07.03.1931
Efri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 42 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Jón Baldvinsson:

Það eru engar mótsagnir í því, þó að ég segi það um íhaldið, að foringjar þess noti vissar trúmálastefnur um kosningar, og þó að ég segi í öðru lagi, að sá flokkur sé erfiður viðureignar, þegar um launahækkun presta er að ræða. Flokkurinn er erfiður viðvíkjandi launakjörum allra, nema tiltölulega fárra launahæstu mannanna. Og þessi trúmalastefna þeirra er ekkert eftir þeirra sannfæringu. Það sest á því, að aldrei bólar á þessu nema um kosningar. Þeir álíta þetta bara heppilegt vopn. Þeir fylgja ekki innri missióninni eða bókstafskenningunni, en láta svo á vissum tímum, af því að þeir halda, að það verki þá í svipinn vel þeim til handa.

Í afstöðu flokksins til launamálanna er sú sorglega reynsla, að frá því að flokkurinn fyrst varð til, hefir hann alltaf verið í andstöðu við lægst launuðu verkamennina. Hv. 6. landsk. sagði, að prestarnir væru þeir lægst launuðu. Við þá menn hefir Íhaldið aldrei viljað hækka launin. „Þeir eru hundrað að tölu“, segja þeir, „og því hefir það svo mikil útgjöld í fór með sér“. Það er ekkert ósamræmi eða andstæður í orðum mínum, þó að ég segi þetta um flokkinn. Alveg það sama kemur fram hjá flokknum viðvíkjandi síma- og póstmönnum. Þar er sama viðkvæðið, að þeir séu svo margir og þess vegna hafi launahækkun þeirra svo mikil útgjöld í fór með sér. En þeir vilja hækka laun hæstaréttardómaranna, af því þeir eru ekki nema þrír.

Þetta er rétt lýsing á afstöðu Íhaldsins til launamálanna.