17.03.1931
Neðri deild: 26. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 945 í C-deild Alþingistíðinda. (2065)

145. mál, einkasala á síld

Magnús Jónsson:

Ég skal ekki tefja hv. d. lengi; en ég hefi nokkra ástæðu til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, því að ég mun greiða atkv. með þessum breyt., þótt ég sé óánægður með fyrirkomulagið, jafnvel þótt þetta frv. verði samþ.

Ég hefi þá skoðun á þessu máli, að einkasala muni ekki veita lausn hér frekar en annarsstaðar, en samt sem áður er munur á því, hvernig einkasölu er fyrir komið. Það er dálítið einkennilegt að athuga sögu þessarar einkasölu. Síðan hún var sett á, má heita, að stöðugt stríð sé um hana á hverju þingi, því að upphafsmenn hennar eru alltaf að berjast við gallana á þeirra eigin smíð. Spádómarnir um, að hún myndi reynast illa, hafa alveg rætzt. Í byrjun var talað um, að ekki kæmi til mála, að einkasalan ætti að flækja ríkissjóði inn í neinar fjárhagslegar ábyrgðir eða hættur. Hún átti aðeins að vera milliliður og sjá um sölu síldarinnar. Það leið nú ekki á löngu, áður en kom í ljós, að hún þyrfti töluvert rekstrarfé. Starfssvið hennar var aukið, hún á að selja tunnur og sjá um verkun síldar, og mér skilst á hv. þm. Ísaf., að hún verði líka að fiska síldina. Þá er skeiðið runnið á enda og ríkið búið að taka að sér fyrir eiginn reikning og áhættu hættulegasta atvinnuveg þjóðarinnar. Þetta leiðir hugsunarrétt hvað af öðru, og hér sannast, að ef fjandanum er réttur litli fingurinn, þá tekur hann höndina alla.

Þá er nú farið fram á, að ríkið taki á sig stórkostlegar ábyrgðir gagnvart Rússum, og ég held, að varla sé hægt að mæla á móti því, að Síldareinkasalan er að flækja ríkissjóði lengra og lengra inn í stórfelldar ábyrgðir og fjárhættu, alveg eins og þeir spáðu fyrir, sem verst spáðu.

Eitt skal viðurkenna, að ólag var á þessum atvinnuvegi, en ég sé ekki, hvaða ástæða er til þess að víkja úr einu ólaginu í annað. Það sýndist a. m. k. ekki ástæða fyrir þingið til þess að flytja ólagið yfir á sjálfan ríkissjóðinn. En meðan þessum auðæfum er veitt á land, þá fljóta með miklir peningar í vinnulaunum; og mér fannst við vel geta látið áhættuna vera sem mest hjá útlendingunum. Ég er ekkert viðkvæmur fyrir þessari leppmennsku, og menn máttu gjarnan hafa atvinnu við það að vera leppar. En á þessum atvinnuvegi var ólag og er ólag. (MG: Og verður ólag!). Já, a. m. k. meðan Einkasalan stendur.

Ástæðan til þess, að ég fylgi þessu frv., þó að það haldi þessu skipulagsbundna ríkisólagi við, er sú, að það færir dálitla von um skárri afkomu í framtíðinni. Hv. þm. Ísaf. lýsti vel ástandinu eins og það nú er, þegar hann sagði, að Einkasölunni væri stjórnað eins og í réttarsal. Þar stæðu mótsettir hagsmunir hver á móti öðrum í eilífum eldi, og svo er skipaður gerðardómur til þess að gera út um mál þeirra. Þetta er hin óskaplegasta stjórn. En sannleikurinn er sá, að hagsmunirnir eru mjög svipaðir hjá báðum þessum aðiljum. Þetta frv. fer í rétta átt, þar sem stefnt er burt frá þessu pólitíska krulli og reynt að koma stjórninni í hendur þeirra manna, sem fá ágóðann og bera hallann af því, hvernig atvinnuvegurinn gengur, og láta þá fá því meiri íhlutunarrétt, sem ætla má, að þeir hafi meiri hagsmuna að gæta. Útgerðarmenn, sem þarna eiga í stórkostlega mikið fé, eiga að fá mesta íhlutun, en aðrir, sem eiga atvinnu sína undir afkomunni, eiga að fá ríflega tölu fulltrúa, er geti fylgzt með, svo að hagsmunir þeirra verði ekki fyrir borð bornir.

Ef fyrirtækinu verður ekki bjargað nokkuð með þessu, þá verður því áreiðanlega ekki í lag komið með neinum bitlingaráðstöfunum.