26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í D-deild Alþingistíðinda. (456)

42. mál, lyfjaverslun

Flm. Haraldur Guðmundsson):

Ég ætla ekki að þrátta neitt við hv. 2. þm. Árn. um stjórnina í Danmörku. Hún er óefað betri en stjórnin okkar. En ég get ekki séð, að það komi þessari till. minni neitt við. En út af því sem hann sagði um hinar miklu og skorulegu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu efni, þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr ræðu hæstv. dómsmrh. í þessu máli í fyrra. Það upplýsir málið bezt. Þar segir svo:

„Settur hefir verið nýr taxti, sem gekk í gildi um nýár í vetur, eftir rannsókn um það, hve mikið væri hægt að lækka verð lyfjanna. Reyndist helzt tiltækilegt að lækka taxtann á vinnu við meðalagerð og umbúðum. — Niðurstaðan varð sú, að lækkunin mundi í Reykjavík einni nema a. m. k. 30–40 þús. kr. í meðalári“.

Þetta er það, sem hæstv. ráðherra hafði að segja í málinu í fyrra. Þetta er allt, sem ríkisstj. hefir gert til þess að athuga og rannsaka möguleika á því að lækka lyfjaverðið. Mér finnst það magurt. Þótt stj. hafi látið setja nýjan lyfjataxta, þá er það ekki nema það, sem hún er skyld að gera, ég held á hverju ári.

Hv. 2. þm. Árn. sagði, að lyfin hefðu lækkað í verði um 20% við taxta þann, sem settur var í fyrra. Ráðherrann segir í því, sem ég las upp áðan, að lækkunin muni nema á ári um 30–40 þús. kr. fyrir Reykjavík. Þetta tvennt getur ekki samrýmzt. Ef áætlun ráðh. er rétt, þá mundi lækkunin nema í hæsta lagi 5–10%. Annaðhvort hlýtur því að vera rangt. Þá taldi ráðh., að ekki hefði verið fært að lækka lyfin meira. Sjálft lyfjaverðið taldi hann alveg ókleift að lækka, aðeins vinnu við tilbúning þeirra og blöndun. Ég veit ekki á hverju ráðh. hefir byggt ályktun sína, og þori ekki að neita því, að eitthvað sé hæft í henni. En þar fyrir er ekki sagt, að ekki megi breyta fyrirkomulagi lyfjaverzlunarinnar í hagfelldara horf og á þann hátt lækka verðið. Nú eru fjórar lyfjabúðir hér í Reykjavík. Fyrir ekki löngum tíma var aðeins ein, og fyrir enn styttri tíma aðeins tvær. Þetta o. fl. þarf að athuga og gera að þeirri athugun lokinni það, sem fært reynist til að lækka lyfjaverðið. Ég skildi ekki þá röksemd hv. þm., að ekki mætti kaupa tilbúin lyf frá verksmiðjunum. Ég veit þó ekki betur en þetta sé gert í stórum stíl nú. Líklega um 40% af lyfjunum eru verksmiðjulyf. Umbúðirnar sýna það bezt. Notkun slíkra lyfja fer stöðugt vaxandi.

Þá spurði hv. þm. N.-Ísf. um það, hvað þessi rannsókn myndi kosta. Slíkt get ég ekki sagt um nákvæmlega. En sá kostnaður ætti þó ekki að verða mjög mikill, vegna þess hve góð gögn eru fyrir til slíkrar rannsóknar. Vilmundur Jónsson læknir á Ísafirði telur, að sú rannsókn myndi jafnvel ekki kosta nema mjög lítið fé Ég skal þó ekkert um það fullyrða.

Ég skal ekki hafa neitt á móti því, að máli þessu verði vísað til n. og umr. frestað.