03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (479)

43. mál, lækkun vaxta

Bjarni Ásgeirsson:

Ég hafði hugsað mér að sitja hljóður hjá, meðan þessi hjaðningavíg, sem háð eru um vexti bankanna, standa yfir hér í hv. deild. Ég hélt satt að segja, að Alþingi ætti nógu örðugt með að ráða við þau mál, sem það hlýtur að taka til meðferðar og sem eru þó þess eðlis, að það getur haft nokkur áhrif á, þótt það væri ekki að blanda sér inn í mál, sem algerlega standa utan við verksvið þess og það ræður á engan hátt við. Það væri að vísu mikilsvert, ef hægt væri að lækka bankavextina í landinu, sem eru nú svo háir, að segja má, að þeir fleyti rjómann ofan af framleiðslunni. En eins og upplýst hefir verið, og eigi móti mælt með rökum, þá þarf miklu meira til að leysa það vandamál heldur en eina litla þál., hversu vel sem mælt kann að vera fyrir henni. Ég held, að eins mætti flytja þál. um, að tíðarfar það, sem nú þjakar okkur, batnaði.

Það er vitanlegt, að fjármál okkar eru algerlega í klóm alheims-auðvaldsins og að við fáum engu þokað um þau kjör, sem það skapar okkur. Um innlenda féð, seðla og sparifé, er það að segja, að Alþingi hefir afsalað sér valdi sínu um ákvörðun vaxta til bankaráðs, gegnum bankanefndina. Ættu hv. þm., sem flestir hafa verið með í því að skapa það fyrirkomulag, að skilja þetta (GunnS: Má ekki breyta þessu?). Jú, að vísu mætti breyta þessu, en þá verður að bera till. fram um það á réttan hátt. Vindhögg, eins og þessi þál., duga ekki. Yfirstjórn bankans er að vísu kosin af Alþingi. En það var leitt, þegar kosið var í bankanefndina í fyrravetur, að ekki skyldi þá vera kosið með tilliti til þessa máls. Því miður verður ekki kosið á þessu þingi. En á næsta Alþingi verður kosið, og þá ættu þeir, sem telja vaxtalækkun mögulega, að muna eftir því að kjósa fulltrúa í samræmi við þá skoðun sína. Nú er þetta of seint og því ekki til neins að tala um það.

En að þessu slepptu er þó máske ein leið eftir enn. Ef þingflokkarnir væru sannfærðir um, að bankarnir gætu í raun og veru lækkað vextina, þá ættu þeir að geta haft áhrif á fulltrúa sína í bankaráðinu og fengið þá til að lækka vextina. — Það skaut einn hv. þm. því fram hér í gær, að Framsóknarflokkurinn hefði meirihluta í bankaráðinu, þegar sá sósíalisti, sem þar er, væri meðtalinn. En þetta er ekki rétt. Framsókn á tvo menn í bankaráðinu, en um ákvörðun vaxta greiða atkv. bæði bankaráðsmenn og bankastjórar í sameiningu. Framsókn þyrfti því að eiga ráð á 5 atkv. til þess að geta ráðið þessu.

Hv. þm. Borgf. sagði, að hæstv. forsrh. hefði verið með till. í fyrra um að lækka vextina. Það er rétt, að hann vildi gjarnan gera sitt til, að vextirnir lækkuðu, og mun því hafa greitt atkv. með till. Nú telur hv. þm. Borgf., að engar efndir hefðu á þessu orðið. Það er að vísu rétt, að þrátt fyrir góðan vilja, gat hæstv. stj. engu um þokað með vextina. Er það af þeirri eðlilegu ástæðu, að stj. hefir ekkert vald til að hlutast til um það. Valdið, sem til þess þurfti, er lögbundið hjá öðrum aðila, eins og ég hefi áður skýrt frá. En hæstv. forsrh. sýndi þó hug sinn til þessa máls, er ákveðnir voru útlánsvextir Búnaðarbankans. Þar eru almennir útlansvextir (víxilvextir) ekki nema 7%. Af því sést, hvort honum var ekki alvörumál, að vextirnir lækkuðu. Í hinum bönkunum gat hann ekkert að gert vegna gildandi laga. Ég vildi aðeins taka þetta fram, af því að hæstv. forsrh. er fjarstaddur vegna lasleika.

En það, sem aðallega kom mér til að standa upp, voru ummæli hv. þm. Dal. Sá hv. þm. hóf þann leik, sem ég hefi ekki heyrt leikinn fyrr hér á Alþingi í umr. um slíkt mál sem þetta, þar sem hann fór að draga einstakar lánveitingar bankanna inn í umr. Ég hélt nú satt að segja, að hv. þm., sem til skamms tíma hefir verið bankastjóri, mundi naumast fara að hætta sér út á svo hálan ís að fara að „diskutera“ einstakar lánveitingar. — Þá fyrst færi nú að verða skrítinn hráskinnsleikur leikinn hér á Alþingi, ef slíkt væri gert. Og ég held, að sá leikur mundi naumast verða leikinn hv. þm. Dal. til ánægju. — Ef það hefir verið meining hv. þm., að sýna það, að Búnaðarbankinn hafi farið út fyrir starfssvið sitt með því að lána S. Í. S., þá hefir árásin algerlega misheppnazt. Búnaðarbankinn á samkv. tilgangi sínum að vera bændabanki. En í S. Í. S. er langmestur hluti félagsmanna bændur og meginþorri bændanna á Íslandi mynda Sambandið. Lánið er því veitt bændum, eins og tilgangur bankans er. Ef hv. þm. Dal. hefir meint það, að lán þetta borgaðist ekki, væri ótryggt, þá held ég þó, að réttara hefði verið fyrir hann að bíða með ákærur sínar, þar til það hefði sýnt sig, að bankinn þyrfti að afskrifa þetta lán. Þegar það hefir sýnt sig, að þess þurfi, þá er líka hægt að taka þessar umr. upp á breiðari grundvelli og tala þá um hinar ýmsu, einstöku lánveitingar, sem bankarnir yfirleitt hafa í té látið. En á meðan Búnaðarbankinn hefir ekki þurft að hækka vextina vegna afskrifta af þessu eða öðrum lánum, þá ætti þessi hv. þm. að láta lánveitingar hans í friði.