03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í D-deild Alþingistíðinda. (482)

43. mál, lækkun vaxta

Pétur Ottesen:

Ég gerði fyrirspurn til hæstv. stj. um það, hvað hún hefði aðhafzt í þessu máli frá því í fyrra, og vitnaði ég í ummæli hæstv. forsrh. frá í fyrra um það, að vextirnir væru óþarflega og ranglátlega háir. Hv. þm. Mýr. reyndi í síðustu ræðu sinni að þvo hendur stj. í þessu máli. En ég vil þá segja þeim hv. þm. það, að ég hefi nú í ræðu hæstv. fjmrh. fengið yfirlýsingu um það, að stj. hefir ekkert gert í þessu máli frá því í fyrra. Hæstv. ráðh. sagði, að hann hefði engu lofað um þá hluti, og lét helzt á sér skilja, að loforð hinna ráðherranna um þetta væru ómerk. Mér var ekki grunlaust um, að þessu væri í rauninni svo varið, og nú hefi ég fengið staðfesting á því frá hlutaðeigandi ráðh. Eru þessar upplýsingar nokkurs virði að því leyti, að þær gefa bendingu um, hvers megi af vænta, ef þessi till. verður samþ. nú.

Þá var hv. þm. Mýr. að minnast á það, að vextir væru miklu lægri í Búnaðarbankanum en í Landsbankanum. Þetta er að vísu alveg rétt, en þess ber vel að gæta, að allar ráðstafanir hins opinbera, er snerta Búnaðarbankann, hafa hnigið að því að búa hann svo úr garði, að hann gæti boðið betri kjör en aðrir bankar. Það er líka viðurkennt, að landbúnaðurinn þarf sérstaka aðstöðu í lánamálum, og vextir hans verða að vera að sama skapi minni sem áhættan er minni en annara atvinnugreina. Þó er það nú svo, að vextir Búnaðarbankans eru mun hærri heldur en hæstv. forsrh. var búinn að ákveða í nýútgefinni reglugerð. Til þess liggja sjálfsagt eðlilegar ástæður, og þýðir ekki um það að sakast að svo stöddu.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að fara lengra út í þetta mál. Hæstv. fjmrh. gaf mönnum einskonar ávísun á landsbankanefndina, eða jafnvel mig, til upplýsinga og aðgerða í þessu máli. Hæstv. ráðh. skýtur alveg fram hjá markinu, að gefa ávísun á mig viðvíkjandi þessu máli, þar sem ég er ekki í nefndinni. Auk þess sagði ég ekki annað um þá nefnd en það, að landsbankalögin frá 1928 hefðu ekki dregið valdið algerlega úr höndum þingsins. Þetta er þess vegna rangfærsla hjá hæstv. ráðh. Annars er aðstaða okkar svo ólík í þessum efnum, að varla er viðeigandi af honum að vísa til mín í þessu máli, þar sem ég er ekki einu sinni í þessari landsbankanefnd, sem ég hygg þó, að ekki sé litið stórum augum á, en hann er æðsti yfirmaður þessarar stofnunar, og þess vegna er eðlilegt, að menn beini orðum sínum frekar til hans en annara manna, valdalausra um þessa hluti.

Það er rétt, að þegar þeir hv. þm. Str. og hv. 2. þm. Árn. fluttu á þinginu 1927 þáltill. um að skora á þáv. stj. að hlutast til um lækkun vaxta, þá voru núgildandi landsbankalög ekki orðin til. En frv. til þeirra lá þá samtímis fyrir þinginu, og flm. sem öðrum var það vel ljóst, að þau yrðu komin í gildi í þann mund, sem till. kæmi til framkvæmda. Flm. litu þá svo á, að enda þótt það frv. yrði að lögum, og þrátt fyrir þar af leiðandi breyt. á bankanum, þá væri það fullkomlega á valdi stj. eftir sem áður, að hafa áhrif á vexti bankanna. Þeir hljóta því að líta svo á nú. (BÁ: Lögin voru ekki komin í gildi þá). Það er þýðingarlaust fyrir hv. þm. Mýr. að ætla að smjúga út um þessa smugu, hvað þá heldur þá, sem boldigrari eru en hann.