08.04.1931
Neðri deild: 41. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

Afgreiðsla þingmála

Magnús Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð út af því, að hæstv. forseti vildi ekki að öllu leyti fríkenna okkur, sem ekki greiddum atkv. og gerðum grein fyrir hlutleysi okkar, og gaf í skyn, að það væri óviðfelldið að þurfa að toga atkv. út úr þdm. Það er algengt, að það standi nokkuð á þm. við atkvgr., og þótt nokkrir skorist undan að greiða atkv., þá kemur það ekki að sök, ef d. er fullskipuð. Það, að atkvgr. gekk svo treglega áðan, var því um að kenna, að d. var svo fámenn, að ekkert atkv. mátti missast til þess að d. væri ályktunarfær. Þeir, sem ekki greiddu atkv. og höfðu lögmætar ástæður, gátu ekki látið það koma fram nema við nafnakall. Þess vegna var það eðlilegt, að hæstv. forseti yrði oft að grípa til nafnakalls, til þess að fá löglega atkvgr. Annars verð ég að telja það alveg óforsvaranlegt alvöruleysi og kæruleysi af hæstv. stj., að enginn ráðherranna skuli vera viðstaddur, og auk þess sé ég ekki betur en annan flm. vanti. Því verður þó ekki neitað, að þetta mál er ærið mikilvægt, a. m. k. ef það á að komast í framkvæmd.