18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

65. mál, kirkjuráð

Hákon Kristófersson [óyfirl.]:

Ég skal ekki vera margorður um þetta frv., en vil þó ekki láta það fara svo út úr hv. deild, að ég láti ekki í ljós skoðun mína á því.

Ég álít, að þetta mál sé eitt af þeim málum, sem a. m. k. eru alveg óþörf, ef þau þá eru ekki til ills. En það er erfitt að spyrna móti stefnum hins nýja tíma, því nú er það orðin tízka að mynda ráðstjórnir yfir öllum málum, og mun Rússland vera tekið til fyrirmyndar.

Og það má geta þess í sambandi við þetta mál, að það hefir enginn treyst sér hér í hv. deild til að sanna það, að nauðsyn væri á þessu frv. Og hv. þm. hafa heldur ekki treyst sér til þess að sanna, að núverandi fyrirkomulag sé óhæft. Nei, þetta er aðeins brölt, til þess að fylgjast með tímanum og til þess að vissir menn geti fengið þóknun úr ríkissjóði fyrir misjafnlega þarflegt starf.

Samkv. 8. gr. frv. eiga kirkjuráðsmenn að fá greiddan framlagðan kostnað og aðstoð eftir reikningi, er ráðuneytið úrskurðar. Verksvið ráðsins er ákveðið eftir 2. gr. frv., og stendur þar m. a., að kirkjuráðið skuli „íhuga og gera ályktanir um þau mál, sem varða þjóðkirkjuna í heild sinni og einstaka söfnuði hennar“. Má af þessu sjá, að starfsviðið er svo lauslega ákveðið og svo viðtækt, að alls ekki er hægt að finna að því með rökum, þótt kostnaðurinn yrði nokkrum þús. kr. hærri en menn gerðu ráð fyrir. Og ef hin svokallaða gengisnefnd á að reikna út kostnaðinn, þá er alls ekki ólíklegt, að hann muni nema allsæmilegri upphæð. Og ég ætla, að dómsmalaráðuneytið myndi ekki hafa á móti slíkum reikningum, þar sem öðrum nefndum er borgað á sama hátt.

Ég minnist þess ekki, að hæstv. dómsmrh. hafi nokkuð talað um nauðsyn þessa máls, og heimilar það mér að lita svo á, að hann telji ekki vert að ljá þessu máli liðsyrði. (Dómsmrh.: Ég hefi ekki getað það vegna annríkis). Já, eins duglegur maður og hæstv. dómsmrh. hefir alltaf tíma til þess að koma þeim málum fram, sem hann hefir áhuga á.

Hið vægasta, sem hægt væri að segja um þetta frv., er, að það sé meinlaust, en sú hlið, sem að ríkissjóði snýr, er alls ekki meinlaus að mínu áliti. Ég hefi enga trú á því, að þetta kirkjuráð verði nokkurt leiðarljós landi eða þjóð í trúarefnum. Einn maður, sem fyrst um sinn er ákveðið, að sitja skuli í þessu ráði, er biskup. Um hann er það að segja, að hann hefir lengi haft í hendi sinni öll ráð til þess að glæða trúaráhuga hér á landi í ríkum mæli. Ég skal ekki dæma um það, hversu vel þetta hefir tekizt honum. En mér þykir næsta ósennilegt, að um frekari árangur væri von af starfi hans, þótt hann ætti sæti í einhverju ráði.

Ég vil taka undir með manninum, sem lofaði guð fyrir, að til var efri deild. Vona ég, að hún hagi úrslitum málsins eins og bezt gegnir fyrir ríkissjóðinn og felli þetta frv.