18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (282)

65. mál, kirkjuráð

Jóhann Jósefsson:

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ef vel hæfur og duglegur biskup sæti við völd, gæti honum orðið stuðningur í kirkjuráðinu til að hrinda endurbótum í framkvæmd. Þetta er nú alveg undir því komið, hvernig kirkjuráðið er skipað í það og það skiptið. Biskupi gæti eins orðið trafali eins og stoð í slíku ráði. Slíkt fer eftir því, hvort skoðanir biskups og kirkjuráðs falla saman eða ekki.

Hv. frsm. talaði um, að hér þyrfti að koma á „demokratisku“ fyrirkomulagi sem annarsstaðar, þetta væri í samræmi við tíðarandann o. s. frv. Því er ekki að neita, að töluvert ber á þessari stefnu í orði kveðnu hér á landi. En ýmsir, sem líta hlutlaust á gang opinberra mála hér á landi nú á tímum, munu þó álita, að freklegar sé brotið í bág við „demokratiskt“ fyrirkomulag en áður hefir tíðkazt, sérstaklega af núverandi stjórn. Ég verð því ekki mjög uppnæmur, þótt talað sé um demokratiskan tíðaranda í sambandi við þetta mál, meðan ég sé sívaxandi einræði í öllum stjórnarathöfnum, sem ekki þekktist einu sinni áður en hinn demokratiski hugsunarháttur greip þjóðina.

Hæstv. dómsmrh. telur frv. vera til stórkostlegra bóta, en kveðst þó ekki vilja leggja nema örlítið í kostnað vegna þess, og í sparnaðarskyni vill hann helzt ekki sækja kirkjuráðsmenn út fyrir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur. (Dómsmrh.: Ég ræð engu um val mannanna í ráðið.). Mér finnst undarlegt, ef hæstv. ráðh. hefir í raun og veru trú á því, að hér sé um réttarbót að ræða fyrir presta og uppbyggingaratriði fyrir trúarlífið, að hann skuli vera að horfa í, hvort ferðakostnaður verður nokkrum hundruðum kr. meiri eða minni. Ef ég teldi, að hér væri um gagnlegt og þarflegt mál að ræða, myndi ég ekki vilja skera fjárframlög til þess við neglur mér.

Það er líka dálítið kynlegt, að hæstv. dómsmrh., sem hefir sýnt kirkjumálunum þá sérstöku alúð(!!) að láta laus prestaköll vera óveitt lengur en nokkur annar ráðherra hefir gert, meðan hann var af tómum kirkjulegum áhuga að velta því fyrir sér, hvernig hag prestakallanna væri bezt borgið(!!), skuli nú telja eftir ferðakostnað eins eða tveggja manna frá Norðurlandi eða Austurlandi til Reykjavíkur í kirkjunnar þarfir. Þetta er allt of mikil sparsemi. Afstaða okkar, sem erum á móti frv., byggist á því, að við viljum ekki stofna til kostnaðar við það, sem við teljum hreinan og beinan óþarfa.

Ég vil taka undir það, sem kemur fram í bréfi biskups, að það er ekki löggjöfin eða löggjafarnir, sem hafa úrslitaáhrifin á það, hvernig kristnihaldi landsins vegnar. Það stríð er að mestu það á öðrum vettvangi.

Það dylst engum, sem kynnir sér skjöl þau, er lögð voru fram með frv. á síðasta þingi, að biskup og kirkjumálanefnd eru ekki á eitt sátt um þetta mál, þótt öllu sé stillt í hóf. Það kemur fram, að nefndin álitur, að biskup sé á þeirri skoðun, að ráðið sé óþarft, enda dregur hann gagn af því í vafa. mér virðist því afstaða okkar hv. þm. Barð. ekki aðeins leyfileg, heldur fyllilega réttmæt.