14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (250)

111. mál, opinber vinna

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Úr því að farið er að ræða þetta mál við 1. umr., þá ætla ég að fara um það nokkrum orðum. Mér finnst fara vel á því, að hv. þm. Barð. er valinn til þess að andmæla þessu frv. fyrir hönd íhaldsflokksins. Hann mun vera tvennt í senn: spaugsamasti og hjartabezti maður í þeim flokki. En hvernig meðferðin málstaðnum er hjá honum, já, það verður nú hver að dæma frá sínum bæjardyrum. Mér finnst það annars næsta óviðeigandi, er hv. þm. hlæja og flissa undir umr. um svo alvarlegt mál sem þetta er. (ÓTh: Sá, sem flissaði mest, var hv. þm. Ísaf.). Það má vera, að ég hafi brosað að framkomu hv. 2. þm. G.-K. (MJ: Þetta er allt skrípaleikur). Guðfræðiprófessorinn er vanur við skrípaleikinn líklega á fleiri en einum stað. Röksemdir hv. þm. Barð. voru lítilfjörlegar, eins og hans var von og vísa, og þarf því lítið að svara honum. Vegavinnuhorfurnar eru nú þannig, að þar sem árið 1929 voru unnin í vegavinnu 130 þús. dagsverk og árið 1930 sjálfsagt ekki innan við 150 þús. dagsverk, þá er nú í fjárlagafrv. stj. lagt til, að framlög til vega verði sem svarar fyrir 30–40 þús. dagsverkum. M. ö. o. á að skera niður sem svarar 100 dagsverkum fyrir 1000 manns.

Umræðum um þetta alvarlega ástand vill hv. þm. Barð. snúa upp í glens. Mér finnst flest annað fremur broslegt.

Það voru einu rök hv. þm. Barð., að einhverjir handónýtir strákar vestur í Barðastrandarsýslu hefðu unnið að vegagerð ríkissjóðs Afleiðingin af því að greiða miklu lægra kaup við vegagerð en aðra vinnu verður einmitt sit, að í þá vinnu veljast lélegustu mennirnir, er sízt fá vinnu annarsstaðar. Þetta hafa sagt mér fjölmargir vegagerðarverkstjórar, og jafnvel vegamálastjóri sjálfur. Enda er þetta mjög eðlilegt, þegar vegavinnukaupið er 30–40% lægra en annarsstaðar er borgað. Í frv. er með kauptaxta átt við lágmarkskaup fyrir fullvinnandi menn. Auðvitað er sanngjarnt og verkstjórum innan handar að borga duglegum mönnum meira en lágmarkskaup.

Hv. þm. sagði, að nú væri sú öldin uppi, að menn heimtuðu minni vinnu og meira kaup. Þetta er alveg rétt athugað. Það er stefna allra manna að tryggja lífskjör sín sem bezt. Verkamenn vilja auðvitað láta sér líða sæmilega eins og aðrir, t. d. eins og við hv. þm. Barð. Nema þá hv. þm. telji, að verkamenn séu eitthvað allt annað en aðrir menn — þá er máske skiljanlegt, að hv. þm. finnist þetta broslegt, finnist það vera skringileg fjarstæða.

Í lok ræðu sinnar óskaði hv. þm. þess, að málið væri látið ganga til nefndar, en hann lét þau orð fylgja með til nefndarinnar, að hún settist á frv. og léti það aldrei sjást framar, — svo að hv. þm. fái ekki tækifæri til þess að greiða atkv. um málið. Hv. þm. Barð. er auðvitað í þessu sem öðru í samræmi við Íhaldsflokkinn, og mun það ekki vera nein tilviljun, að hann rís upp til andmæla fyrir flokkinn.

Aðalatriði þessa er þetta: Á hið opinbera að gera betur eða verr við starfsmenn sína, verkamennina, heldur en einstakir atvinnurekendur, sem reka atvinnu sína í gróðaskyni?

Ef hið opinbera veitir verkamönnum sínum betri kjör en aðrir, hlýtur það að gera verkamönnum auðveldara að koma fram réttlátum hagsmunakröfum sínum á hendur einstökum vinnuveitendum. En ef hið opinbera veitir þeim verri kjör, þá hefir það öfug áhrif, þá spillir ríkið fyrir hagsbótum verkamannanna, verður ekki annað sagt en að það sé blóðug skömm, að hið opinbera gangi þannig á undan í því að spilla fyrir hagsbótakröfum hinnar vinnandi stéttar. Hefir þetta komið oft fyrir á síðari árum, og er það slíkur smánarblettur á tveim síðustu landsstj., að hann verður aldrei af þeim skafinn.

Skal ég taka eitt dæmi, til þess að svona nánar fram á það, hversu hróplegt ranglæti þetta er.

Í hitteðfyrra var byggð bryggja í Borgarnesi með styrk af ríkisfé. Útlent félag sá um verkið, og greiddi það verkamönnunum 1,20 kr. á klst., eins og þá var greitt hér í Rvík. í sambandi við bryggjuna lét ríkissjóður byggja brú út í Brákarey, og heyrði verkið undir stjórn vegamálanna. Við brúargerðina voru greiddir 90 au. á klst., en 1,20 kr. við bryggjugerðina, eins og ég gat um áðan.

Mig furðar á því, að hv. þm. skuli ekki stökkva bros. Og þó ekki. Ástand eins og þetta er alvarlegra en svo, að að því sé hlæjandi. Þegar útlent félag, sem tekur hér að sér verk til þess að græða á því, greiðir 1,20 kr. á klst., þá greiðir ríkissjóður 0,90 kr., eða fjórðungi lægra kaup, — á sama vinnustaðnum. — (MJ: Vill ekki hv. þm. samt, að ríkið reki sem flest fyrirtæki?). Jú, en það er áreiðanlegt, að flokksmenn hv. þm. stjórna ekki landinu, eftir að atvinnutækin hafa verið gerð að þjóðareign. En þessi kaupgreiðsla hins opinbera er til skammar. Það er smánarlegt, að ríkið skuli nota aðstöðu sína sem vinnuveitandi til þess, að verkamenn fái sem lægst kaup. (ÓTh: Til þess, að einstaka þm. fái sem hæst kaup! ). Hv. 2. þm. G.-K. hefir nú sjálfur sett met hvað hátt kaupgjald snertir, að því er hann hefir sjálfur sagt. Ég man ekki, hvort hann sagðist hafa 400 kr. á klukkustund, eða hvort það var fyrir hverja hálfa klukkustund við gengisnefndarstörfin.

En það, hvaða afstöðu hið opinbera vill taka til hagsmunabaráttu hinnar vinnandi stéttar, er ennþá þýðingarmeira nú en fyrr. Ástandið og útlitið er ískyggilegt: Margir atvinnurekendur hafa stöðvað fyrirtæki sin, og togararnir liggja ennþá bundnir við hafnargarðinn. Það er ekkert vafamál, að atvinnurekendur ætla sér með þessu að beita því vopninu, sem hvassast er og þeir treysta bezt, atvinnuskortinum, til þess að koma á almennri kauplækkun.

Nú er spurningin þessi: Ætlar hið opinbera að ljá atvinnurekendunum lið til þess að lækka kaupið, eða ekki?

Ef þetta frv. verður fellt, þá lýsir ríkið yfir því, að það ætli að halda áfram sömu stefnunni og áður — að gangast fyrir almennri kauplækkun.

Verði fjárlögin afgreidd líkt og hæstv. stj. leggur til og búast má við að verði gert, þá verða framkvæmdir ríkisins felldar mjög niður, í viðbót við verkbann atvinnurekenda. Við það eykst atvinnuleysið enn að mun, og kemur vinnuveitendum þannig tvöföld hjálp til þess að lækka kaup verkafólksins, sem sé að ríkið greiðir lagt kaup og sker niður framkvæmdir. Hvort þetta verður gert eða ekki, kemur í ljós við atkvgr. um þetta frumvarp. (ÓTh: Það er ljótt að styðja stjórn, sem gerir slíkt). Ég styð ekki hæstvirta stjórn og hefi aldrei gert það. En ég vil benda hv. 2. þm. G.-K. á það, að hann hefir aldrei flutt vantraust á hæstv. stj., þótt hann hafi belgt sig mikið út af verkum hæstv. stj., bæði utan þings og innan. (ÓTh: Hv. þm. ætti að flytja vantraust sjálfur). Það er eins og hv. þm. þori ekki að flytja vantraustyfirlýsingu sjálfur, heldur vilji ota mér fram til þess. Það lítur ekki út fyrir, að hv. þm. hafi mikinn hug á að koma hæstv. stj. frá völdum. (SE: Getur þá ekki orðið samkomulag um að fella hæstv. stj.? — Forseti hringir). Ef hv. 2. þm. G.-K. fær sinn flokk til þess að samþykkja þetta frv. með okkur Alþýðuflokksmönnum, en hæstv. stj. og flokkur hennar berst á móti, þá getur farið svo, að við komum með vantraust, en aldrei munum við láta hv. 2. þm. G.-K. segja okkur fyrir verkum.

Hvað viðvíkur ræðum þeirra hv. þm. V.-Húnv. og hv. 2. þm. Eyf., þá verð ég að segja það, að mér fundust mótbárur þeirra næsta broslegar. Þeir heldu því fram, að það væri verið að fjandskapast við bændur með frv. Einyrkjarnir þyrftu að vinna meira en í 9 klst. á dag, til þess að geta aflað sér lífsviðurværis. Auðvitað koma ákvæði frv. þeim ekkert við. En broslegast var það, að baðir þessir hv. þm. heldu því jafnframt fram, að meiri hluti vegavinnumanna í sveitum væri úr bændastétt. Það lítur því út fyrir, að þessum hv. þm. þyki það hinn mesti fjandskapur við bændur, að kaup þeirra sjálfra sé hækkað og vinnudagurinn styttur ! Slík „hundalogik“ sem þetta er alls ekki hv. þm. samboðin.

Það er rétt, að sveitafólk stundar vegavinnu. Þar, sem ég þekkti til áður, voru það einkum ungir menn, sem unnu þessa vinnu, menn, sem voru að vinna sér inn skotsilfur, til þess að geta notið skólavistar, eða ungir bændur, sem voru að afla sér fjár, til þess að geta kostað ýmsar umbætur á jörðum sínum.

Af þessum mönnum er nú dregið, er hið opinbera klípur af launum verkamanna sinna. Það er dregið af bændunum, sem vilja kaupa nýjar vélar, til þess að gera umbætur auðveldari á jörðum sínum. Ég get nú ekki skilið, hvaða mein bændum getum verið í því, að þeim og öðrum sé borgað sæmilegt kaup.

Hv. þm. V.-Húnv. taldi það helzt bjargrað að lengja vinnutímann í 12 st., og bar það fyrir sig, að verzlunarmenn í Húnavatnssýslu yrðu að vinna tólf stundir á dag. Veit ég ekki, hve margir hv. þdm. eru honum samdóma um þetta atriði. En kannske það fari ekki svo illa á því, að vinnutíminn yrði lengdur og kaupið lækkað samhliða, svo að verkamenn fengju minna fyrir 12 st. vinnu heldur en 9 eða 10 st. vinnu áður! !

Ég skal svo ekki lengja umr. meira að sinni. En að lokum vil ég endurtaka það, sem ég álít, að sé aðalatriðið í þessu máli, en það er þetta:

Líta hv. þm. svo á, að hinu opinbera eigi að farast betur eða verr við verkamenn sína en einstökum fyrirtækjum, sem rekin eru í gróðaskyni?

Í frv. er ekki farið fram á það, að hið opinbera geri betur, heldur aðeins jafnvel við verkamenn sína og einkafyrirtæki Og ríkið getur ekki beðið neitt fjárhagslegt tjón af þessu frv. Það er margsannað, að afkast manna minnkar ekki hlutfallslega, þótt vinnutíminn sé styttur. Það er meira að segja líklegt, að meiru verði afkastað með 9 tíma vinnudegi. Og ef kaupið yrði hærra, þá mundu duglegri menn veljast í vinnu ríkissjóðs heldur en nú, þegar kaupið er svo lagt. Læt ég svo útrætt um frv. að sinni.