14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (243)

111. mál, opinber vinna

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þbm. Eyf. hefir réttilega bent á, hve fjarstætt það er, að ákvæði frv. skuli ná yfir þá vinnu, sem sveitarfélög láta framkvæma. En frv. gengur lengra en þetta, því að það nær yfir vinnendur hjá næstum hverjum bónda á landinu, sem styrks nýtur samkv. jarðræktarlögunum. Í 1. gr. frv. er svo ákveðið, að undir ákvæði þess falli öll sú vinna, sem ríkissjóður veitir styrk til. Þetta verða hv. þdm. að athuga.

Ég vildi spyrja hv. flm., hvað við sé átt með gildandi kauptaxta verkalýðsfélaganna. Er það sá taxti, sem atvinnurekendur hafa falizt á, eða er það sá taxti, sem verkalýðsfélögin hafa auglýst, þótt enginn láti sér detta í hug að láta vinna eftir honum? Um þetta væri gott að fá upplýsingar.

Í grg. frv. er sagt, að ákvæðin um vinnutímann séu sniðin eftir vinnutíma verzlunarmanna. Hér er þá líklega miðað við Rvík eina, því að annarstaðar á landinu, t. d. kringum Húnaflóa, er mér kunnugt um, að verzlunarmenn vinna miklu lengur, oftast allt að 12 stundum á dag. Ef miða ætti vinnutímann við vinnutíma verzlunarmanna á þessum stöðum, ætti fremur að lengja hann en stytta frá því sem nú er.