08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

Afgreiðsla þingmála

Hákon Kristófersson:

það má vel vera, að þessi siðameistari, sem hér er upprisinn í deildinni, hv. 2. þm. Eyf., hafi átt við mig, er hann hellti úr skálum vandlætingarinnar yfir þessa hv. d. Ég vil nú leyfa mér að spyrja hann, hvort hann hafi viljað beina ávítum sínum til mín, af því ég greiddi ekki atkv. í tveim tilfellum aðan. Ég veit ekki til þess, að slíkt hafi nokkru sinni verið vítt áður, þá er menn gera fulla grein fyrir því, hvers vegna þeir greiði ekki atkv. Slíkt hefir viðegngizt í mörg ár og ekki verið að fundið. Ég hefi jafnvel ekki heyrt hv. 2. þm. Eyf. vanda um við hv. þdm. út af þessu áður. Ef hv. þm. hefir hinsvegar átt við þá hv. þdm., sem fjarverandi eru, þá er það vitaskuld öldungis óviðeigandi og óhæfilegt að hafa í frammi stóryrði og hótanir og þungar ásakanir í garð þeirra hv. þdm., sem gegnt hafa skyldu sinni og setið þennan fund. Annars þætti mér eftir atvikum sennilegt, að hv. 2. þm. Eyf. gengi annað til en vandlætingarsemin ein. Það væri ef til vill ekki ómögulegt, að það hefði komið við tilfinningar hv. þm., að honum hafi ekki þótt hv. d. taka nógu vel við þessu og öðrum fúleggjum, sem hann, ásamt nokkrum öðrum, er sífellt að klekja út hér í hv. d. Mér er nær að halda, að gremja út af þessu hafi meiru um valdið, að hv. þm. rauk upp áðan með offorsi og stóryrðum.