14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (241)

111. mál, opinber vinna

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég þarf ekki að þakka hv. 2. þm. Eyf. fyrir undirtektir hans. Býst ég við, að sérstakar ástæður, aðrar en hann tók fram, ráði afstöðu hans í þessu máli, og skal ég ekki fara nánar út í þá sálma.

Ræða hv. þm. var ekki sérlega sannfærandi. Hann sagði að lítið væri um verkafólk í sveitum. Þetta vissum við flm. áður, en verkamenn úr smákauptúnunum eru í vegavinnunni, og meðan bændur eru í vegagerð hjá því opinbera, eru þeir þó verkamenn þess. Hv. þm. sagði ennfremur, að bændur væru jafnframt gjaldendur. Þetta má segja um alla verkamenn líka. Þeir greiða einnig skatta og skyldur til hins opinbera og vinna jafnan að einhverju leyti fyrir sjálfa sig. En skyldi hv. þm. þó vilja fallast á, að vegavinnuflokkarnir ráði sjálfir kaupi sínu yfirleitt? Ég hygg, að bændum sé engin óþökk í því fremur en öðrum að fá vinnu sína sæmilega borgaða, og að þeir hafi ekki mikla freistingu til að fá útsvor lækkuð, með því að vinna sjálfir fyrir smánarlaun og sem allra lengst. Það er ennfremur fullkominn misskilningur hjá hv. þm., að það að vinna sem lengst sé sama og að vinna sem mest. Bændur hafa sjálfir komið auga á þetta. Áður fyrr var unnið í sveitum landsins á sumrum 14–15 stundir á dag. Nú mun vinnutíminn óvíða vera lengri en 10–12 stundir. Bændur hafa séð, að styttri vinnutíminn borgar sig betur. Sama lögmál gildir í vegavinnu. Hinu opinbera ber skylda til að fara vel með sína verkamenn. En enginn mun með nokkrum rökum geta haldið því fram, að lengri vinnutími en sá, sem lagður er til í frv., sé æskilegur, ef ætlazt er til, að menn hafi einhvern tíma afgangs frá striti og svefni. Eftir kenningu hv. 2. þm. Eyf. (svo að notuð séu orð „Tímans“, er hann talar um „kenningar“ flokksmanna sinna) ættu bændur helzt að vinna sem mest fyrir sem minnst kaupgjald, eða upp í 18 tíma á dag fyrir lítið sem ekki neitt.

En mér er kunnugt um, að vegavinnumenn sjálfir, hvort sem þeir eru bændur eða ekki, líta öðrum augum á þetta en hv. 2. þm. Eyf. ég vil því skora á hv. þm., samkv. ummælum hans áðan, að koma fram með brtt. um það, að vegavinnumenn ráði kaupi sínu sjálfir. Þá get ég tekið frv. aftur, að því leyti, sem það snertir kaupgjaldið.

En þingið getur ekki gengið framhjá því, að hið opinbera má ekki fara verr með verkamenn sína en einstakir atvinnurekendur.