14.03.1931
Neðri deild: 24. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (251)

111. mál, opinber vinna

Jón Ólafsson:

Það er ekki vegna efnisins í ræðu hv. þm. Ísaf., að ég stend upp. Ræða hans var mest hljómur og innantóm stóryrði, eins og svo oft hjá þessum hv. þm., og er slíkt ekki svaravert.

En hv. þm. Ísaf. var mjög hneykslaður á því, að menn skyldu brosa að ræðu hv. þm. Barð. um þetta frv. En í þessu frv. kemur fram svo meinlaus vitleysa og svo látlaust blygðunarleysi, að réttast væri að hlæja að því.

Ég gat ekki betur séð en að hv. þm. Barð. tæki frv. þetta á réttan hátt. Því að það kemur mjög átakanlega í ljós, að hv. flm. skilja alls ekki undirstöðu þeirra mála, sem þeir eru að tala um.

Það er á frv. að sjá, að hv. flm. þess haldi, að hér sé allt fullt af peningum og ekki þurfi annað en taka þá og ausa þeim út til beggja handa. Nei, það er féð, sem vantar hér á landi. Það væri ef til vill æskilegt, að ríki og bæjarfélög byggju betur um verkamenn sína, en ef hv. flm. vildu hugsa um það, hvaðan og hvernig tekjur þær eru teknar, sem varið er til opinberrar vinnu, þá mundu þeir ekki tala svo gálauslega um minna afkast og hærra kaup.

Hver einasti maður hlýtur að sjá það, að hér á landi er flest það ógert, sem þyrfti að gera, til þess að nokkurt viðlit væri að fara fram á það, sem gert er í þessu frv.

En hér er sú viðleitni á ferðinni, sem reyndar hefir þegar borið árangur: Að koma atvinnuvegunum sem lengst niður á við. Og nú er búið að eyðileggja annan aðalatvinnuveg landsins, sjávarútveginn, að svo miklu leyti, að ekki er hægt að halda honum uppi, nema peningastofnanirnar taki á sig mikla áhættu, og eru þær þó hálftæmdar fyrir.

Fjöldi skipa liggur nú uppi (ég á þar ekki við togarana), vegna þess, að eigendur þeirra eru orðnir vanskilamenn og komnir á vonarvol. Og þegar svo búið er að koma atvinnuvegunum þannig á kné þá er ráðizt á hið opinbera, og fjárhag ríkis og bæjarfélaga komið í kalda kol. En hvað er hið opinbera? Afkoma atvinnuveganna og þeirra einstaklinga, sem reka þá.

Um svo sjálfsagða hluti sem þessa er aldrei hugsað af þeim mönnum, sem hæst tala. Það er máske hægt að fyrirgefa þeim, sem tala svo vegna vanþekkingar, en það er ófyrirgefanlegt af hv. þm. Ísaf. að koma svo hugsunarlaust fram í þessum málum. Hlýtur hann að tala á móti betri vitund, því að hann þekkir of vel ástand atvinnuvega vorra og fjárhags til þess að hugsa eins og hann talar.

Það eru því engin undur, þótt hv. þdm. hafi brosað að þessu frv. En mér fyrir mitt leyti þykir þetta alvarlegra en svo, að ég geti brosað, þótt réttast væri auðvitað að skopast að þessu máli.

Það eru nú orðnar ærnar umr. um þetta mál, og sé ég ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum. En ég vildi ekki láta hjá líða að minnast á hina alvarlegu hlið þessa máls, þá hlið, sem að þjóðfélaginu snýr.

Það er enginn leikur að hækka kaupið og stytta vinnutímann, meðan flest það er ógert í landinu, sem gera þarf. Því að hvað myndi það þýða annað en að landsmenn fengju því styttri vegi, því færri brýr. — Það mundi skapa enn meiri kyrrstöðu í atvinnulíinu en nú er, og mundum við þannig verða enn fjær því að ná því stigi, sem þarf að nást til þess að hægt sé að veita það, sem farið er fram á í frv. Hv. flm. þessa frv. ná aldrei því marki, sem þeir keppa að, með þeim aðferðum, sem þeir beita, heldur með því að gæta hófs og samræmis í öllu.