18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

65. mál, kirkjuráð

Jóhann Jósefsson:

Ég vildi taka undir það, sem hv. þm. Barð. hefir haldið fram um þetta mál, sem hér liggur nú fyrir. Ég held, að skoðun hans sé réttmæt á þessu máli, að ekki sé sýnilegt, að af þessu leiði annað en aukinn kostnað. Því þetta ráð, eins og önnur ráð, sem verið er að stofna til hér í ýmsum greinum, kostar mikið fé fyrir ríkissjóð. Undir umr. hefi ég litið á þskj., sem lögð voru fram í fyrra sem fylgiskjöl með þessu máli. Er auðsætt, að þó að biskup taki þannig vinsamlega í þessi mal, þá er hann ekki sannfærður um, að þetta komi að tilætluðum notum. Biskup tekur fram, að það, sem segir í frv., að sé verkefni kirkjuráðsins, að vinna að eflingu kristninnar, viti hann ekki betur en sé verkefni, sem prestastéttin hafi ávallt talið sér skylt að beita sér fyrir. Á öðrum stað segir biskup — með leyfi hæstv. forseta — bar sem hann talar um sama frv.: „Mér þykir leitt að efast um það, að bætt verði úr þessu með kirkjuráði, sem kæmi saman einu sinni á ári“. Það, sem hann taldi efasamt, að bætt yrði úr, er undirbúningur löggjafar, sem lögð yrði fyrir þingið. Í framhaldsáliti kirkjumálanefndar kemur ljóslega fram, að hún finnur til þess, að biskup telur vafa á gagni kirkjumálaráðs. mér er næst að halda, að hv. þm. Barð. muni verða sannspár um það, að hér sé á ferðinni mál, sem ekki lítur út fyrir að hafa mikla þýðingu, a. m. k. er ekki hægt að sjá, að það hafi það. En það er svo eins og allir vita, að sú tilhneiging þingsins hefir gert vart við sig hin síðari ár, að stofna þessi ráð og nefndir í ýmsum greinum, sem eru fyrst og fremst alltaf vísust til að leiða af sér aukinn kostnað, hvað sem öðru liður. Hæstv. dómsmrh. sagði, að þetta frv., ef það yrði að lögum, gæfi prestum tækifæri til á „skipulagsbundinn hátt“ að segja álit sitt um kirkjumál. Þetta er ekkert annað en slagorð. Þessi „skipulagsbundni háttur“, — ég veit ekki almennilega, hvað hæstv. dómsmrh. á við. Mér virðist prestar alltaf hafa tækifæri til þess að segja álit sitt um kirkjur og trúmál. Það er þeirra daglega starfsemi, ef svo mætti að orði kveða. Og svo er hin árlega prestastefna, sem verið hefir hinn bezti vettvangur fyrir presta að segja álit sitt um trúmál og kirkjumal. Ég get ekki séð, að þeir hafi nokkuð betri aðstöðu til þess yfirleitt, þó að sett verði upp þetta ráð, sem á að starfa hér í höfuðstaðnum við hlið biskups. Það kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að hann ætlast ekki til, að hér komi margvísleg reynsla í kirkjulegum efnum til sögunnar af hálfu fulltrúa þessa ráðs, því svo er á honum að heyra, að þeir verði ekki sóttir út í sveitir eða út á landshorn, heldur verði þeir valdir hér í höfuðstaðnum. Þegar þessa er gætt, verður ekki ástæða til að ætla, að neitt nýtt viðhorf sé um að ræða, þó að þessir höfuðstaðarbúar komi saman með biskupi til þess að ræða kirkjuleg malefni. Prestum utan af landi er ekki frekar með þessu en nú er gefinn kostur á að koma fram með sínar skoðanir. Ég held varla, að skoðanir þessa ráðs, svo skipulagsbundnar sem ráðh. ætlast til, yrðu skoðaðar svo merkilegar, að prestar utan af landi græddu neitt á þeim. Hinsvegar nytu þeir sín engan veginn gagnvart „ráðinu“, sem mundi bera þá skipulagsbundnu ofurliði. Þeir geta nú komið fram með sínar skoðanir á prestastefnunni. Þar er þeirra réttur og þar njóta þeir sin bezt. Ég er ekki kirkjumaður í þeim skilningi, að ég sé guðfræðingur eða á nokkurn hátt riðinn við5 safnaðarstarfsemi, en ég er principielt á móti þessari stefnu, að stuðla að ýmislegum aukalegum kostnaði með þessum nefndum og hinu nýja heiti — „ráði“ —, sem verið er að tildra upp í þetta skipti undir yfirskini kirkjulegs áhuga, en ég er í efa um, að hafi nokkra þýðingu. En þessar nefndir og ráð eiga það sameiginlegt, að þau leiða af sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð. Því mun ég greiða atkv. móti þessu frv.