08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (330)

123. mál, dragnótaveiðar

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég get ekki greitt þessu frv. atkv., því ég get ekki séð, að þörf sé á þeirri lagabreyt., sem í því felst, nú sem stendur. Ef rýmka ætti lögin um dragnótaveiðar í landhelgi, þarf fyrst að vera séð, að sjómenn okkar séu tilbúnir að færa sér það í nyt, áður en það er um seinan. Nú stunda þeir ekki dragnótaveiðar til muna og virðast vanbúnir til að taka þær upp í fljótu bragði.

Hinsvegar er það víst, að ef við samþykktum nú að lengja dragnótaveiðitímann í landhelgi eins og frv. gerir ráð fyrir, þá mundum við strax á næsta sumri fá yfir okkur flóð af Dönum og Færeyingum, sérstaklega Færeyingum. Og eftir áliti kunnugra manna mundu ekki líða mörg ár áður en skarkolamið okkar væru þurrausin.

Það er vitanlegt, að útlendingar þurfa minna að kosta til veiðiskaparins heldur en við, og getur því borgað sig fyrir þá að stunda veiðar, sem við hofum ekki hag af að stunda. Það er líka mjög takmarkaður fjöldi af skipum okkar, sem getur stundað þá veiði, sem hér er um að ræða. Mörg þeirra stunda síldveiðar fram í september; þau mundu ekki fara að hætta við þær til þess að fara á dragnotaveiðar. Þess vegna er ekki ástæða til að bæta ágúst við veiðitímann.

Í öðru lagi hafa útlendar þjóðir, sem hingað sækja á fiskimiðin, lítið gert að dragnótaveiðum fyrir þá sök, að þeim þykir veiðitíminn of stuttur. Ef hann væri lengdur upp í 7 mánuði, mundi kolaveiði þeirra margfaldast. Ég get því ekki fallizt á að samþ. frv. á þessu þingi. Það væri fyrst eftir að Íslendingar væru farnir að stunda þessar veiðar eitthvað til muna og hafa hag af þeim, að mér gæti komið til hugar að stuðla að því með atkv. mínu að lengja veiðitímann eitthvað. Eins og nú standa sakir álít ég, að það yrði okkur til svo tiltölulega lítilla hagsbóta, þó dragnótaveiðarnar væru leyfðar í febrúar og marz, og í ágúst eru skipin bundin við síldveiðarnar, sem að jafnaði eru arðvænlegri.

Ég ætla ekki að fara langt út í málið að þessu sinni, þar sem margir hafa um það rætt. Komi það til 2. umr., mun ég gera málinu nokkur skil.