07.03.1931
Efri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

29. mál, utanfararstyrkur presta

Halldór Steinsson:

Eins og ég tók fram við síðustu umr., þá finnst mér það aðallega athugavert við frv., að þar er tekin ein stétt manna og henni lögákveðinn styrkur til utanferða. Hér er í raun og veru um nýmæli að ræða, því að áður hefir læknum verið veittur styrkur í fjárlögunum aðeins fyrir hvert einstakt ár. Eins og ég tók fram við síðustu umr., er ég ekkert á móti því, að prestum sé veittur slíkur styrkur, en hinsvegar finnst mér eiga að vera jöfnuður á þeim styrkveitingum. Nú hafa komið fram brtt. frá hv. 2. landsk., sem ganga að nokkru leyti í rétta átt. Fyrsta till. fer fram á það, að styrkurinn skuli bundinn við það, að hann sé veittur í fjárl. í hvert skipti. Um þessa brtt. vil ég segja það, að mér finnst hún skynsamleg, því að hún gerir öllum embættismönnum landsins jafnhátt undir höfði.

Eins og nú er, þá er læknum veittur viss utanfararstyrkur í fjárl. Eins mætti hafa það með presta. Það getur ekki orðið, eins og hv. 6. landsk. sagði, til að girða fyrir það, að þeir fái styrkinn. Þegar það er ákveðið í fjárlögum, að tiltekinni tölu presta skuli veita utanfararstyrk, þá mundu þeir prestar, sem leikur hugur á að fara utan, gefa sig fram við biskup og ríkisstj., og gæti þá stj. samkv. lögunum valið úr þeim umsækjendum. Ég álít því, að þeir muni ekki fara á mis við þennan styrk, þó að hann sé bundinn við fjárlagaheimild.

Þetta er sú brtt., sem mér virðist mestu máli skipta. Aftur á móti get ég ekki verið samþykkur hinum brtt. Önnur brtt. fer fram á, að í staðinn fyrir 4 mán. komi 2 mán., og virðist mér hún aðeins til spillis, því að ef þetta er bundið við 2 mánuði, þá mundu notendur styrksins sama og engin not hafa af utanförinni og þá væri um hálfgert kák að ræða.

Þá er þriðja brtt., að upphæðin skuli vera 2 þús. kr. Ég er ekki heldur með henni, því að ef lögin ættu að orðast svo: „allt að 2 þú. kr.“, þá er alls ekki bundið við að veita hærri styrk en svo sem 1–2 hundr. kr., og það er ekkert gagn í að veita svo laga upphæð. (JBald: Ef prestunum væri það nógur styrkur). þeir þyrftu þá engan styrk, ef þeir gætu sætt sig við það. Ég vil, að þeir séu styrktir sæmilega, ef á annað borð er verið að því.

Þá er 4. brtt. Ég get ekki fallizt á hana og ekki á þá 5., því að þá væri misrétti í þessu á milli lækna og presta.

Hv. 6. landsk. minntist á það, að læknum landsins veitist ekki erfitt að fá réttarbætur, því að þeir séu óskabörn þjóðarinnar. Já, þeir eru svo lánsamir, að þjóðin kann að meta starf þeirra. Þó hafa engir embættismenn hér á landi átt eins erfitt á síðari um eins og læknar, og það er af því, að þeir eru olnbogabörn stjórnarinnar.

Hv. 2. landsk. virtist halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn væri yfirleitt andvígur launabótum klerka. En af hverju? ég veit ekki til, að neinn úr þeim flokki hér í þessari hv. d. hafi látið í ljós skoðun sína í því efni, nema ég. Það var, þegar verið var að ræða um dýrtíðaruppbót embættismanna. Þá sagði ég, að nauðsynlegt væri að vísa málinu til nefndar, til þess að fram gætu komið kröfur um að bæta laun presta, og sagðist telja þá verst setta af öllum embættismönnum. Og þar sem hv. þm. hefir ekkert fyrir sér í þessu efni nema þessi orð mín, þá eru þessar staðhæfingar hans á litlum rökum byggðar.