18.03.1931
Neðri deild: 27. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

65. mál, kirkjuráð

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þetta mál kemur launahækkun presta ekki hið minnsta við, og því ætti skoðun hv. þm. Barð. á launamálum ekki að vera því til fyrirstöðu, að hann gæti fylgt þessu frv., nema hann hafi tekið þá afstöðu að greiða ekki öðrum frv. atkvæði sitt á þingi en stórum lagabálkum. En fylgi hans við þetta frv. ætti ekki að þurfa að draga úr fylgi hans eða annara við bætt launakjör presta.

Að vísu er það rétt, sem hv. þm. Vestm. hafði eftir biskupi, að kristilegt líf í landinu sé ekki komið undir löggjafarvaldinu. Löggjafarvaldið getur sjaldnast breytt innræti manna. En meðan þjóðkirkja er, hlýtur löggjafar og framkvæmdarvaldið að hlutast til um öll ytri málefni kirkjunnar, guðsþjónustur, kirkjulegar athafnir, helgisiði o. s. frv. Kirkjuráðinu er m. a. ætlað að hafa slík mál með höndum.

Það er satt, að í frv. eru ákvæði, sem ekki hafa annað gildi en það, sem þeir, er sitja í kirkjuráði, gefa þeim. En ég býst við, að hv. 1. þm. Reykv. sé mér sammála um, að valið í ráðið muni vel takast. Flest löggjöf er sett með það fyrir augum, að framkvæmd hennar verði góð og heppileg.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að góður biskup gæti haft mikinn stuðning af kirkjuráðinu. En hv. þm. Vestm. taldi hinsvegar, að það gæti orðið biskupi til trafala. Það, sem hér ber á milli, er hvorki meira né minna en það, hvort einn maður á öllu að ráða eða prestastéttin eigi að fá íhlutunarrétt. Á flestum öðrum sviðum hefir almenningur fengið íhlutunar- og atkvæðisrétt. Ég skal ekki neita því, sem hv. þm. Vestm. sagði, að ágætum og áhugasömum biskupi gæti orðið trafali að kirkjuráðinu, en honum gæti líka orðið trafali að Alþingi og kirkjumálaráðherra. Fyrir þau sker verður ekki synt, en það sannar ekki, að einn útvalinn eigi öllu að ráða.

Hver sá, sem vill, að hinar sömu „demokratisku“ reglur gildi á þessu sviði sem annarsstaðar, greiðir frv. atkv. sitt. Einveldismenn verða því auðvitað andvígir.

Ég vil geta þess, að mér fell ekki að heyra hv. 1. þm. Reykv. kalla frv. þetta ömmufrv., því að kirkjan hefir til þessa verið kölluð móðir okkar, en ekki amma.