07.03.1931
Neðri deild: 18. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (340)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Ólafur Thors:

Ég hefði ekki séð ástæðu til að fara að ræða þetta mál nú, ef hv. flm. hefði ekki látið falla nokkur orð, sem voru þess eðlis, að mér þykir rétt að gera aths. við þau strax.

Hv. flm. sagði, að hann teldi sig ekki segja of mikið, þó að hann segði, að meiri hl. þeirra manna, sem búa á þeim stað, sem hér er um að ræða, kysi heldur að heyra undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Ég hygg, að þetta sé mjög svo ofmælt hjá hv. flm. Annars vildi ég skora á hann að færa sönnur á réttmæti þessara orða sinna. Er það tiltölulega auðvelt, þar sem ekki þarf annað en safna undirskriftum þeirra, sem þarna búa, til staðfestingar þeim. Ef hv. flm. gerir það ekki, verð ég að telja, að hann fari hér með rangt mál.

Þetta mál liggur hér að öðru leyti eins fyrir sem undanfarið. Þar sem það hefir verið mikið rætt, sé ég ekki ástæðu til þess að fara nú að nýju að færa fram þau rök, sem móti því mæla. Hér er um ekkert annað að ræða en ásælni Reykjavíkur — tilraun hins sterka til að kúga hann, sem er minni máttar. Þykir mér því ekki nema eðlilegt í alla staði, að hv. 2. þm. Reykv. skuli fylgja þessu máli jafnfast fram og hann gerir. Ég furða mig meira á sumum meðflm. hans.

Vegna þeirra ummæla hv. flm., að málið mundi upplýsast meira en orðið er undir meðferð þess, mun ég ekki greiða atkv. á móti því, að frv. verði vísað til n., en ég reiði mig á það, fyrir hönd þess aðiljans í þessu máli, sem kúga á, að vilji Alþingis í málinu sé óbreyttur.