17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í C-deild Alþingistíðinda. (2064)

145. mál, einkasala á síld

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. sagðist ekki sjá, að nein till. hefði verið borin upp á fundinum um afnám Einkasölunnar. Það stóð heldur ekki til. Nefnd sjómanna og formanna, sem búið hafði til tillögurnar, hafði einnig samið till. um, að ef ekki fengist leiðrétting á stj. Einkasölunnar, legði fundurinn til, að Einkasalan yrði lögð niður.

Um hitt atriðið, að meira sé talað um Síldareinkasöluna heldur en sölu á saltfiski, þá er það að nokkru leyti rétt og nokkru leyti rangt. Menn hafa samanburð á saltfiskverði í Noregi og á Íslandi, og það, sem sérstaklega stingur í stúf, þegar borin er saman sala á síld og saltfiski, er, að síld, sem Norðmenn veiða hér við land, er seld þannig, að hún gefur þeim hærra verð en íslenzku sjómennirnir fá. Ísl. sjómenn fá 12–14 kr., en norskir sjómenn 12–14 og upp í 16 norskar kr. Og þeir hafa jafnvel árið 1928 fengið 18.32 kr. Þess vegna má sjá, að hér hlýtur eitthvað að fara aflaga. En um fiskinn er það að segja, að salan hefir yfirleitt tekizt eins vel fyrir okkur og fyrir Norðmönnum, sem hafa samskonar vöru að bjóða.

Um bræðslusíldina vil ég geta þess, að ég hygg, að svo fari, að þegar reikningar bræðslustöðvar ríkisins koma í dagsins ljós, muni hún ekki einu sinni hafa getað greitt 4.50 kr., eins og hún reyndar er búin að gera, heldur verði tap hjá henni með því; en það er vitanlegt, að innlendar bræðslustöðvar borguðu á síðastl. ári 7 kr. Þá má náttúrlega gera ráð fyrir, að þær hafi tapað einhverju í rekstrinum, en ég efast um, að þær tapi jafnmiklu og bræðslustöð ríkisins, sem greiddi þó þriðjungi lægra.