13.04.1931
Neðri deild: 45. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (370)

89. mál, stækkun lögsagnarumdæmis Reykjavíkur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það er algengur leikur hér á Alþingi, sem nú er leikinn í þessu máli, þegar sýnt þykir, að ekki sé hægt að hefta framgang einhvers máls, að koma þá með fleyga, sem reynt er að þrengja inn í frv., til þess að gera þau að engu. Það er ekki nema gott að fá viðurkenningu fyrir því, að þessar brtt. eru fram komnar til þess að ónýta málið, og við því er raunar ekkert að segja. Alþingi ræður úrslitum málsins. Og það ætti að hafa kjark til þess að sýna hreinar línur í málinu, án þess að fara nokkrar krókaleiðir.

Í sambandi við ræðu hv. 1. þm. Skagf. vildi ég spyrja hann, hvort beri að skilja orð hans svo, að hann mundi greiða atkv. með því á næsta þingi, að Seltjarnarnesið skyldi leggjast við Reykjavík, ef ekki hefðu þá enn tekizt samningar milli Reykjavíkur og Seltjarnarneshrepps. ég er glaður yfir ræðu hv. þm., ef á að skilja hana þannig, því ég tel alveg sjálfsagt, að reynt sé til hlítar að fara samningaleið í þessu efni, ef mögulegt er. En á hinn bóginn virðist það mjög óskynsamlegt, ef Reykjavík þarf mjög nauðsynlega að fá þetta land, að hinn aðilinn skuli geta neitað öllum samningum. Það er nú einu sinni svo í okkar þjóðfélagi, að eignarrétturinn er nú ekki meir verndaður En það, að hægt er að skylda menn til að selja eignir sínar samkv. sanngjörnu mati, ef alþjóðarhagur er í veði. Ég vil taka það skýrt fram, að ég vil alls ekki, að farið sé hér fram með neinu ofbeldi. Ég vil, að hlutaðeigendur fái fullt gjald fyrir það land, sem þeir létu af hendi. En hér er um alveg samskonar tilfelli að ræða og þegar Reykjavík þurfti að fá nokkrar jarðir hér fyrir ofan. Ég fylgi alveg sömu stefnu nú og þá; ég vil, að Reykjavík fái landið, af því að henni er það nauðsynlegt, en ég vil, að fyllstu sanngirni sé beitt, og að eigendurnir fái fullt gjald fyrir og verði fyrir sem allra minnstum óþægindum.