26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í D-deild Alþingistíðinda. (464)

43. mál, lækkun vaxta

Gunnar Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég hafði ætlað mér að koma fram með till. í svipaða átt eins og í fyrra um lækkun vaxta. En þegar ég sá þessa till. liggja frammi, hætti ég við það, af því að það var í raun og veru það sama, sem ég vildi. Annars ætlaði ég að koma málinu á framfæri í fyrirspurnarformi til ríkisstj., um hvað hún hefði gert síðan í fyrra í þessu máli.

Ég sé eftir ræðu hv. 1. flm., að það er lítið eða ekkert, sem okkur ber á milli. Það er satt, að Landsbankinn verður að ríða á vaðið, en ég tel rétt að taka þar með Útvegsbankann og aðrar lánsstofnanir, sem ríkisstj. getur náð til. Það er óhugsandi, að Landsbankinn einn lækki vexti á útlánsfé; þeir verða allir að gera það samtímis.

Ég er sannfærður um, að það er til hagsmuna fyrir alla, að vextir lækki. Og það er ekki sanngjarnt, að menn, sem eiga innstæðu á vöxtum, fái miklu hærri vexti hér heldur en í nágrannalöndunum. Það er heldur ekki sanngjarnt, að svo mikill munur sé á innláns- og útlánsvöxtum sem hér er. Á krepputímum held ég, að þetta jafni sig fullkomlega með því að töp bankanna verði minni og færri gefi sig upp til gjaldþrots.

Að því er snertir kapítalsflóttann, sem hér var minnzt á, þá er augljóst, að menn fara ekki út úr landinu með féð, því að vextir eru ekki hærri af því ytra, heldur þvert á móti; og að því er innlenda flottann snertir, er engin ástæða til að óttast, að það færist f aukana, því að undanfarið hefir allmikið verið gert að því að taka fé úr bönkum og leggja í húsabyggingar.

Mér skildist, að hæstv. fjmrh. væri í raun og veru sammála þessari till., það gladdi mig að vísu, en þó virtist helzt til lítil alvara hjá honum um að þetta kæmist í framkvæmd. Hann hélt því fram, að ríkisstj. gæti lítið gert, því að bankaráðið réði þessu. En til þess er því að svara, að það eru möguleikar til að losna bæði við núv. bankaráð og bankastjórn, ef ekkert yrði í málinu gert af þess hálfu. Því að það nær engri átt, að bankarnir geti farið til þingsins og heimtað og heimtað, en ef þingið snýr sér til þeirra, þá skella þeir við skolleyrunum. Ég vil að hagur bankanna og hagur þjóðarinnar fari saman.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, að öðru leyti en því, að mig langar til að víkja að lokum nokkrum orðum til hv. 2. þm. G.-K.

Það er alveg rétt, að íslenzkt atvinnulíf er áhættusamt, og liggja sjálfsagt í því meginorsakir hinna miklu bankatapa undanfarin ár. Um þetta er ég hv. þm. sammála. En ég lít svo á, að fleira komi hér til greina, og vil ég þar sérstaklega geta þess, að stjórn bankanna hefir alveg tvímælalaust ekki verið að öllu leyti svo sem skyldi undanfarin ár, og mun ég ekki rekja þá sögu nánar að svo stöddu. Ég hygg, að reynsla undanfarinna ára hafi sýnt það og sannað, að bankapólitík okkar hafi ekki alltaf verið á þann veg sem skyldi, enda höfum við mátt gjalda þess sárar bætur. Annars þykir mér það næsta undarlegt, að hv. 2. þm. G.-K. skuli nú vera á móti þessari till., ef dæma má eftir síðustu ræðu hans. Ég man þó ekki betur en að hann væri með henni í fyrra. (ÓTh: Ég var ekki með henni). Það má vel vera, að hv. þm. hafi ekki greitt atkv. með henni, en hann greiddi heldur ekki atkv. á móti henni. (ÓTh: Nei, það er alveg rétt). Ég hefi því nokkra ástæðu til þess að vona, að hv. þm. bæti nú ráð sitt og greiði þessari till. atkv., þegar þar að kemur.

Ég skal afdráttarlaust lýsa yfir því hér, og leggja áherzlu á það, að mér er þetta mál full alvara, og svo mun vera um hina 20 hv. þm., sem stóðu að samskonar till. á þinginu í fyrra. Ég vísa á bug öllum aðdróttunum um alvöruleysi og leikaraskap í þessu máli. Og óneitanlega þykir mér það dálítið hart, ef bönkunum á að haldast það uppi ár eftir ár að hundsa vilja Alþingis í slíku stórmáli sem þessu. Alþingi hefir jafnan tekið með skilningi og velvild í allar þær málaleitanir, sem bankarnir hafa sent til þingsins, en þegar þingið þarf að snúa sér til bankanna, þá er eins og höfðinu sé barið við stein. Slíkt má ekki þolast til langframa.