26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (453)

42. mál, lyfjaverslun

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til ríkisstj., hvort þessi rannsókn gæti ekki farið fram án mikils kostnaðar. Margir líta svo a, að nú þegar sé veitt of mikið fé til nefnda, og að minni hyggju ætti ríkisstj. að geta látið inna þetta starf af hendi án sérstaks kostnaðar.

Að því er snertir lyfjaskrána, þá er það ríkisstjórnin og heilbrigðisstjórnin, sem ráða verðlagi og því, hvað sett er á lyfjaskrá. Valdið er því alveg í höndum ríkisstj. og heilbrigðisstj., og má því vænta þess, að verðið sé ekki óhæfilega hátt. Hitt er alveg rétt, sem hv. þm. Ísaf. tók fram, að það er illt, ef okrað er á þessum vörum, sem sjúkir menn og ósjálfbjarga verða að nota. Ég er ekki viss um, að heppilegast sé að kaupa allar þær vörur tilbúnar og blandaðar frá útlöndum í stórum stíl. Það getur verið svo, að betra sé að kaupa aðeins frumefnin, en blanda meðulin hér heima, eins og gert hefir verið.