02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (471)

43. mál, lækkun vaxta

Ólafur Thors:

Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við ræðu mína við fyrri hluta þessarar umr. Það er ekki rétt af hv. 2. þm. Árn. að blanda saman óskum mínum um vaxtalækkun og afstöðu minni til þessarar till. Eins og aðrir skuldugir menn hér á landi, hlýt ég að óska eftir einhverri vaxtalækkun, það er öllum auðskilið. Annað mál og þessu óskylt er það, hvort ég vil fara að greiða atkv. með slíkri till. sem hér er á ferð.

Hún gæti verið meinlaus, en þegar hún kemur fram ár eftir ár, fer ég fyrst og fremst að verða úrkula vonar um, að hún komi að gagni, og auk þess lít ég svo á, að einungis tveir aðilar séu dómbærir um, hvað sé kleift í þessu efni, og að það geti verið hættulegt, ef aðrir ætla að grípa inn í daglega starfsemi bankans. Slíkt hlýtur að vera betur á færi bankastj. og bankaráðs en alþingismanna, sem ekki er eðlilegt að gera ráð fyrir, að hafi nána þekkingu á þeirri starfsemi. Það, sem ræður afstöðu minni til þessa máls, er, að ég álít, að Alþingi sé ekki réttur dómsaðili þessa máls.

Ég sé ekki heldur, að þessi vaxtalækkun hv. flm. sé nokkurt allsherjarbjargráð skuldugum mönnum. Þegar vextir voru hækkaðir síðast, voru útlánsvextir færðir úr 7% upp í 8%, en innlánsvextir hækkuðu ekki nema um ½%, eða úr 4½% í 5%. Munurinn er ½%, og það er þessi ½%, sem flm. þessarar till. vilja ná í. Ég sé ekki, að þessi ½% ríði baggamun fyrir lánþega, en bankana munar þó um að missa það. Yfirstjórn bankamálanna á að ráða í slíkum málum, en auðvitað geta þau atvik komið fyrir, að nauðsyn sé, að Alþingi taki fram i. En þá mundi réttast, að þingið skipti um þessa stjórn.

Ég hræðist það, að lækkun innlánsvaxta valdi útstreymi úr bönkunum. Mer sýnist það undarleg og ólíkleg tilgáta hjá hv. flm., að menn vilji því fremur fela bönkunum fé sitt, sem vextirnir eru lægri. ½% skiptir að vísu ekki miklu máli fyrir innstæðueigendur. En það er þó nóg til þess, að þeir fara heldur að hugsa um fleiri leiðir til að ávaxta fé sitt. Því að allir vita, að það er hægt að leigja út fé með 8% eða jafnvel 10% vöxtum, svo mikið er nú peningahungrið á voru landi.

Hv. flm. sagði, að tilgangslaust væri að tala um till. hans frá 1927. En hann má þó minnast þess, að hann og hæstv. forsrh. börðu málið þá fram og höfðu það mjög á oddinum við síðustu kosningar. Hv. 2. þm. Árn. sagði á fjölmennum fundi við Ölfusárbrú, þegar hann var að svara ásökunum fyrir það, að búið væri að kasta þjóðbankanum inn í stjórnmálabaráttuna: „Við urðum að gera það til þess að ná tökum á bankanum, til þess að geta lækkað vextina“. — Nú er það komið upp, að breytingin hafi gert þetta allt erfiðara. Hvað sem líður undirtektunum undir till. 1927, standa hans fullyrðingar óhaggaðar. Hann ætti að ræða við sinn ágæta forsrh. um það mál.

Hv. flm. sagðist vera að gera þetta vegna þess, að kjósendur sínir hefðu skorað á sig. Það er náttúrlega gott og blessað að hlusta á vilja þeirra. En ætli það sé ekki fullmikið, að hv. þm. renni gönuskeið þess vegna á hverju þingi, eftir að hann er búinn að missa alla trú á framgangi málsins. Hann ætti þá heldur að segja hreinskilnislega við kjósendur sína: Við höfum reynt að lækka vextina, en það er þýðingarlaust. — Þetta finnst mér, að hann gæti ósköp vel sagt.

Mér þótti anda kalt frá flm. til seðlabankans. Ég tel mér nú ekki skylt að bera hönd fyrir höfuð bankans á nokkurn hátt, en þó verð ég að segja það, að ég skil vel, hvers vegna stj. þess banka hefir verið treg til að færa niður vextina, og tel það enga sönnun þess, að hana skorti skilning á þörf atvinnuveganna.

Það hlýtur að vera spaug, sem hv. flm. segir um bankaráðsmennina, þegar hann segir, að ég eigi ráð á svo og svo mörgum þeirra. Ég vil nefnilega því síður taka það í alvöru, sem hann er bankaráðsmaður sjálfur, og ég trúi því ekki upp á hann né aðra í bankaráðinu, að þeir séu sendisveinar annara manna eða stjórnmálaflokka. Enda vona ég, að enginn flokkur ætlist til þess. (MT: Er ekki hv. þm. æðsti maður í Sjálfstæðisflokknum?). Nei, því miður er ég það nú ekki.