07.04.1931
Neðri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (318)

123. mál, dragnótaveiðar

Benedikt Sveinsson:

Hv. flm. hefir gert góða grein fyrir sínum málstað og notað skýrslu fiskifræðings Íslands sér til stuðnings. En þó held ég, að ekki sé nema hálfsögð sagan, þegar einn segir frá, þar sem ræða hans er. Hann segir, að fiskimenn líti svo á, að engin ástæða sé að banna dragnótaveiðar í landhelgi, og gefur hann í skyn, að fyrir almennar raddir frá þeim flytji hann frv. En hann hendir ekki á óskir nokkursstaðar af landinu, nema frá fundi, sem haldinn var í Fiskifélagi Íslands. En á þeim fundi var ekki farið fram á annað en að 8. gr. l. yrði breytt á þann veg að afnema heimild þá, er veitt er til frekari friðunar, samkv. kröfu og ósk þeirra, er mest eiga hlut að máli.

Ýms byggðarlög hafa óskað eftir að fá friðuð viss svæði, t. d. Hafnahreppur, Gerðahreppur, Keflavíkurhreppur og Vatnsleysuströnd. Kröfur þessara fjögurra hreppa hafa verið teknar til greina, því að svo er til skilið í lögum, að krefjast megi þess, að landhelgi á tilteknu svæði sé að fullu friðuð gegn dragnótaveiði með auglýsing stjórnarráðs, en áður því verði framgengt skuli þó leitað umsagnar hreppsnefnda þeirra, er þar eiga fyrir að ræða, og svo umsagnar stjórnar Fiskifélags Íslands. Það hefir ekki staðið á hreppunum að láta óskir sínar í ljós, og hafa þær ávallt verið eindregnar með friðun, en svokölluð stjórn Fiskifélagsins hefir staðið fyrir því, að nokkurt svæði fengist friðað norðanlands, síðan lögin frá 1928 voru sett. Skortir þó eigi á fullkomlega eindregnar kröfur um þetta efni frá þeim héruðum, er harðast hafa orðið úti fyrir freklegan ágang útlendinga árum saman, t. d. í Þistilfirði, Axarfirði, Skjálfandaflóa og ennfremur í Skagafirði. Frá þessum héruðum, flestum eða öllum, komu árið 192fi sterkar kröfur um algerða friðun fyrir dragnótaveiði, en þótt allar hreppsnefndir styddu þær kröfur einróma, þá hefir landsstj. ekki séð annað fært en að láta Fiskifélagið hafa fullnaðar-„veto“ gegn löglegum kröfum, sem komið hafa fram í þessu máli. Er hér tekið fram fyrir hendur löggjafarvaldsins, héraðanna og stjórnarráðsins. — Merkilegt í þessu máli er það, að Fiskifélagið hefir friðað tvo svæði hér við Faxaflóa, Hafnaleir og svæði frá Garðskaga til Keilisness, að því er ég veit bezt. Er það undarlegt — eftir aðstöðu Fiskifélagsstjórnarinnar — að hefjast handa til þess að friða þá staði, sem Íslendingar sjálfir hafa helzt tækifæri til að stunda þessar veiðar, en standa á móti því að friða þau svæði, sem einungis útlendingar veiða á og hafa spillt veiði fyrir landsmönnum, eins og átt hefir sér stað stórkostlega, svo sem í Lónafirði. Að vísu hefir komið dálítill afturkippur í þetta friðunarmal hér við Faxaflóa. frá einum hreppi, Keflavíkurhreppi, var skrifað bréf nú í vetur á fundi í Keflavík, þar sem 17 — sautján — menn samþykkja að skora á Alþingi að afnema þessa þriggja mánaða friðun, sem heimild hafði verið veitt til að nota.

Á hinn bóginn hafa ekki komið neinar óskir frá nokkrum hrepp eða sýslufélagi neinsstaðar af Íslandi um að fara fram á slíkt, nema á fundi í Fiskifélagi Íslands í vetur um að afnema 8. gr. l. Þar hafðist það fram, eftir langa mæðu og mjög mikla smölun af hendi forseta — aldrei þessu vant — að 10 menn af 14, og með því að fengnir voru nokkrir nýir menn í félagið, greiddu atkvæði með því, gegn fjórum, að skora á Alþingi að afnema heimild héraðanna, sem um getur í 8. gr. laganna. Aðrar „óskir“ en þessar hefi ég ekki heyrt á nafn nefndar um rýmkun laga um dragnótaveiði, en margar og veigamiklar í þveröfuga átt. Þessi óskmál, sem hv. flm. kemur fram með, eru því eigi nýmæli, er styðjist við ósk nokkurra fiskimanna hér á landi.

Blöðin í Reykjavík minnast ekki á þessa fundi í Fiskifélaginu. Það kemst upp seinna, þegar menn hafa lesið fiskitímaritið Ægi, að þessir fundir hafa verið haldnir. Og þegar það fer að kvísast, risa menn upp og halda mótmælafundi gegn þessum tillögum, sem forsetinn knýr fram eftir tveggja daga rimmu með tíu gegn fjórum!

Ég hafði símað Húsvíkingum þessa ályktun Fiskifélagsins vegna þess, að sagt var á fundinum, að þeir væru nú alveg horfnir frá kröfum sínum um friðun gegn dragnótaveiði, heldur væru þeir henni nú orðnir mjög fylgjandi. Var síðan haldinn fundur um málið þar í kauptúninu. Til hans var boðað af fiskifélagsdeildinni „Garðar“ og til kvaddir allir útgerðarmenn og sjómenn. Á fundinum voru alls 64 menn. Þar var svofelld samþykkt gerð:

1) Fundurinn skorar á ríkisstjórnina að friða Skjálfandaflóa fyrir dragnótaveiðum í landhelgi, eins og hlutaðeigandi hreppar hafa farið fram á.

2) Fundurinn er eindregið mótfallinn því, að 8. gr. gildandi laga um bann gegn dragnótaveiði í landhelgi sé burtu numin úr lögum og lýsir óánægju sinni yfir því, að slík málaleitun skuli hafa komið frá formanni Fiskifélags Íslands.

3) Fundurinn lýsir yfir því, að gefnu tilefni, að honum er gersamlega ókunnugt um, að Húsvíkingar séu orðnir andvígir friðlýsing fyrir dragnótaveiði, og telur öll ummæli í þá átt uppspuna einn.

Maður einn af Akureyri hafði gefið þær upplýsingar á Fiskifélagsfundinum hér í Rvík, að Húsvíkingar vildu láta opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum. Þetta mun hafa haft sín áhrif, þótt það væri uppspuni einn, enda hafði þessi fulltrúi hælzt um það á eftir, hve slunginn hann hefði verið að blekkja fundarmenn.

Þá tók ekki betra við, er Skagfirðingar fengu að heyra þennan fagnaðarboðskap hv. þm. Ísaf. í útvarpinu. (HG: Ætli þeir hafi ekki fengið hann annarsstaðar frá?) Ég skammast mín ekkert fyrir að játa, að ég hafi einnig gert nokkrum mönnum aðvart um þetta. Haldnir voru þegar fjórir fundir um málið, á Sauðárkróki, í Hofsósi og í Skarðshreppi, og loks var málið tekið fyrir á sýslufundi þar í Skagafirði. Mun enginn gerast svo djarfur að segja, að slíkur fundur sé skipaður fíflum einum og fáráðlingum. Menn kröfðust þess einróma á öllum þessum fundum að fá flóann friðaðan. Ef ekki á að taka þessar undirtektir til greina, þá veit ég ekki, hvað á að hafa áhrif í þessu máli. Ég held því, að það sé prentvilla í frv., að menn óski eftir að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum „víða um land“. mér finnst sennilegra, að þetta hafi átt að vera „víða í öðrum löndum“.

Þingeyingar hafa ekki talið sig þurfa að samþykkja enn á ný mótmæli gegn rýmkun dragnótaveiðinnar. Henni hafði áður verið mótmælt á þrem fundum á Langanesi og einum fundi á Húsavík.

Ég hefi því sýnt fram á, að því fer svo fjarri, að almennar óskir hafi komið fram um þetta efni, að heil héruð, hvert af öðru, hafa risið upp til mótmæla. óskir í þessa átt hafa hvergi komið fram, nema úr Keflavíkurhreppi. Þar var farið fram á, að veiða mætti þrjá mánuði á ári, eins og nú er leyfilegt, ef héraðssamþykkt er ekki á móti.

Hv. flm. tók ýmislegt upp úr fróðlegri skýrslu eftir Árna Friðriksson fiskifræðing um eðlisháttu skarkola og dragnotaveiðar. — Þrátt fyrir niðurstöður hofundar er þó ýmislegt í skýrslu þessari, er styður mál þeirra, er ekki vilja láta opna landhelgina til þessara veiða. Fiskifræðingurinn segir, að kolinn sé að ganga til þurrðar við Ísland, jafnvel þótt bannað sé að veiða hann í landhelgi, — vegna veiða útlendinga utan landhelgi. Hann segir ennfremur, að kolinn fari ávallt smækkandi. Áður hafi langmest af þeim kola, er veiddist, verið í 1. flokki (stórkoli). Nú nemi smákalinn 22% af aflanum í stað 1% fyrir rúmum tuttugu árum.

Af þessu sest, að verið er á góðri leið með að eyða þessum fiski, þótt ekki sé farið inn fyrir landhelgina. Mun honum því sízt veita af þeirri vernd, sem hún veitir honum.

Hv. flm. sagði, að veiðarfæri þetta væri gott, létt og ódýrt, en því aðeins getur það talizt gott, að hægt sé að veiða í það. Reynslan hefir líka sýnt það í öðrum löndum, að veiðitæki þetta hefir verið ærið mikilvirkt um koladrápin, þar sem leirbotn er undir eða sandur. Má svo heita, að það taki hvern kola, sem fyrir verður. Hér heldur kolinn sig á tiltölulega litlu svæði, einkum í fjörðum, sem ár falla í, svo sem Skagafirði, Skjálfanda, Axarfirði og Þistilfirði, og myndu þau mið fljótlega hroðin með nót þessari, ef leyft væri að beita henni hindrunarlaust. Reynslan hefir sýnt það hér við land. Hv. þm. N.-Ísf. hefir sagt mér, að tvo skip hafi upprætt allan kola á Aðalvík á skömmum tíma fyrir nokkrum árum. Þannig er þessu alstaðar farið, enda segir einn mjög kunnugur maður, að hægt sé að veiða kolann í tvo ár með þessum hætti hér, en svo ekki meira að sinni.

Látið er í veðri vaka, að það sé koli einn, sem veiðist í dragnætur, en það er ekki rétt. Í dragnætur veiðist einnig lúða, allt að 60 pundum. Hefir það komið berlega fram við Langanes, að lúðuveiðar hafa að mestu gereyðilagzt síðan farið var að stunda dragnótaveiðar. Ennfremur veiðist ýsa í nætur þessar, enda er hún á sömu slóðum sem kolinn. Hefi ég og séð í erlendum fræðibókum, að þorskur sé veiddur á þennan hátt, þótt eigi sé það svo mjög sem flatfiskur og ýsa.

Þessi nót eyðileggur ekki botninn, en hún er drápsvél engu að síður. Sá fiskur, sem drepinn hefir verið, gengur ekki aftur. Árni Friðriksson segir, að vér Íslendingar ölum kolann upp fyrir Englendinga. Ég skal ekki segja um það, hvort sá koli, sem þeir veiða, sé alinn upp utan eða innan landhelgi. En ef vér öfundumst yfir því, að einhver fiskur fer út úr landhelginni, ætti að vera ástæða fyrir oss að gæta þess að hleypa ekki öðrum þjóðum í landhelgina sjálfa til þessara veiða. Skýrsla Árna Friðrikssonar ber það með sér, að íslendingar veiða meira en aðrar þjóðir af öðrum fiski en kola hlutfallslega. Kolaveiðarnar einar virðast hafa mætt afgangi í samkeppni Íslendinga og annara þjóða hér við land. Ástæðan til þess getur ekki verið sú, að Íslendingum láti verr að veiða kola en annan fisk, heldur hitt, að þeim þykir borga sig betur að sækja þorsk á djúpmið í stormum og stórsjó en fást við kolann, þótt skemmra sé hans að leita.

Hvernig hefir nú reynsla Íslendinga sjálfra verið um þessar veiðar? Byrjað var á veiðum þessum vestur á fjörðum fyrir 30 árum, og viðar hafa þær verið reyndar, en hvergi þótt borga sig. Kolinn eyðist fljótt hér við land, og auk þess kunna íslendingar ekki eins vel til þessara veiða sem aðrar þjóðir, t. d. Danir, enda er veiði þessi einhver hin vandasamasta í alla staði, og að því hefir Íslendingum orðið hingað til. Hafa gagnkunnugir menn sagt mér þetta með rökstuðningi margra dæma. — Tveir bátar í Vestmannaeyjum hafa stundað þessar veiðar, og hefi ég átt tal við formann annars bátsins, Þorvald Guðjónsson Grænlandsfara, sem er fiskimaður mikill og dugandlegur maður í hvívetna. Hann kvaðst mundu græða á því í sumar, ef landhelgin yrði opnuð, en taldi þó hið mesta glapræði að gera slíkt, því að það myndi hefna sín síðar. Þessari skoðun hafa líka menn vestan af fjörðum haldið fram við mig, og ýmsir fleiri. Vil ég þar til nefna tvo nafnkunna skipstjóra, Jón Sigurðsson á Blómsturvöllum og Jón Árnason frá Heimaskaga, sem báðir eru manna kunnugastir hér í flóanum.

Íslendingar hafa harðar landhelgisvarnir og láta sökudólga gjalda afbrota sinna eftir því sem föng eru á. Sökudólgarnir kvarta oft undan meðferðinni, er þeir koma heim til sín, en stjórnir þeirra hafa ekki sinnt þeim kvörtunum, því að þær vilja halda lög og siðgæðireglur þær, sem gilda milli þjóða, og þar við bætist að allar menningaþjóðir vita, að landhelgin er mikilsverð til að ala upp fiskstofninn og halda honum við. Rætt hefir verið um að reyna að fá landhelgina færða út þar á meðal þannig, að hún næði út yfir Faxaflóa. Hefir jafnvel komið fram í enskum blöðum nú fyrir skemmstu, að nauðsyn bæri til að friða Breiðafjörð, vegna smálúðunnar, þar sem öll lúða þykir nú stórum vera að ganga til þurrðar. Þetta virðist benda til þess, að hægt yrði að fá samþykki erlendra þjóða til að færa landhelgina eitthvað út, eða friða ákveðin svæði hér við land, utan landhelgi, fyrir jafnhremmilegum veiðarfærum sem botnvörpu og öðrum dragnótum. Það væri því að stefna í öfuga átt, að fara að brjóta þessar vonir á bak aftur með því að fara að leyfa dragnótaveiði í þeirri landhelgi, sem nú er. Ef slíkt verður gert, eru þessar vonir að engu orðnar.

Ritari Fiskifélagsins, Sveinbjörn Egilsson, telur alls ekki örvænt um, að Faxaflói fengist friðaður með það fyrir augum, að fiskistofninn varðveittist bezt á hann hátt.

Því hefir oft verið haldið fram, að ekki sé hætta á því, að kolinn gangi til þurrðar, þótt dragnotaveiðar séu leyfðar í landhelgi. Hann hafi verið veiddur í Eystrasalti og dönsku sundunum árum saman og ekki þorrið. Hvað sem þessu liður, á þetta ekki við her. Eftir skýrslu fiskifræðingsins að dæma, er kolinn einmitt að þverra hér við land utan landhelginnar. Kolinn er hér á tiltölulega litlu svæði, svo að samanburður við veiðarnar í Eystrasalti og sundunum er ekki réttmætur. Kolinn hér við land þroskast seinna en þar og viðkoman er minni, vegna þess að sjávarhitinn er lægri og lífsskilyrðin því mun lakari. Að vísu er það ekki sönnun þess, að kolinn sé ekki að minnka þar syðra, þó að mikið veiðist af honum enn. T. d. fara hvalveiðar Norðmanna vaxandi, vegna þess að útgerðin eykst stöðugt, en allir vita þó, að hvölum fækkar sífellt, svo að gerauðn nemur bráðlega, nema friðunarreglur verði settar.

Ég sá frásögn um það í „Extrabladet“ frá því í marzmánuði þ. á., að drepizt hefði koli, sem fluttur var lifandi í kossum til Esbjerg, og því var bætt við, að því hefði ekki fengizt þar koli í hálft ár! Bendir það ekki á miklar veiðar.

En nú mæna Danir vonaraugum á landhelgi vora vegna þessa frv. hv. þm. Ísaf. Tugir skipa í Danmörku og Færeyjum bíða eftir því að hagnýta sér þessa veiði, sem Íslendingar ætli nú að gefa þeim. Hér eru svo sem 5–6 smáskip innlend, sem mega sín lítils og ætla sér ekki þá dul að keppa við flota tveggja þjóða um dragnótaveiðina í landhelgi. Enda væri það hinn mesti barnaskapur.

Ákvæðið í 6. gr. sambandslaganna um gagnkvæman ríkisborgararétt Dana og Íslendinga er þannig, að óskiljanlegt er, að nokkur siðuð þjóð skuli hafa látið bjóða sér slíkt, sem landar vorir létu flekast til 1918. Slíkt ákvæði gildir jafnvel ekki meðal nýlendna Englendinga. — Þetta dragnótamál myndi horfa allmjög annan veg við, ef íslendingar væru einir um hituna í sínu landi. En úr því er að ráða, sem komið er, og þar sem þeir eru svo hörmulega settir, þá verður að gæta nauðsynlegrar varúðar.

Því var haldið fram á Fiskifélagsfundi í vetur, sem háður var af 14 mönnum, að gott væri að opna landhelgina fyrir Dönum, því að af því myndi leiða fjandskap milli Dana og Íslendinga, sem flýta myndi fyrir uppsögn sambandslaganna og leiða til skilnaðar. — Þótt ég ætli, að ég sé ekki ófúsari á skilnað við Dani en aðrir menn, þá er ég ekki svo fíkinn í að fjandskapast við þá, að ég vilji fórna öllum skarkolanum í landhelgi Íslands til slíks, enda mun mega útkljá sambandsslit og skilnað á friðsamlegan hátt, er til þess kemur.

Ég skal ekki neita því, að stundarhag gæti leitt af samþykkt þessa frv. fyrir Íslendinga, í sumar og e. t. v. næsta sumar, en lengur stendur sá hagnaður ekki í bili, jafnvel að dómi þeirra, sem þessu máli eru fylgjandi.

Ég hefi ekki trú á því, að Íslendingar færu að stunda kolaveiðar meira en áður fyrir það, þó veiðitíminn yrði lengdur. Þeir sækja einmitt veiðina á djúpmiðin, eins og skýrslur Fiskifélagsins vitna bezt um.

Árangur þess, að veiðiheimildin væri rýmkuð, mundi verða ærið ankannaleg, — sú, að útlendingar veiða næst landi í logni og skjóli meðan Íslendingar stunda sína veiði á djúpmiðum innan um hafís og þoku úthafsins.

Ég hefi mörg gögn fram að færa, önnur en þau, er ég hefi þegar tilfært, til stuðnings mínu máli, en mun þó nema staðar að sinni, því að liðið er á fundartíma, en mörg mál á dagskrá, og því rétt, að eigi séu lengdar umr. að mun á þessu stigi málsins. ég ætlast aðeins til þess af hv. þd., að hún hafi fyrir augum hag landsfólksins í þessu máli og taki til greina kröfur þjóðarinnar og álitsgerðir, er hingað hafa borizt hvaðanæva, sem byggðar eru á þeirri reynslu, sem öllum ætti kunn að vera í þessu efni.

Í sambandi við það, sem hv. flm. sagði um það, að útlit væri fyrir, að kolaveiðin yrði Íslendingum arðsöm atvinnugrein, þar sem útlendingar sæju sér hag í því að stunda hér þá arðsömu veiði, þá má segja, að þetta horfir í fljótu bragði nógu vel við. En það, að útlendingar leggja nú svo mikið kapp á þessa veiði hér, bendir einmitt á það, að allalvarleg þurrð sé komin í þessa veiði á þeirra heimamiðum, og einnig hitt, að þessi veiðarfæri, dragnæturnar, muni eigi vera svo meinlaus og hv. flm. telur. Auk þess verður á það að líta, að þjóðir þessar, Danir og Færeyingar, hafa þegar til að bera fullkomna kunnáttu á þessu sviði og sömuleiðis reynslu fram yfir Íslendinga. Þeir þekkja veiðiaðferðir, markaði og meðferð vörunnar. Þeir standa einnig betur að vígi en Íslendingar fyrir það, að þeir þurfa eigi að greiða útflutningsgjald af veiðinni, eins og Íslendingar, ennfremur ekki innflutningsgjöld af vörum og veiðarfærum til kolaveiðinnar, sem Íslendingar mega sætta sig við að greiða. Allt þetta gerir mikinn aðstöðumun milli Íslendinga annarsvegar og Færeyinga og Dana hinsvegar.

Skal ég þá eigi að sinni fjölyrða meira um þetta mál, en vænti þess, að hv. þd. taki það þeim tökum, sem heillavænleg eru landi og þjóð.