26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (442)

11. mál, þjóðabandalagið

Sigurður Eggerz:

Ég get verið sammála hæstv. forsrh. um það, að æskilegt væri, að Íslendingar létu meir til sín taka mál sín út á við. En það getur auðvitað ekki orðið fyrr en öll ráð út á við eru komin í okkar hendur. Ég er honum líka mjög sammála um, að æskilegt sé að halda við sem allra beztri sambúð, ekki aðeins við Norðurlandaþjóðirnar, heldur sem mestri og beztri kynningu við þá, sem mest ráð hafa í veröldinni. Það er ein höfuðástæðan til að ganga inn í Þjóðabandalagið, ef við verðum svo heppnir að senda þangað fulltrúa, sem gætu náð kynningu af þeim mönnum, sem halda örlagaþráðum veraldarinnar í höndum sér.

Ég held, að allir hljóti að dást að þeirri hugsjón, sem liggur bak við Þjóðabandalagið. Í þeim flokki a. m. k., sem ég telst til, skilja menn, hve mikils virði sú hugsjón er fyrir heiminn. En mörg atriði þarf að athuga vandlega, áður en í það er ráðizt að hefja hina mikilvægu þátttöku íslenzku þjóðarinnar í þeirri alþjóðasamvinnu. Ég veit, að flestir gætnir menn sjá, að tvö atriði þurfa að standa greinilega fyrir allra augum, og fyrr en það verður veit ég, að flokkurinn, sem ég er í, mun ekki taka ákvörðun um málið. Flokkurinn lítur svo á, að ekki sé unnið neitt við það að ganga inn í Þjóðabandalagið, ef sambandsþjóð vor ætti að mæta þar fyrir vora hönd. — Nú heyrir það til starfsemi Þjóðabandalagsins, að það hefir oft gengizt fyrir hinum og þessum löggjafarmálum. Í því augnamiði var meðal annars fundurinn í Haag nýlega, þar sem rætt var um ýms mál, er snertu þjóðarétt, og þar var minnzt á landhelgi og landhelgisgæzlu. Auk þess var talað um ríkisborgararétt og ýmislegt þess háttar.

Á þessum fundi hygg ég, að sendiherra vor í Kaupmannahöfn væri viðstaddur fyrir hönd stjórnar vorrar. Nú vildi ég leyfa mér að spyrja: Ef maður er sendur af okkar hálfu á slíka fundi, fer hann þá í umboði dönsku utanríkisstjórnarinnar eða íslenzku stjórnarinnar? Er Sveinn Björnsson mætir á fundinum í Haag, hefir hann þá umboð frá danska utanríkisráðuneytinu eða íslenzku stjórninni? Vér gætum ekki hugsað oss, að vorir menn færu í umboði annara en íslenzku stjórnarinnar. Þetta atriði óskar Sjálfstæðisflokkurinn, að sé tekið til ítarlegrar athugunar.

Þá vildi ég spyrja um annað atriði. Þegar á að „ratificera“ samninga, sem gerðir hafa verið fyrir milligöngu Þjóðabandalagsins, verða þeir samningar þá undirskrifaðir af forsætisráðh. Íslands? Svo ætti það að vera samkvæmt íslenzkum lögum, sbr. 17. gr. Stjskr. Það eru ýms slík atriði, sem Sjálfstæðisflokkurinn vill fá fullvissu um, áður en sótt er um upptöku í Þjóðabandalagið. Flokkurinn lítur svo á, að ef landið eigi að ganga í Þjóðabandalagið, þá eigi það að vera þar sem fullkomlega sjálfstæður aðili, en ekki í umboði neinnar annarar þjóðar.

Þá vil ég minnast á annað merkilegt atriði, sem þarfnast ítarlegrar rannsóknar. Það er hlutleysi landsins í ófriði. Í 19. gr. sambandslaganna stendur:

„Danmörk tilkynnir erlendum ríkjum, að hún samkvæmt efni þessara sambandslaga hafi viðurkennt Ísland fullvalda ríki, og tilkynnir jafnframt, að Ísland lýsi yfir ævarandi hlutleysi sínu og að það hafi engan gunnfána“.

Með þessu viðurkennir Danmörk hlutleysi vort, og tilkynnir ennfremur, að Ísland sé fullvalda ríki. En „pósitivar“ yfirlýsingar annara þjóða um viðurkenningu fullveldis vors hafa ekki verið fengnar. Nú verður að athuga það, er þjóðin ætlar að sækja um upptöku í Þjóðabandalagið, hvort slíkt hlutleysi megi haldast áfram. Í fróðlegri ritgerð í „Andvara“ eftir dr. Björn Þórðarson er nokkuð drepið á aðstöðu Sviss í þessu efni. Sviss hafði lengi verið viðurkennt hlutlaust, og gerði það að skilyrði fyrir þátttöku í bandalaginu, að það fengi að halda hlutleysi sínu, og fékk það, að

því ég bezt veit. En það var mikið um það rætt á undan, og svo mikla áherzlu lagði þessi þjóð á þetta atriði, að atkvæðagreiðsla fór fram í landinu um þetta mál, og var það samþ. með litlum meiri hluta, að þjóðin gengi í bandalagið. Voru 12½ kantona með, en 11½ á móti.

Hvað Luxemburg snertir, þá hafði hún sótt um það sama, en féll frá því síðar, svo að hún var tekin inn í Þjóðabandalagið án nokkurs fyrirvara um hlutleysi.

Það er að skilja á ritgerð dr. Björns Þórðarsonar, að vafasamt muni vera, hvort Ísland geti haldið hlutleysi sínu de jure. En hinsvegar vill hann halda fram, að það haldi því de facto og raunverulega sé því eins vel borgið nú eins og áður.

Ég hefi nú minnzt á tvö atriði, sem máli skipta fyrir afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa máls. Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta ítarlegar, þar sem málið er í nefnd. Vona ég, að það verði rannsakað þar ítarlega og nefndin afli sér skýrra upplýsinga í öllum atriðum.

Ég geri ráð fyrir því, að þessi atriði þyki svo miklu máli skipta í landi voru, að sjálfsagt sé að rannsaka þau til hlítar, áður en fullnaðarákvörðun er tekin um þetta mál.

Ég vil taka það fram, að mér er það fyllilega ljóst, hve mikla þýðingu það getur haft fyrir þjóð vora að ganga í þjóðabandalagið, sérstaklega ef við verðum heppnir í vali fulltrúanna, sem þarna geta kynnzt hinum atkvæðamestu mönnum núlifandi um stjórnmál.

Ég ætla ekki að fara neitt inn á kostnaðaráætlun þá, sem hæstv. stj. gerir í aths. við frv. En ég vil vekja eftirtekt á því, að ófullnægjandi mun þykja að hafa aðeins einn fulltrúa, þar sem flokkarnir munu helzt kjósa að hafa hver sinn fulltrúa.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál, en styðja þá till. hæstv. forsrh., að málinu verði vísað til nefndar að lokinni þessari umr.