02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í D-deild Alþingistíðinda. (469)

43. mál, lækkun vaxta

Flm. (Magnús Torfason):

Ég get verið fremur ánægður yfir því, hvernig þessari till. hefir verið tekið. Það hefir eiginlega aðeins komið fram ein rödd móti því, að þessi till. sé réttmæt.

Að því er undirtektir hæstv. fjmrh. snertir, voru þær ekki sérlega skörulegar. Hann lét sem hann gæti lítið gert í þessu sambandi, og er það aldrei nema satt, að um leið og stjórnarskipti urðu, varð líka breyt. á stj. Landsbankans, þannig að hann varð nokkru sjálfstæðari en áður. En hinsvegar er ég ekki í neinum vafa um, að hæstv. ráðh. getur gert mikið í þessum efnum, og mér þykir líklegt, að Landsbankinn og stj. hans öll mundi fara mjög að hans tillögum um þetta efni. Það er alveg víst, að hann hefir í hendi mörg ráð, ef hann vill virkilega beita sér.

Svo að ég komi að því, sem hæstv. ráðh. sagði um efni málsins, þá fannst honum, að yrði að taka tillit til þeirra örðugu kringumstæðna, sem verið hefðu og væru enn og rekja má allar götur aftur undir stríð. Ég get svarað því til þessa, að á árunum næstu eftir stríðið, þegar það var vitað, að bankarnir höfðu tapað milljónum, var litið svo á, að vextirnir þyrftu ekki að vera eins háir og nú. Það var aðeins í svip, að vextirnir komust þá í 8%, en svo fyrir nokkrum árum lækkuðu þeir niður í 6%, og þótti það þá nægilegt. Síðan voru þeir hækkaðir upp í 7% og upp í 8% 1. okt. 1929. En 16. des. sama ár lækkuðu þeir niður í 7½%. Það er m. ö. o., að ef ástandið nú á að vera sambærilegt við ástandið, sem var fram til 1926–27, þá hljóta bankarnir alltaf að hafa verið að tapa, því að við vitum, að allmikið af þessum milljónatöpum, sem afskrifuð hafa verið, voru komin fram fyrir þann tíma. Nú, og ekki nóg með það, að þeir séu alltaf ennþá að tapa, heldur lítur þá út fyrir, að töpin aukist, að ástandið sé að verða verra og verra, bæði með tilliti til þess, að þurfa þykir að hækka vextina, og sérstaklega með tilliti til þess, að aðstaða Landsbankans hefir verið gerð svo miklun mun betri en áður.

Ríkissjóður hefir rótað fé í Landsbankann án þess að bankinn þurfi að svara vöxtum af. Og Landsbankinn hefir gefið út meira og meira af seðlum, sem t. d. má sjá af því, að í árslok 1928 hafði hann rúmar 4 millj. kr. í umferð, en í árslok 1929 hafði hann yfir 7 millj. kr. í umferð. Þetta er afaródýrt veltufé. Ég get þess vegna ekki séð annað en að full ástæða væri til þess að athuga stj. bankans, og hvort þar er allt í því lagi, sem vera ber, úr því að bankastj. þykist þurfa að halda vöxtunum svona háum, þrátt fyrir mjög ódýrt rekstrarfé, eins og ég hefi nú sýnt fram á. Ég held því fram, að svo framarlega sem þess er þörf að halda vöxtunum svona háum, þá þarf að athuga, hversu stj. bankans er háttað og hvort ekki er þar að finna orsakir hinna óhæfilega háu bankavaxta, fremur en hitt, að þeirra sé að leita í óhjákvæmilegri þörf bankans.

Hæstv. fjmrh. var að tala um það, að vaxtahæðin færi eftir framboði og eftirspurn peninganna. Já, þetta hefir maður nú heyrt fyrr, en sá er gallinn á, að með þessu er ekkert sagt. Þetta er munnskálp, sem sýnir og sannar ekkert um eðli málsins. Auk þess ætti hæstv. fjmrh. að vita það, að þjóðbankinn á ekki að vera knöttur á leikvelli framboðs og eftirspurnar. Hlutverk þjóðbankans er einmitt m. a. það, að stjórna framboði og eftirspurn peninganna. Í Danmörku hafa nú verið hafnar harðar árásir á þjóðbankann þar fyrir að hafa ekki gert þessa skyldu sína. Hann hefir að vísu nokkur hlunnindi frá ríkinu, en engin fjárframlög né ábyrgðir. En athafnamenn, stjórn, þing og blöð Dana ganga nú í skrokk á þessum banka fyrir að hafa sleppt tangarhaldi á framboði og eftirspurn peninganna. Annars er það um þessa eftirspurn að segja, að þar er um svo óákveðið og teygjanlegt hugtak að ræða, að það er t. d. alveg víst, að þótt þjóðbankanum væru fengnar 100 millj. kr. í dag, þá væru þær alveg horfnar um næstu áramót, ef fullnægja ætti eftirspurn peninganna. En megnið af þeirri eftirspurn er óskynsamleg og á engan rétt á sér, enda kemur það fram í því, að bankarnir tapa. Þegar bankar verða fyrir töpum, er það af því, að þeir hafa sinnt falskri eftirspurn, sem þeir áttu ekki að gegna.

Því er haldið fram, að lækkun innlánsvaxta mundi leiða af sér minnkun innlánsfjár, og kann það að vera rétt að einhverju litlu leyti. En mér er spurn: Ætli það sé ekki heppilegast fyrir banka, sem þannig er stjórnað, að hafa sem minnst innlánsfé undir hendi, ég vil segja, hafa sem minnsta peninga undir hendi yfirleitt? (ÓTh: Það á kannske að leggja niður þjóðbankann?). Ég skal nú víka ofurlítið að þessum hv. þm. síðar.

Þá hefir verið minnst á það, að fasteignalánsvextir Búnaðarbankans væru ráðandi í þessum efnum, um vaxtahæð almennt. Ég skal nú ekki neita því, að það er leitt, að vextir hans þurfa að vera svona háir, en það gegnir nokkuð öðru máli með Búnaðarbankann en Landsbankann, að því leyti að rekstrarfé Búnaðarbankans er fengið með láni, er greiða verður af 6,1% í vexti, og þar sem útlánsvextir þess banka eru ekki nema 6,5%, þá er vaxtabilið ekki nema 0,4%, eða þar um. Ef Landsbankinn fylgdi þeirri reglu að láta ekki mismun út- og innlánsvaxta nema meiru en þessu, þá væri vissulega ekki ástæða til umkvartana. Þess má geta, að forvextir Búnaðarbankans eru 7%, eða ½% fyrir neðan þjóðbankaforvextina. En að forvextir annara banka séu lægri en forvextir þjóðbankans, hygg ég að sé alveg einsdæmi, ekki kannske í heiminum, en a. m. k. á þessari jörð.

Hæstv. 2. þm. G.-K. (ÓTh: Hæstvirtur!) var að væna okkur flm. um alvöruleysi í þessu máli. Hann um það. Það er að vísu alveg rétt, að við flytjum þessa till. samkv. almennum áskorunum kjósenda okkar. En hv. þm. hefir sjálfsagt heyrt getið um það, að það er háttur manna, þá er þeir koma ekki fram vilja sínum strax, að herða á og fylgja eftir, þar til undan lætur. Þegar ekki dugir að refsa með svipum, þá er refsað með skorpíónum. Svo er og í þessu máli. Þetta er mjög mikið áhugamál Árnesingum, og er það mjög að vonum. Þeir hafa lagt allra landbúnaðarsýslna mest í framkvæmdir og framfarir, og þess vegna eru skuldir þar meiri en víða annarsstaðar í sveitum landsins. Ég held því, að það sé á engum rökum byggt, að væna okkur Árnesinga um alvöruleysi í þessu máli.

Hv. 2. þm. G.-K. kvað afkomu bankanna hina hörmulegustu. Ég vil nú ekki bera brigður á, að hann mæli hér af nokkurri þekkingu, en ef svo er, þá stingur þetta töluvert í stúf við það er hann lét í ljós síðar, að sér stæði nokkuð á sama, hve háir vextir væru. (HK: Það sagði hann aldrei). Mér skildist á ræðu hans, sem honum lægi það í léttu rúmi, hve vextirnir væru háir, þrátt fyrir það, þótt hann eða hans fyrirtæki greiddi allt að 400 þús. kr. árlega í vexti. Af þessu hlýt ég að álykta, að afkoma botnvörpunganna sé svo góð, að félögin muni ekki um, þótt þau greiði háa vexti. Maður skyldi ætla, að hv. 2. þm. G.-K., sem er formaður í félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, fari ekki með fleipur og staðlausa stafi um þetta atriði. En það er töluverð mótsögn í þessu. Botnvörpuútgerðarfélögin eru einhverjir allra stærstu viðskiptamenn bankanna, og góð afkoma þeirra þýðir því að verulegu leyti góða afkomu bankanna, í stað hinnar „hörmulegu“ afkomu, sem hv. 2. þm. G.-K. var að tala um. Ber þetta allt að sama brunni, nefnilega að bankarnir stæðu sig við að hafa lægri vexti.

Þá sagði hv. 2. þm. G.-K., að Landsbankinn hefði útlent samningsbundið fé, sem hann yrði að svara vöxtum af. Þetta er að nokkru leyti satt. Hann hefir gamalt rándýrt lán, en sú er þar bót í máli, að það fé er ekki nema örlítil kvörn af öllu því feikna fé, sem bankinn hefir undir höndum, og sem mest er afaródýrt.

Þá gat hv. þm. um það, að það þyrfti að lækka innlánsvextina um leið og útlánsvextina, og ef það væri gert, mundi innstæðufé landsmanna streyma út úr bönkunum. Þetta er hæpið. Við höfum ekki séð sérstök áhrif í þá átt, þegar innlánsvextir hafa lækkað hér á landi, sem komið hefir fyrir. Það fer svo fjarri því, að innlánsfé bankanna hafi gengið til þurrðar fyrir þá sök. Annars legg ég ekki höfuðáherzlu á það, að innlánsvextir verði lækkaðir; ég held meira að segja, að þess ætti ekki að þurfa. Í þessu sambandi má geta þess, að í okt. 1929 voru útlánsvextir 7% og innlánsvextir 4½%. Mismunurinn er hvorki meira né minna en 2½%, sem bankinn skattleggur veltufé landsmanna með. En ekki nóg með það. Svo hækka útlánsvextirnir upp í 8% og innlánsvextir upp í 5%. Þarna sker bankinn sér ½% af veltufé þjóðarinnar, í viðbót við hin 2½%, sem hann hafði áður. En það er þessi ½%, sem ég vil fyrst og fremst fá lækkaðan. Ég vil ekki viðurkenna þá vaxtahækkun bankans, né réttmæti hennar, og ég er sannfærður um, að bankinn er ekki verr staddur nú en í okt. 1929, þegar hann lét sér nægja lægri vexti. Ef reikningar bankans eru athugaðir, verður hið sama uppi á teningnum. Á reikningi bankans 1928 er afskrifað fyrir töpum 1 millj. kr., en fært til næsta árs 220 þús. kr. Næsta ár, 1929, eru afskrifuð töp 760 þús. kr., en yfirfært til næsta árs 428 þús. kr. M. ö. o., afskriftirnar eru árið 1929 á þriðja hundrað þús. kr. minni en árið áður, en yfirfærslan til næsta árs að sama skapi meiri. Hvað þýðir núi þetta? Það þýðir í öllum bankareikningum batnandi hag, um hag bankans á árinu í fyrra er ekki hægt að segja neitt, því að enn er ekki hægt að bera neinar tölur fyrir sig frá því ári, þar sem reikningar bankans eru ekki komnir út.

Það hefir komið fram till. um að vísa þessu máli til n. og fresta umr. Ég vil nú að vísu ekki mæla því í gegn, en annars hélt ég, að það, sem ég hefi nú flutt fram í þessu máli, væru nægileg rök til þess að þm. ættu ekki að vera lengi að hugsa sig um, hvort þeir eigi að greiða atkv. með eða móti till.

Það hefir verið talað um það, að stj. hafi lítið tillit tekið til þeirra áskorana, sem samþ. hafa verið hér á Alþingi, og sérstaklega hefir mönnum orðið tíðrætt um þáltill. þá, sem við þáverandi hv. þm. Str. fluttum á þinginu 1927. En ég verð að segja það, að mér finnst þessir hv. þm. ríða mögru, að tönnlast sífellt á þáltill. frá 1927. Sú till. var afgr. til hv. fjhn., og þar voru allir nm. á móti henni, nema einn, er skrifaði undir með fyrirvara, og var það hv. 1. þm. N.-M., að því er mig minnir. En sagan er ekki þar með öll sögð. Nál. kom fram 25. febr., og síðan er till. tekin á dagskrá 5. marz, og á tímabilinu frá 5. marz til 30. apríl er hún tekin átta sinnum — segi og skrifa átta sinnum — á dagskrá í deildinni, en þingi var ekki slitið fyrr en eftir miðjan maí. Það væri því synd að segja, að þessari till. okkar hafi verið sérstaklega vel tekið eða notið fylgis meðal þm., og bendir það fremur til þess, að hún hafi átt erfitt uppdráttar. Og ég man ekki til að menn hv. 2. þm. G.-K. í bankaráðinu — (ÓTh: Ég á enga menn í bankaráðinu). — Jæja, jæja, hann þykist nú hæstráðandi þar í sveit — hafi verið neitt sérstaklega hlynntir lækkun vaxta í þann mund. En svo að ég tali í alvöru, þá er ég ekki í vafa um, að Landsbankinn á hægt með að lækka vextina, og að hagur hans er ekki svo bágur, að hann þurfi að hafa þá svona háa fyrir þá sök. En annað mál er það, að reynsla allra landa sýnir, að bankastjórar vilja heldur láta drepa sig heldur en lækka vextina. (MG: Á þá að drepa Landsbankastjórana?). Ætli það væri ekki nóg að stinga í þá títuprjónum! Með þessu er ekki sagt, að bankastjórar séu ekki góðir og gegnir menn, en þeim er það vitanlega fyrir mestu að sjá hag stofnananna borgið. Þetta er í sjálfu sér ósköp eðlilegt, og getur vel gengið í góðærum, en á krepputímum verða bankarnir að taka tillit til erfiðleikanna, sem atvinnuvegirnir eiga við að tefla.

Í því sambandi má minna á, að þetta 3 millj. stofnfé hlýtur að hafa verið óskert í árslok 1929. Ef það er ekki, þá eru reikningar bankans ekki réttir. Og banki með öðrum eins hlunnindum og þessi banki, með 3 millj. stofnfé frá ríkinu, ætti að geta gefið mönnum sæmileg kjör.

Auk þess virðist mega vænta, að vaxtalækkunin verði ekki öll tap fyrir bankana. Eitt af því, sem talið er vaxtalækkun til gildis erlendis, er, að hún auki bjargarviðleitni manna, og hér á landi hefir einnig fengizt nokkur sönnun þess. Það var fyrir nokkrum árum, að Landsbankinn setti vextina úr 8% niður í 6%, og þá varð ég fullkomlega var við það, a. m. k. í Árnessýslu, að menn lögðu sig í líma við að borga skuldir sínar og var það miklu ljúfara en áður.

Hv. 1. þm. Skagf. hefir stungið upp á, að málinu verði vísað í nefnd. Ég býst við, að það verði samþ., en þá hefði eiginlega átt að hafa tvær umr. um málið, því að ég álít ekki rétt, að tekið sé málfrelsið af mönnum, sem búnir eru að tala sig dauða við fyrri hluta umr. Ég er búinn að tala tvisvar og hv. 2. þm. G.-K. er búinn að biðja um orðið í annað sinn. Ég mælist því til þess við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða frá þingsköpum um að menn hafi fullan málsrétt, eftir að málið kemur frá nefnd, þótt þeir hafi talað áður.