07.04.1931
Neðri deild: 40. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (323)

123. mál, dragnótaveiðar

Pétur Ottesen:

Ég get ekki fallizt á, að það sé hægt að neinu leyti að bera saman samþykktir þær, sem gerðar voru fyrrum við Faxaflóa um takmörkun á notkun þorskaneta og lína o. s. frv., og þær samþykktir, sem gerðar hafa verið um bann gegn notkun dragnóta í landhelgi. Slíkur samanburður nær ekki nokkurri átt, þar sem dragnætur eru náskyldar botnvörpum, sem drepa ungviðið jafnt nytjafiskinum; en það er ekki hægt að segja nema að örlitlu leyti um linu, og alls ekki um þorskanet.

Það vita allir, sem kunnugir eru þessum málum, að þessu er þannig varið með dragnæturnar eins og aðrar botnvörpur, sem stærri eru, að þær drepa ungviðið jafnt sem fullorðna fiskinn. Þó að hv. flm. geri ráð fyrir því í frv., að möskvastærðin verði aukin að einhverju leyti frá því, sem nú er, þá verða næturnar aldrei hafðar þannig, að öll smásílin komist út um möskvana. Þau fara í eina þvögu og drepast á leiðinni, meðan verið er að draga næturnar upp í bátana. Þegar upp í bátinn er komið, er engin leið að bjarga þeim lifandi út aftur.

Bann gegn dragnótaveiðum er því algerlega ósambærilegt við þær samþykktir, sem fyrr meir voru gerðar við Faxaflóa um notkun veiðarfæra.

En dragnótaveiðamálið hefir fleiri hliðar en þessa einu. Það hefir verið bent á það að af ýmsum hv. þm., að við mættum minnast þess, að við höfum veitt þjóð, sem er 30 sinnum stærri en Íslendingar og 30 sinnum auðugri, jafnan rétt á við okkur sjálfa til atvinnurekstrar hér, — bæði á landi og í landhelginni. Mönnum mun og kunnugt, að þessi þjóð, Danir, eru upphafsmenn að dragnótaveiðum og hafa því mikla leikni og æfingu í að nota þetta veiðarfæri, enda hafa þeir stundað slíkar veiðar um nokkurt skeið á sínum fiskimiðum. Stöndum við því verr að vígi en þeir hvað þessar veiðar snertir. Að vísu geta Íslendingar tileinkað sér kunnáttu þeirra í þessu efni og hafa þegar nokkuð reynt þessa veiðiaðferð, en Danir hljóta að hafa þar nokkra yfirburði fyrst í stað.

Hv. þm. N.-Þ. hefir upplýst það hér, og hefir því ekki verið á móti mælt, að á fiskimiðum við Danmörku og í Norðursjó, þar sem dragnótaveiði hefir mjög verið stunduð nú um skeið, sé flatfiskurinn nú mjög að ganga til þurrðar. Hafa Danir því ekki aðstöðu til þess að ausa honum upp í svo ríkum mæli sem áður. Skaðsemi dragnótaveiðanna og uppræting flatfiskjar af þeim völdum er þegar komin greinilega í ljós. En þeir hafa mikinn útbúnað til þessara veiða og bezta kunnáttu á þessum veiðiaðferðum. Megum við því vera þess albúnir, að Danir, sem nú færast mjög í aukana hvað fiskiveiðar snertir, muni sækja hingað til þess að stunda dragnótaveiðar í stórum stíl, og að flatfiskur og annar botnfiskur muni þá mjög ganga til þurrðar hér, eins og raun ber vitni um, að orðið er við strendur Danmerkur og í Norðursjó, þar sem þetta veiðarfæri hefir verið notað. Það er öllum kunnugt, að landbúnaður Dana hefir beðið mikið afhroð sökum verkfalls á framleiðsluvörum þeirra. Verða þeir því knúðir til þess að leita sér annara atvinnuvega að meira eða minna leyti. Er því fullkomin ástæða til að álíta, að þeir muni kosta kapps um að nota sér þann rétt, sem þeir eiga ennþá hér á landi, en sem þeir eiga skamman tíma eftir að njóta, sem betur fer. En því betur munu þeir nú hyggja á að nota sér hann þennan tíma.

Þess vegna álít ég, að fullkomin ástæða sé til þess, að löggjöfin um þessi efni sé sniðin eins og núgildandi lög eru sniðin, með það fyrir augum að verja okkur fyrir því, að Danir noti hér meira en góðu hofi gegnir þetta skaðlega veiðarfæri. Ég álít, að fullkomin ástæða sé til þess að hafa slíka loggjöf nú, og ef til vill enn brynni nauðsyn nú en áður til þess að tryggja það, að Danir, með Færeyinga í eftirdragi, geri hér ekki usla með þessum veiðiaðferðum, og þá vitanlega flýti fyrir því, að sama niðurstaðan verði hér hjá okkur og hjá þeim, að kolaveiðarnar gangi til þurrðar og verði þannig til engra nota, nema kolinn verði friðaður að nýju.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, sem ég vil minnast á í sambandi við þetta mál, og er það atriði engan veginn ómerkast. frá því að botnvörpuveiðar hófust hér við land, hafa jafnan verið uppi kröfur um að færa at og rýmka landhelgina, svo sem hv. þm. N.-Þ. benti greinilega á í sambandi við þetta mal. Er fullkomin ástæða til að minnast þessa nú, þegar verið er að fara fram á, að slakað sé til í þessu efni hvað friðun landhelginnar snertir — minnast þess, að við höfum jafnan verið að gera allt okkar ýtrasta til að rýmka landhelgina og friða hana.

Nú er því svo varið, að við eigum undir þær þjóðir að sækja um rýmkun landhelginnar, sem vel eru kunnugar þeim afleiðingum, sem dragnotaveiðar hafa haft. Ég býst fastlega við, að þeim mundi koma það undarlega fyrir sjónir, að við, sem krefjumst þess, að landhelgin sé rýmkuð, skulum samtímis slaka á þeirri löggjöf, er nú veitir okkur vernd gegn dragnótaveiðum í landhelgi, veiðum, er hafa orðið til þess að uppræta kola og annan botnfisk að mestu leyti þar, sem þær hafa verið stundaðar annarsstaðar.

Ég vil fastlega mælast til þess, að hv. þdm. athugi það vel við afgreiðslu þessa máls, að rýmkun landhelginnar er stórt mál og mikilsvert fyrir okkur Íslendinga, mál, sem við verðum að leggja fram okkar ýtrustu krafta til að koma í framkvæmd, og að við megum ekki tefla út úr höndum okkar neinum sönnunargögnum, er megi verða því máli til stuðnings og framdráttar.

En ef frv. þetta yrði samþ., þá býst ég við, að erlendar þjóðir mundu álíta, að minni nauðsyn væri fyrir okkur að fá landhelgina rýmkaða en við viljum vera lata. Það er ekki hvað sízt vegna þessa atriðis, að ég býst ekki við, að ég ljái frv. þessu fylgi. Þótt ég viðurkenni, að meðan verið væri að uppræta kolann, þá gæti okkur Íslendingum fallið nokkuð í skaut fram yfir það, sem nú er, þá álit ég þó hitt miklu meira virði, að við gætum jafnan haft hreinan skjöld í kröfum okkar um rýmkun landhelginnar. Sá hagur, er við mundum hafa af því, að frv. þetta væri samþ., kæmist aldrei í námunda við þann skaða, sem við mundum hljóta, ef samþykkt þessa frv. gæti tafið fyrir hinu mikla máli: rýmkun landhelginnar.