05.03.1931
Efri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (22)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Jónsson:

Ég vil út af ræðu hv. þm. Snæf. segja fáein orð, fyrst hv. frsm. n. gerir það ekki. Ég sé ekkert ósamræmi í því, þótt prestum séu ætlaðar 2000 kr. til utanfara, en læknar hafi fengið 1500 kr. Prestar hafa svo miklu verri aðstöðu í þjóðfélaginu en læknar, sem margir hverjir eru með tekjuhæstu mönnum. Er því réttmætt, að prestarnir fái nokkuð hærri styrk, er þeir fara utan.

Hv. þm. taldi 1. brtt. n. þýðingarlausa, en það get ég ekki fallizt á. Ef hún er samþ., þá er það fastbundið, að minnst 2 prestar, en mest 5 fari utan árlega. Í frv. er þetta óákveðnara. En ef brtt. verður samþ., þá hafa þó prestarnir alltaf tryggingu fyrir því, að 2 fái utanfararstyrk árlega.