07.03.1931
Efri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (30)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Þorláksson:

Samþm. minn, hv. 2. landsk., var að gefa hv. d. upplýsingar um það, hvaða afstöðu flokksmenn hv. 6. landsk. mundu taka til launamála presta og kirkjumála. Það var ekki um að villast, við hverja hann átti; hann átti vitanlega við Sjálfstæðisflokkinn, þótt ekki nefndi hann það nafn, sem verkar alltaf á hann og samherja hans eins og kirkjuklukknahljómur á púkana, svo að það er eðlilegt, að hann geri lotið að því að taka sér það í munn.

Ég vil taka það fram, þó að ég viti, að enginn, sem hlustaði á hv. þm., taki neitt mark á þessum orðum, að hann veit ekkert, hvaða afstöðu Sjálfstæðismenn muni taka til þessa máls.

Ég get ekki stillt mig um, þó að það hafi verið gert áður, að benda hv. 2. landsk. á það ósamræmi, sem er í orðum hans. Hann segir, að við Sjálfstæðismenn höfum tekið einhverja eina trúarskoðun og gert hana að flokksmáli, og í hinu orðinu segir hann, að flokkurinn sé andvígur öllum trú- og kirkjumálum. Það er leiðinlegt, ef hv. þm. vill vera að eyða tíma fyrir okkur í þessari deild, að hann skuli ekkert geta sagt, sem er honum meinlausara en andmæli gegn því, sem hann hefir sjálfur sagt.