02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í D-deild Alþingistíðinda. (472)

43. mál, lækkun vaxta

Jón Ólafsson:

Ég efast ekki um, að hv. 2. þm. Árn. flytji þessa till. að vilja kjósenda sinna. Það er vilji allra kjósenda á landinu yfirleitt, að vextir bankanna séu lækkaðir.

Mér þykir einnig, sem hv. 2. þm. Árn. eigi ekki mikið eftir til að koma fram vilja kjósenda sinna í þessu efni. Hann hefir lýst yfir því, að yfirstjórn Landsbankans muni fallast á að framkvæma lækkun á vöxtunum, og á hann því ekki annað eftir en að yfirstíga einn af hæstv. ráðh., til þess að koma þessu áhugamáli sínu fram. Býst ég við, að honum verði ekki mikið um það, þar sem hann er stuðningsmaður stj. Á hinn bóginn hefi ég heyrt það eftir hv. 2. þm. Árn. og hv. 2. þm. Rang., að ef ekki tækist að koma fram vaxtalækkun með þessu móti, væri hægurinn á að víkja bankastjórunum frá og setja í stað þeirra menn, sem fúsir væru að lækka vextina. Hvað mig snertir, er ég fús til að víkja úr embætti mínu sem bankastjóri Útvegsbankans fyrir hæfari fjármálamanni, ef til kæmi, og lítur út fyrir, að ekki þurfi langt að leita slíkra manna, því að svo virðist, sem hv. 2. þm. Árn og hv. 2. þm. Rang. séu aðalvitsmunamennirnir á öll fjármál, og það eru einmitt þeir menn, sem okkur virðist hafa vantað svo tilfinnanlega.

Það er nú öllum ljóst, að við Íslendingar vorum ekki færir um að fara með þá miklu fjárveltu, sem hingað barst inn í landið um síðustu aldamót eða með stofnun Íslandsbanka. Fjármálin hafa alltaf verið okkar veika hlið. Hygg ég og, að ekki sé ástæða til að ásaka neina sérstaka menn út af því, hvernig fjármálum okkar nú er komið. Þegar peningarnir bárust hingað til landsins um aldamótin, var hér allt ógert. Landbúnaðurinn og sjávarútvegurinn voru í kaldakoli, og það þarf engan að undra, þó að nokkur mistök hafi orðið á okkar peningamálum allt til þessa dags, vegna þess að ekki er hægt að stýra okkar peningamálum svo, að öruggt sé fyrir töpum, og eru þess mörg dæmi bæði frá fiskveiðum okkar, verzlun og landbúnaði.

Hv. 2. þm. Rang. heldur því fram, að bankarnir eigi ekki að lána nema út á trygg veð, þ. e. jarðir og hús. Við þessu er auðvitað ekkert nema gott að segja, ef hægt væri, en ég vil leyfa mér að benda hv. 2. þm. Rang. á það, að veðgildi húsa og annara fasteigna byggist beinlínis á áhættufyrirtækjum, eins og sjávarútvegurinn er að mörgu leyti. Hvers virði skyldu þessi veð vera, ef enginn fengist til að gera út fleytu eða leggja fé sitt á hættu? Ég hygg, að það myndi fara eina leið, sem sé þá, að allt yrði verðlaust. Og það hélt ég, að öllum ætti að geta verið ljóst, að á krepputímum eins og nú eru ríður á því, að svo miklu fé sé hætt, sem nauðsyn krefur til þess að halda gangandi atvinnuvegunum, allt þó með þeirri gætni, sem unnt er, og þeim tryggingum, sem taldar eru góðar, þegar lánin eru veitt, en sem geta brugðist, ef t. d. illa aflast eða verðhrun á afurðum verður mikið.

Það er í alla staði eðlilegt um okkur, sem ekki höfum vitað, hvað peningar voru, fyrr en á síðustu árum, þó að menn hafi verið allbjartsýnir á arðvænleik hinna ýmsu fyrirtækja, sem að vísu reyndust ekki svo sem vonir stóðu til, en litu þó vel út í fyrstu. Hv. 1. flm. þessarar till. er alltaf að klifa á því, að bankarnir hafa tapað. En ég fæ ekki séð, að það sé neitt óeðlilegt. Mér skilst, að það sé í alla staði eðlilegt, þó að bankarnir hafi tapað á þessu tímabili, sem er eitthvert hið mesta breytingatímabil, sem yfir okkar þjóð hefir gengið, þar sem styrjöldin mikla, sem ruglaði öllum verðmætum, bætist ofan á alla framkvæmdasemi í landinu. Hitt vekur undrun mína, að við skulum ekki vera verr staddir en við erum, og það sýnir, að eitthvað hefir staðið á bak við; þrátt fyrir öll mistökin, er ástandið ekki verra en það, að engin ástæða er til að óttast. Skilamennirnir hafa staðið undir því, sem á hefir skort til þess, að einn og annar gæti innt skuldbindingar sínar af hendi. Hv. 1. flm. þótti sem skuldir skilamanna væru auknar með hinum háu vöxtum. Því miður er þetta svo, en hjá því verður ekki komizt. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að fyrirtæki yfirleitt byggi afkomu sína á skilamönnunum. Þau verða að leggja á fyrir vanhöldum, og sú álagning lendir á skilamönnunum. Svo er þetta um allar verzlanir, til dæmis. Það er því misskilningur einn, að bankarnir fremur en önnur fyrirtæki geti komizt hjá því að íþyngja skilamönnunum að þessu leyti.

Hv. flm. hélt því fast fram, að hinir háu vextir stöfuðu af töpum bankanna. Ég veit ekki, hvort hv. flm. man það, að á árunum frá 1908–10 voru vextir hér 9% og meira. Veit ég þó ekki betur en að bankarnir hafi staðið í blóma þá og ekki verið farnir að tapa. En það voru kringumstæður umheimsins, sem réðu því, að vextir voru svo háir. Bankarnir störfuðu með dýrt fé, sem þeir gátu ekki selt ódýrar. Það er að vísu rétt, að spariféð er ódýrt, vegna þess að innlánsvextir eru ekki háir, en það er mjög mikið vafamál, hvort það innlánsfé borgar sig fyrir banka, sem eins og hér á stendur er á mjög margra höndum í mjög smáum skömmtum.

Ég hafði ekki hugsað mér að fara út í þá sálma, hvort hægt væri að lækka vextina eða ekki, en svo mikið get ég sagt, að hv. flm., sem öðrum bankaráðsmönnum Útvegsbankans, ætti að vera kunnugt um, hversu hægt er um vik með að lækka vextina hjá þeim banka. Ef aftur á móti Landsbankinn sæi sér fært að lækka sína vexti, mundi það létta undir með Útvegsbankanum. En það er nú ekki svo ástatt hjá sjálfum seðlabankanum, að hann geti eða megi lækka vextina. Hv. flm. var þetta auðsjáanlega ekki ljóst. Það er eins og hann skilji það ekki, að ef vextirnir eru lækkaðir, hlýtur óhjákvæmilega af því að leiða, að los kemur á innlánsféð. Sá sparifjareigandi, sem á það mikið inni, að hann vill gjarnan leggja fé sitt í fyrirtæki, dregur sig til baka, þegar vextirnir eru háir og hann því þarf að kaupa það fé, sem hann þarf til viðbótar eigin fé, til þess að koma fyrirtækinu á stað, við of háu verði. Það var engu líkara en að hv. flm. sæi ekki aðra en þá, sem ekkert eiga. En það eru ekki þeir, sem þetta mál skiptir, heldur hinir, sem eitthvað eiga og mundu leggja fé sitt í fyrirtæki, ef þeir gætu fengið ódýrt lánsfé til viðbótar. En einmitt á móti því, að þessir menn leggi fé sitt í spekulationer, er verið að reyna að hamla, og eina ráðið til þess er að hafa vextina háa.

Hv. flm. minntist á hag botnvörpunganna. Ég get viðurkennt það, að þörf er á vaxtalækkun þar, en ég vil bæta því við, að það veltur ekki mest á því fyrir þann útveg. Þar er margt annað, sem verra er. Sú óbilgirni og skilningsleysi, sem ríkt hefir í garð togaraútgerðarinnar, er miklu verri en þó að útgerðin sé látin borga ½% meiri eða minni vexti.