einkasölunnar eftir frv.

Þá sagði hv. flm., að það væri nýr síður, ef þeir, sem ættu eitthvað í vörzlum fyrirtækis, ættu þar með að fá rétt til að ráða um rekstur fyrirtækisins. Rétt er það, að þetta er því nær nýr siður og illa séður af íhaldsmönnum. En með lögunum um síldareinkasöluna var stigið lítið spor í þá átt, og ég tel illa farið, ef horfið verður frá því. Og ef í frv. á að vera um annað en látalæti að ræða, að því er snertir rétt og áhrif verkalýðsins, verður að tryggja það, að sjómenn og Út af þeim ummælum hv. þm. Ísaf., að verkamenn verði ekki í minni hl. gagnvart andstæðri stétt, því að þá koma þeir engu fram, þegar stéttahagsmunir skerast í odda. Eins og nú er um skipun stj. Einkasölunnar, ráða verkamenn 2 fulltrúum og útgerðarmenn 2, en fulltrúi stjórnarflokksins er oddamaður. Nær verður ekki komizt meðan verkalýðurinn ekki hefir tekið völdin í sínar hendur. Hinsvegar get ég vel skilið það, að útgerðarmenn vilji ráða öllu einir um Einkasöluna. Það er fullkomlega eðlilegt frá þeirra sjónarmiði.

Ég get tekið undir það, að það er ýmislegt um Einkasöluna, sem sjálfsagt er að ræða og athuga, en ég verð að harma það, að þær aðalbreyt., sem þetta frv. fer fram á að gerðar verði á Einkasölunni, eru ekki til bóta, heldur þvert á móti.