26.02.1931
Neðri deild: 10. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 27 í D-deild Alþingistíðinda. (465)

43. mál, lækkun vaxta

Pétur Ottesen:

Ég get strax lýst yfir því, að ég mun styðja þessa till. eins og í fyrra, en ég stóð aðallega upp til þess að spyrja hæstv. stj., hvort hún hafi ekki eitthvað gert og hvað hún hafi þá gert, ef eitthvað er, til þess að framfylgja till. þeirri um þetta efni, sem samþ. var hér á þinginu í fyrra. Hæstv. forsrh., sem hafði þá orð fyrir stj. í þessu máli, vegna veikinda hinna ráðherranna, lét þau orð falla, sem ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp fyrir hv. deild. Þau hljóða svo:

„Mín skoðun er, að vöxtum sé haldið óþarflega háaum og ranglátlega fyrir atvinnuvegina“.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh., hvort hann hafi ekki gert eitthvað til þess að afstýra þessu ranglæti. Ég vil biðja um svar nú þegar, því að það gefur bendingu um, hvers árangurs má vænta af samþykki þessarar till. nú.

Annars þykir mér það dálítið undarlegt, hversu mikils ósamræmis kennir í orðum þessara tveggja hv. þm., sem um þetta mál hafa talað nú, og sem báðir eru í stj. banka hér á landi. Á ég annarsvegar við hæstv. fjmrh. og hinsvegar við hv. 2. þm. Árn., sem að því er ég hygg er í bankaráði Útvegsbankans. (Fjmrh.: Það eru nú fleiri bankaráðsmenn hér í deildinni.). Það er sjálfsagt rétt, en það hafa ekki fleiri þeirra talað í þessu máli, og ég get að sjálfsögðu ekki lesið álit þeirra á þessu máli út úr ásjónum þeirra. Um hv. 2. þm. Árn. er það að segja, að hann hefir jafnan litið svo á, frá því að þetta mál kom fyrst til umr. í þinginu, að landsstj. hefði aðstöðu og möguleika til þess að ráða nokkru um þessa hluti. Á þinginu 1927 flutti hann þáltill. um lækkun vaxta, í fyrra greiddi hann atkv. með slíkri till., og nú er hann einn höfuðflm. till., sem gengur út á sama efni. Þetta ber þess ljósan vott, að hv. þm. hefir grundvallaða skoðun á valdi ríkisstj. til þess að knýja fram vaxtalækkun hjá bönkunum.

Á hinn bóginn kveður nokkuð við annan tón hjá hæstv. fjmrh. Hann heldur því fram, að stj. hafi enga aðstöðu til þess að fá vextina lækkaða, heldur sé þá bankaráð seðlabankans, sem öllu ráði í þeim efnum. Ég verð nú eindregið að fallast á skoðun hv. 2. þm. Árn. í þessu máli, og þess vegna tel ég réttmætt að bera fram og samþykkja þessa till., ef nokkur hugur fylgir máli, og ef vænta má einhverra aðgerða af hálfu ríkisstj. til þess að fá henni framfylgt. Því aðeins er einhvers árangurs að vænta, en þýðingarlaust að samþykkja tillöguna að öðrum kosti.

Annars verð ég að segja það, að mig furðar ekki á því, þótt áskoranir berist úr Árnessýslu um lækkun vaxta. Í fyrsta lagi er það yfirlýst skoðun fulltrúa sýslunnar á þingi, eða a. m. k. annars þeirra. Og í öðru lagi er þess að geta, að hv. 2. þm. Árn. mun hafa lýst yfir því fyrir síðustu kosningar, að það, sem fyrir Framsóknarflokknum vekti með því að fá í gegn breyt. á landsbankalögunum, væri fyrst og fremst það, að skapa ríkinu aðstöðu til þess að lækka vextina. Fleiri stoðir renna enn undir þetta álit mitt. Hv. þm. sagði áðan í framsöguræðu sinni, að það væri pólitík bankanna, og þá væntanlega stj. líka, að níðast á skilamönnunum í landinu, m. a. með of háum bankavöxtum. Þess vegna er það ofur eðlilegt, að áskoranir um lækkun vaxta komi úr kjördæmi hv. 2. þm. Árn. Ég vil nú mega vænta þess, ef þessi till. verður samþ., að stj. aðhafist eitthvað til þess að uppfylla þessar vonir Árnesinganna, sem byggðar eru á loforðum þingmanna þeirra. Ég vona, að samþykkt þessarar till. leiði til þess, að eitthvað verði gert til þess að lögun fáist.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. Mér virðast allar stoðir hníga undir það, að till. verði samþykkt, en áður en til atkvgr. kemur, væri sem sagt æskilegt að fá upplýsingar um það, hvað stj. hefir gert, eða hvort hún hafi nokkuð gert til þess að fá vextina færða niður, sem til þessa er haldið óþarflega og ranglátlega háum, svo sem hæstv. forsrh. komst að orði í fyrra.