05.03.1931
Efri deild: 16. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í B-deild Alþingistíðinda. (23)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Halldór Steinsson:

Ég get ekki fallizt á rök hv. 3. landsk. Hv. þm. sagði, að læknarnir væru betur launaðir en prestar. Það er rétt. En á utanfararskilyrðum lækna og presta er líka sá mikli munur, að í frv. er prestum ætluð þjónusta safnaða þeirra, þeim að kostnaðarlausu. En þegar læknar fara utan, verða þeir að kosta dýra menn sjálfir til að gegna starfi sínu á meðan. Auk þess vil ég ekki kannast við, að læknar séu hæst launaðir allra embættismanna. Það er síður en svo. Mun þeim flestum ekki veita af sínum launum. Þá get ég heldur ekki kannast við, að það sé til neinna bóta að setja 2–5 inn í staðinn fyrir allt að 5. Það kemur ekki til mála, að nokkur stjórn skilji „allt að 5“ svo, að hún sé ekki skyldug til að veita neinum utanfararstyrk.