18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

65. mál, kirkjuráð

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og kunnugt er, hefir menntmn. Nd. flutt frv. fyrir dómsmrh. og kirkjumálanefnd. –Okkur er ekki sama, hvernig verður farið með þetta mál. Þess vegna er mér skylt að segja nokkur orð, þar sem tveir hv. þm. hafa ráðizt á frv. og mælzt til, að það verði fellt. Að vísu er það rétt hjá hv. þm. Vestm., að biskup landsins hefir verið daufur í fylgi sínu við þetta frv. og jafnvel talið það óþarft. Hann segir í álitsskjali sínu, að verkefni kirkjuráðsins séu ekki önnur en verkefni synodusar hafi verið. Um þetta eru prestar landsins ekki sammála biskupi, því skipun synodusar er mjög óákveðin. Er ástæða til, að þingið setji lög um skipun synodusar og það vald, sem sú samkoma hefir í kirkjumálum. Prestar landsins telja yfirleitt þörf á, að þeir fái íhlutun um, hvernig synodus er undirbúin og hvernig ályktunum hennar er komið í framkvæmd. Samkv. þessu frv. á kirkjuráðið að vera nokkurskonar stj6rn, á líkan hátt og þjóðfélagið hefir sína stjórn. Það er þetta demokratiska fyrirkomulag, sem prestastéttin fer fram á, að upp verði tekið. Prestastefnan er ekki eini sjálfsagði vettvangur kirkjumalanna. Ég hygg einmitt, að það sé ekki sízt í sambandi við synodus, sem prestastéttin leggur áherzlu á að fá það ráðgjafarvald, sem í þessu frv. er áskilið. Hv. þm. Vestm. sagði, að þetta ráð mundi sennilega ekki undirbúa lög um kirkjumál betur en verið hefði. En það er þó svo um kirkjuna, að það er engin löggjöf eins úrelt og kirkjurétturinn. Hver, sem nokkurntíma hefir litið í kirkjurétt, veit, að þar er fullt af gömlum og úreltum ákvæðum frá fyrri öldum. Það er mikil þörf á að koma kirkjuréttinum í nútímahorf og fella niður ýms vafaákvæði. Ég hygg, að engin stofnun í landinu hafi eins mikla þörf á endurskoðun löggjafar og þjóðkirkjan. Auðvitað yrðu kirkjuráðsmenn valdir meðal þeirra, sem prestar hefðu bezta trú á. Náttúrlega myndi það ekki ráða úrslitum, hvort menn byggju í Reykjavík eða nálægt borginni. Prestar munu velja beztu menn og þá, sem þeir treysta bezt, til að fylgja málum kirkjunnar. Ég tel, að biskup megi vera þakklátur fyrir að fá kirkjuráðið við sína hlið. Kostnaður af kirkjuráði er lítill. Tekur varla að telja það atriði til mótbáru, eins og kom þó fram í ræðu hv. þm. Vestm. Hann er andstæður frv. vegna þess, að hér um að ræða nefnd eða „ráð“, og á slíku hefir hann megnustu ótrú. mér skildist hann vera á móti frv. einungis vegna þess, að hann hefði ótrú á öllum „ráðum“. En að aðalkrafa prestanna í þessu efni er, að fyrirkomulag kirkjunnar verði „demokratiskt“, eins og allra stofnana ríkisins.

Ég sagði áðan um kirkjuréttinn, að hann mundi vera einna úreltastur allrar íslenzkrar löggjafar. Kemur það fram í ýmsu, t. d. hefir vantað fulltrúa fyrir prestastéttina, annan en biskup, sem er embættismaður um allt, sem yfirstjórn kirkjunnar varðar. Það hefir oft verið óánægja meðal presta yfir því að hafa engan íhlutunarrétt um ýmislegt, sem kirkjunni við kemur. (SE: En þeir fá engu ráðið eftir frv.). Já, þeir fá mörgu ráðið eftir frv. Þessu frv. fylgir sem sé tvennt, að koma kirkjunni í demókratískara horf en verið hefir og um leið að koma kirkjunni í meira samræmi við það, sem áður var, og það, sem upphaflega var í kristninni, áður en hún komst í járnfjötra embættismennskunnar. Ég veit ekki, hvaða stofnun það er, sem á að vera demokratisk, ef það er ekki kristin kirkja. Þetta er aðalatriði frv. og aðalkrafa prestanna, sem þeir standa svo að segja einhuga um. Ég sé ekki, hvaða ástæðu þingið hefir til að neita prestunum um þessa ósk sína, ósk, sem er eindregin, þar sem kostnaður mundi verða alveg hverfandi.