14.02.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

Kosning forseta

forseti (ÁÁ):

Ég þakka þingheimi það traust, sem mér hefir verið sýnt við þessa kosningu, og því jafnframt velkomna í vorn hóp hina nýkjörnu þm. Á síðastliðnu ári var haldin þing- og þjóðhátíð, hin mesta, sem saga vor hefir að segja. Ég vil óska þess, að geisla þeirrar hátíðar leggi fram á þær brautir, sem við eigum ófarnar. Sú hátíð hefði ekki verið haldin, ef þing og þjóð stæði ekki einhuga um hina ríkjandi stjórnskipun í aðaldráttum. Stjórnskipunarbaráttan er að baki oss, en fram undan óleyst mörg vandamál atvinnu- og viðskiptalífs, en í þeirri baráttu er það mikill styrkur, að þjóðin er einhuga að kalla um meginatriði stjórnskipunarlaga. Gróður jarðar, veiði sjávar og vinna mannanna eru hin ósýnilegu öfl að baki flestra vorra viðfangsefna. Baráttan um viðurværið og völdin er hörð, en góður vilji og vitsmunir milda viðureignina. Ég er þess fullviss, að þjóð vor muni bera gæfu til að leysa deilumálin á þinglegan hátt, því að löng þingsaga, almennur kosningarréttur og þingstjórn hlýtur ýmist að varðveita eða skapa þann jöfnuð, sem einn getur tryggt þingræði og framtíð þjóðarinnar. — Að svo mæltu býð ég alla þm. velkomna og arna Alþingi allra heilla.