03.03.1931
Neðri deild: 14. fundur, 43. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í D-deild Alþingistíðinda. (485)

43. mál, lækkun vaxta

Hákon Kristófersson:

Það voru sérstök ummæli, sem komu fram frá merkum þm. í gær, sem ég ætla að minnast á. Þau voru á þá leið, að við flm. þessarar till., mundum hafa borið hana fram til þess að sýnast fyrir kjósendum fyrir kosningarnar. Ég vil segja fyrir mig, að þessi tilgáta er bæði ósanngjörn og óviturleg, og ég býst ekki við, að menn hafi séð hv. meðflm. mína vera að dingla skottinu frammi fyrir kjósendum sínum.

Ég leit svo á fyrr, að þessi till. væri meinlaus, ef ekki gagnslaus. En svo fæ ég þær upplýsingar frá einum meðflm. þessarar till., að nú væru sérstakar líkur til þess, að till. fengi góðar viðtökur hjá bankastjórninni, sem mest hefir um málið að segja. En um hug núv. hæstv. stj. efaðist enginn. Hún hafði lengi kennt áhugaleysi fyrrv. stj. um það, að vextirnir lækkuðu ekki, því að hún hefði haft málið alveg í höndum sér. Þá taldi ég, að þessir heiðursmenn sýndu mér mikinn sóma með því að lofa mér að vera með að flytja till., og hélt, að hún ætti fyrir sér á næstu dögum að sigla í fagra höfn.

En svo kemur það á daginn, að stj. eigi engin ítök í bankanum. Þessu hefði ég trúað, ef ég hefði ekki verið búinn að fá þessar upplýsingar, sem ég gat um. Þegar bankastjórar eins og hv. þm. Mýr. reyna að telja okkur trú um, að stj. hafi engin ráð á þessu, þá ætti maður að trúa svo vitrum mönnum og fróðum um slíka hluti. En ég bið velvirðingar, ef orð mín skyldu verða tekin sem lítilsvirðing; ég er ekki svo auðtrúa. Hið gagnstæða sanna einmitt ummæli jafnmerks þm. og hv. 2. þm. Árn., bæði hér í deildinni og eins á fjölmennum stjórnmálafundi við Ölfusárbrú, eins og hv. 2. þm. G.-K. tók fram í gær. Og vitanlega hefir Framsóknarflokkurinn ekki farið að trúa neinni liðleskju til að fara með fjármálastjórnina; því trúir enginn maður. En þessu gæti verið þannig háttað, að þegar reynslan fór að tala, hafi stj. séð, að þetta lá ekki eins laust fyrir og haldið var. Og einmitt þau gætilegu orð, sem hæstv. fjmrh. lét falla hér í deildinni í gær, gefa mér fullvissu um þetta. En þá finnst mér skorin færast upp í bekkinn, þegar bankastjórinn, hv. þm. Mýr., fer að segja, að þingið hafi engin ráð. Þessi „húmbúgs“-nefnd, sem það kýs, hafi ekkert vald. Þá hefir hv. 1. þm. S.-M. skýrt rétt frá henni. Hv. þm. Mýr. þykir þessi till. álíka vanhugsuð eins og ef þm. hefðu komið fram með till. um að breyta tíðarfarinu. Hvað á maður nú að segja, þegar þessi ummæli koma frá bankastjóranum, sem sæti á hér í deildinni? Þá sér maður nú erfiðleikana, sem við þarf að stríða. Það er ekki vantraust á stj., þó að ég segi, að það sé ekki til neins að skora á hana að bæta tíðarfarið, og ég vona, að ekki sé að rísa að hennar tilhlutun neinn urðarmáni vestur í Barðastrandarsýslu, mér til höfuðs. Ég hefi aldrei verið lífhræddur, og þeir lifa lengst, sem með orðum er vegnir.

Ég skal svo láta máli mínu lokið viðvíkjandi þessari till. Hv. 1. þm. S.-M., sem er þessum hnútum kunnugur, bæði bankanum og landstj., vill samþykkja till., þó að hann haldi, að hún sé alveg gagnslaus. Þó að ég vilji ekki átelja minn ágæta sessunaut og mér eldri mann, verð ég að ráða honum til að leika sér ekki með atkv. sitt. (SvÓ: Ég sagði ekki, að hún væri gagnslaus). Ég ætla ekki að erta þennan góða vin minn með hans eigin orðum.