07.04.1931
Neðri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í C-deild Alþingistíðinda. (322)

123. mál, dragnótaveiðar

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Það lítur svo út, að það sé nú eins og fyrri daginn, að hvorki dugi rok né vísindi til að sannfæra hv. dm. um ágæti þessa frv. Af verjendum málsins er gengið framhjá öllu því, sem skiptir mali, sem sé því, að afkoma þjóðarinnar veltur á því, hvernig málið fer. Við höfum fengið vísindalegar sannanir fyrir því, að verið er að eyða dýrmætum auðæfum okkar kringum landið, og okkar þátttaka er aðeins 10% af öllu, sem aflast. Það sjá allir, að það getur ekki gengið, að við látum eyða þessu fyrir okkur, því þjóðin þarf á öllu sínu að halda. — að nota allar auðsuppspréttur, í stað þess að láta útlendinga tæma þær. Það er ekki verið að tala um það, að þó þátttaka okkar sé lítil, þá munum við samt fá okkar skerf á hverjum fiskidegi í ís. Það er annað, sem vantar; það er ekki lagni, sem landsmenn vantar, heldur skipafloti, sem getur tekið þennan fisk. þegar hentugast er.

Það er þess vegna kominn tími til að tala um þetta nú, þegar áhuginn er vaknaður, — til að finna leið til að taka meiri þátt í útflutningi á nýjum fiski en verið hefir, því ef ekki verður rýmkað til, er tilraunin dauðadæmd.

Það má segja, að það komi úr hörðustu átt, er ég mæli með þessu frv., af því ég er riðinn við stærri útgerð, því ef farið er að stunda þessa veiði innan landhelgi, verður auðvitað minna fyrir þá, sem fiska fyrir utan. Þá sest, að Englendingar, sem hafa stóran flota, hirða allt, þó við höfum fiskimergð, en þeir, sem þurfa þess með, smábátarnir, geta ekki farið út fyrir landhelgi, — fá ekki neitt, og er þannig bægt frá að stunda þessa veiði.

Það, sem þessu ræður, er það, að andstæðingar frv. eru hræddir við, að Danir taki þótt í þessu meira en verið hefir. En hér er aðeins um einn mánuð að ræða, því þeir hafa hingað til ekki þolað okkar loftslag að haustlagi eða vetrarlagi; þá er aðeins um ágúst að ræða, og lítið um þeirra þátttöku fyrst um sinn, þar eð ekki tekur að sækja svo langa leið fyrir svo stuttan tíma.

Svo er annað atriði, sem gerir, að andmælingar eru á móti þessu, en það eru samþykktir og raddir utan af landi. Það má minna á það, að ekki er rétt, og hefir orðið til stórtjóns, að hlýða á raddir, sem komið hafa úr sveitum. Þarf ekki annað en minnast á samþykktirnar við Faxaflóa; þær eru 30 að tölu og allar af meinsemi við náungann, svo enginn fær afla. Strandarmenn, Vogamenn og Njarðvíkingar gerðu þessar samþykktir, svo Garðmenn fengju ekki afla. Þeir máttu ekki leggja net, en það brá svo við, að fiskurinn var horfinn, þegar þeir máttu leggja. Þá var ekki annað að gera en bíða til næsta árs, ef fiskinum þá þóknaðist að sveima um þær slóðir. Enn er þetta uppi að vilja friða sitt land fyrir ágangi annara; en það er fróðlegt að athuga, að fiskurinn flytur einmitt kringum þau héruð, sem sjálf hafa ekki hafizt handa. Það kemur strax fram, að þegar menn ætla að hefjast handa til veiða, þá upphefja þeir slíkar samþykktir; t. d. í Keflavík urðu 2–3 menn brotlegir við landhelgi og fengu afla. Þarna kemur það, sem menn mega vera vissir um, að hversu blindir sem menn eru nú, þá munu þeir hefjast handa síðar til að fá þetta afnumið. En hver veit nema það verði þá allt of seint; hver veit nema Englendingar hafi þá fengið 30% og haldið áfram að uppræta kolann, og engar tekjur sé af honum að hafa. Hv. þm. vitnaði í Norðmenn og hvalinn. Þeir hafa ofsótt hvalinn og upprætt hann á sumum stöðum. Þar hafa þeir tekið mikil auðæfi, svo hann var einhver stærsta gróðalind Norðmanna um langt skeið. Þeir hafa ekki hugsað svo, að bezt væri að geyma auðæfin í þeim tilgangi, að enginn næði í þau. Þeir hafa ekki lagt á sig þau meinlæti að snerta ekki á því að veiða hvalinn. En sú hugsun kemur fram hjá andstæðingum frv., að ekki beri að snerta gullnámuna, af því þeir eru hræddir við, að einhverjir kunni að koma og taka einhvern hluta af henni.

Þetta minnir mig á þann kotungsríg og þá hreppapólitík, sem of mikið hefir verið af í okkar þjóðfélagi. Náttúrlega er auðvelt að hóa saman mótmælafundum, þegar svona er ástatt, en ef flytja á út kældan fisk, veiddan á smábátum, þá koma áreiðanlega áskoranir hvaðanæva um afnám bannsins, áskoranir, sem nægja til að opna augu þeirra, sem nú eru á móti málinu.

Hv. þm. Dal. harmaði það, hver herferð væri hafin gegn kolanum og lífi hans, ef þetta yrði lög. Ég veit ekki, hver hermaður hv. þm. Dal. er, en ég veit, að ísl. sjómenn eru svo blóðþyrstir, að þeir munu ekki harma lát kolans, og ef hv. þm. Dal. þekkti málið, myndi hann ekki gera það heldur.

Ég er viss um, að lögin yrðu til gleði mörgum sjómönnum, sem ætla að brjótast áfram á smærri skipum, ef þetta yrði samþ., en það lítur út fyrir sem fyrr, að ennþá sé ekki hægt að opna augu hv. þm. fyrir þessu þjóðþrifamáli. En fullviss er ég þess, að eigi verður þess langt að bíða, að augu manna opnist og þeir sjái, að með þessu banni sé búið að hafa af landsmönnum geysimikil auðæfi og að við séum máske orðnir of seinir til þess að opna landhelgina fyrir dragnótaveiðum.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta að sinni, en ég vona, að hv. þdm. líti ekki á þetta mál frá sjónarmiði þröngsyninnar, heldur frá því sjónarmiði, er til heilla horfir þjóðinni. En þjóðnytjamál má það kalla að rýmka um þau bönn, sem nú hvíla á þjóð vorri hvað dragnótaveiðar snertir.