02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (468)

43. mál, lækkun vaxta

Magnús Guðmundsson:

Ég þykist muna, að ekki hafi verið, þegar málið var síðast til umr., stungið upp á því, að það færi til nefndar, og leyfi ég mér því að leggja til, að málinu verði vísað til fjhn. og umr. frestað.

Annars skal ég ekki fara langt út í þetta mál, en eins og tekið hefir verið fram, var það hér til meðferðar í hv. d. í fyrra. Þá voru gefnar vonir af hæstv. stj. um, að skeð gæti, að hún gæti komið því til leiðar, að vextir lækkuðu. Og það var einmitt vegna þessarar vonar, að ég greiddi atkv. með till., því að ég skal ekki fara dult með það, að ég sé ekki, að stj. geti mikið við þetta mál gert. En hinsvegar var auðsætt, að ekki var ástæða til að meina stj. að reyna þetta, fyrst hún taldi sig geta það. En nú skilst mér á því, að stj. hefir ekkert áunnið, vera ljóst, að hún geti engu áorkað, og því lofað í fyrra upp í ermina. Og nú sagði hæstv. fjmrh. líka, að hann byggist ekki við að fá neinu áorkað, en sagðist mundu senda málið til bankastj. Landsbankans og þar með mundi hans afskiptum lokið.

Það er ekki hægt að neita því, að þeir vextir, sem bankarnir taka, og það ekki síður Útvegsbankinn en Landsbankinn, eru svo háir, að ástæða væri til þess að fá þá setta niður. En það er líka til þriðji bankinn í landinu, Búnaðarbankinn, og hann mun lána gegn 1. veðrétti í fasteignum, þ. e. a. s. þeim beztu tryggingum, sem hægt er að fá, með 6½% vöxtum, en Landsbankinn mun hinsvegar lána gegn 7½% vöxtum. Nú er það vitanlegt, að Landsbankinn veitir fé til ýmissa áhættufyrirtækja í landinu, og ég er ekki viss um, að það sé sanngjarnt að gera ráð fyrir minni mun en 1% á lánum, sem Landsbankinn veitir, og lánum, sem Búnaðarbankinn veitir. Því að það sjá allir menn, að nokkuð er annað að veita lán gegn 1. veðrétti í fasteignum, allt að 60% af fasteignarmatsverði, eða veita lán eins og hinir bankarnir verða að veita yfirleitt til áhættufyrirtækja. Ég held þess vegna fyrir mitt leyti, að með þessu, hvað háir eru vextir gegn 1. veðrétti, sé girt fyrir, að vextirnir verði lækkaðir hér í fyrirsjáanlegri framtíð, svo að nokkru geti numið.

Ég held því, að athuguðu máli, að ekki séu miklar líkur til þess, að hægt sé að fá vextina lækkaða fyrst um sinn. Ég skoða þessa till. því frekar fram komna frá flm. til þess að þóknast kjósendum undir kosningarnar, heldur en af því að þeir hafi trú á, að nokkuð verði úr vaxtalækkun. Því að það er undarlegt að sjá ákveðna og eindregna stjórnarstuðningsmenn vera að skora á stj. ár eftir ár að fá vextina lækkaða, því að maður skyldi ímynda sér, að ef þeir álitu, að hægt sé að fá þá lækkaða, og teldu það svo mikils virði sem þeir láta í veðri vaka og það óneitanlega er, þá mundu þeir ganga nokkuð hart að stj. sinni um þetta. En ekki er kunnugt, að þeir hafi sýnt neina hörku í þeim efnum.

Annars var aðalástæðan til þess að ég stóð upp sú, að ég vil leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til nefndar.