02.03.1931
Neðri deild: 13. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (474)

43. mál, lækkun vaxta

Pétur Ottesen:

Út af svari hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni um það, hvað stj. hefði gert út af þáltill., sem hér var samþ. í fyrra í þessu máli, verð ég að segja nokkur orð.

Hæstv. ráðh. fór í sambandi við þessa fyrirspurn mína að tala um það, hvaða skilyrði væru fyrir því, að vextirnir gætu lækkað. Drap hann í því sambandi á afgreiðslu bankamálsins á síðasta þingi. Ég byggði það, sem ég sagði, á ummælum hæstv. forsrh., þeim sem hann viðhafði hér í deildinni í fyrra í forföllum hæstv. fjmrh., og gengu í þá átt, að vextir væru hér óþarflega háir og ranglátlega vegna atvinnuveganna.

Út af þessari skoðun hæstv. ráðh. gerði ég fyrirspurn um það, hvort hæstv. stj. hefði ekkert gert í þessu efni. Hæstv. fjmrh. hefir nú svarað því, að ekkert hafi verið gert, enda sé æðsta stjórn þessara mála ekki í höndum stj., heldur bankaráðsins. Þetta er ekki rétt. Fjmrh. er æðsti maður þessarar stofnunar sem fyrr. Getur hann þess vegna að sjálfsögðu haft hin víðtækustu áhrif á starfsemi bankanna.

Annars get ég verið stuttorður, þar sem ég hefi nú fengið yfirlýst, að hæstv. landstj. hafi ekkert gert í þessu efni.

Ég vil aðeins segja nokkur orð út af þeim orðum hæstv. fjmrh., að nú sé búið að draga yfirráð bankanna úr höndum Alþingis, og sé það vel farið. En þetta er alls ekki rétt. Landsbankanefndin, sem skipuð er 15 mönnum, er eingöngu skipuð þingmönnum. Nú er það því þessi hluti þingsins, sem afskipti hefir af bankanum, en áður þingið í heild. Þrátt fyrir þessa breyt. er því yfirstjórn bankans eins háð þingi og stj. og áður var. Auk þess kýs þingið menn í bankaráðið.

Hvað viðvíkur þeim orðum, sem hv. þm. Mýr, skaut inn i, að Framsóknarflokkurinn ætti ekki nema tvo menn í bankaráðinu, þá er það að vísu rétt. En allt fyrir það kaus Framsókn þrjá menn í bankaráðið, tvo framsóknarmenn og einn sósíalista. Sósíalistar höfðu ekki aðstöðu til að koma manni í bankaráðið, en leituðu aðstoðar Framsóknar, sem auðvitað var fúslega látin í té í þessum kosningum, sem öðrum, t. d. nefndarkosningum innan þingsins. En þar sem Framsóknarflokkurinn hefir kosið meiri hl. bankaráðsins, hefir hann þar auðvitað meirihlutavald og aðstöðu til þess að ráða úrslitum allra mála.

Ég vil aðeins minnast á það, sem hv. 2. þm. Árn. sagði, að það væri álit bankastj., að það væri yfirleitt skilyrði til þess, að slíkar stofnanir væru á hinni grænu grein, að þær hefðu sem hæsta vexti. Þetta er mjög hæpin ályktun, ef rétt er höfð eftir hjá hv. 2. þm. Árn., var sem það er alkunna, að mikill hluti af veltufé landsmanna er lánsfé. Það hlýtur að skipta mjög miklu máli fyrir atvinnufyrirtækin, hve háir vextirnir eru á hverjum tíma. Þar sem bankarnir eru til orðnir fyrir atvinnuvegina, en atvinnuvegirnir ekki fyrir bankana, þá mega þeir ekki hafa hærri vexti en brýnasta nauðsyn krefur. Það er þess vegna vafasamt, að bankastjórunum sé óhætt að láta drepa sig upp á það, svo ég noti orð hv. 2. þm. Árn., að háir vextir séu hinn eini lífselixír í fjármálum þjóðarinnar.